Við höfum líklegast öll velt því fyrir okkur á einhverjum tímapunkti í hvers lags gerviveröld við lifum. Ég hef mikið velt þessu fyrir mér upp á síðkastið en kveikjan að því var sú að við fluttum í nýtt húsnæði og loksins loksins loksins vorum við komin með sitthvort barnaherbergið fyrir stelpurnar okkar. Áður en við fluttum bjuggum við þrjú og stundum fjögur í rúmlega 40 fermetrum og enginn átti sitt herbergi, við vorum bara öll í sama svefnherberginu. Koja eldri stelpunnar var staðsett fyrir ofan rúmið okkar til þess að spara pláss og vagga litlu stelpunnar var staðsett einhvers staðar þar sem hún komst fyrir hverju sinni. Þið getið rétt ímyndað ykkur hversu spennt ég var að komast í húsnæði með þremur svefnherbergjum og missa mig í svo svakalegri innanhúshönnun að annað eins hefði aldrei sést!

MÁLAMIÐLUNIN

Við Nathan hugsuðum alls ekki eins þegar að kom að því að skipuleggja barnaherbergin. Ég var að sjálfsögðu búin að liggja yfir Pinterest og búin að ímynda mér að barnaherbergin okkar yrðu jafn stílhrein og þar. Nathan vildi hins vegar ferja gömlu kojuna yfir á nýja staðinn til þess að nýta gólfplássið betur svo að eldri stelpan okkar hefði meira pláss til að leika sér. Mér fannst þessi koja svo hræðilega ljót og vildi alls ekki sjá að þetta yrði tekið með. Málamiðlunin var sú að við keyptum nýtt rúm í Ikea, sem er stækkanlegt í tvíbreitt rúm og með mjög ríflegri hirslu undir sér þar sem hægt er að geyma heilu haugana af leikföngum. Svo þegar ég var búin að raða þessu öllu fallega upp þá auðvitað vildi sú stutta fara að leika sér í herberginu sínu með allt dótið sitt. Skemmst er frá því að segja að ekki sést í gólfið þegar hún er hjá okkur, bara aldrei!

Afhverju er það?

Jú af því að hún er barn sem er að leika sér með ALLT dótið í einu og það er hver krókur og kimi nýttur til þess. Hún krotar líka útfyrir þegar hún er að lita svo að skrifborðið hennar er ekki lengur skjannahvítt og ég skal segja ykkur það að skrúbbkremið dugar skammt þegar kemur að tússlitum.

Er ég alein um að finnast þetta vera nokkuð algeng sjón í barnaherbergjum? Mynd: Krazykingdom.blogspot.com

LATA MAJA

Mynd: Rúmfatalagerinn

Maðurinn minn sagði mér að þegar hann var lítill þá náði mamma hans bara í fægiskóflu og skóflaði öllu draslinu ofan í kassa. Ég hafði séð fyrir mér að hvert leikfang ætti sinn stað og að „Lata María“ kæmi þar hvergi nærri, engu yrði skóflað, einungis raðað fallega. En lífið er of stutt til þess að elta á sér skottið og eyða stanslausum tíma í að reyna að raða einhverju hornrétt sem er jafn óðum rifið fram. Svo núna þegar elsku Matta okkar er hjá okkur þá fær hún að leika sér og svo hjálpumst við að við að ganga frá en eyðum ekki alltof miklum tíma í það, reynum bara að ganga frá svo hægt sé að ganga um og að þetta sé svona þokkalega snyrtilegt. Markmiðið er aðallega að hægt sé að þrífa herbergið og að kenna stelpunni okkar að ganga frá eftir sig.

ALLT Í STÍL

Ég hef rekist á svo margar bloggfærslur, instagröm og þess háttar upp á síðkastið þar sem verið er að sýna innan úr stílhreinum og fallegum barnaherbergjum og ég fyllist í alvörunni vonleysi og bugun. Afhverju eru barnaherbergin okkar ekki svona útlítandi alltaf? Svarið er: Af því að það er alvöru barn að nota herbergið sitt heima hjá þér og þú hefur nóg annað að gera en að vera stanslaust að raða barbídúkkum fallega. En afhverju er ekki allt í sömu litapallettunni, pastel eða svart&hvítt? Af því að barnið þitt fékk hvolpasveitarrúmföt í afmælisgjöf frá langömmu og elskar þau og þú hefur ákveðið að troða þessum grámyglulegu hönnunarrúmfötum upp á sjálfa þig frekar. Núna er ég aðallega að líta í kringum mig hvort ég sjái ekki einhverja krúttlega taupoka því ég ætla jú eftir allt saman að fara að koma mér upp fægiskóflu og byrja að moka ofan í þá upp úr gólfinu.

Barnaherbergið átti að vera stílhreint og fallegt. Mynd: Pinterest
Pinterest er troðfullt af skemmtilegum hugmyndum. Mynd: Pinterest

AÐ LEYFA SÉR AÐ DREYMA

En ekki misskilja mig, ég mun ennþá láta mig dreyma um Pinterest barnaherbergið sem er allt í stíl. Ég mun dáðst af fagurkerum sem ná að halda þessu svona fallegu alltaf því það er hægt með eljusemi, og ég mun halda áfram að reyna að hafa herbergið eins flott og hægt er en ég ætla að lækka niður í kröfunum verulega og sjá hvernig herbergið fúnkerar best fyrir alla fjölskyldumeðlimi. Þetta er langtímaverkefni sem er stanslaust í mótun og það á að vera skemmtilegt! Einhvern tíma sagði vinkona mín við mig: ,,Þú ert svo sönn Anna“. Mér þykir ótrúlega vænt um þessi fallegu orð til mín og ég vil halda í þennan eiginleika.  Ég vil ekki að einhver haldi að lífið mitt sé Pinterest því það er svo langt frá sannleikanum. Að horfast í augu við það og að viðurkenna það gerir mig hamingjusama.

Svona lítur herbergið hennar Möttu út í alvörunni á milli þess sem það er nýtt í leik:

Photo 29-05-2018, 13 04 02
Photo 29-05-2018, 13 03 39
Photo 29-05-2018, 13 04 21

Eins og sést þá er næstum því ekkert í stíl, en allt uppáhalds dótið er aðgengilegt og Matta er ánægð með herbergið sitt sem skiptir mestu máli.

Þangað til næst,

 

Anna Ýr

Anna Ýr Gísladóttir er förðunarfræðingur, móðir og stjúpmamma, fagurkeri, heklari og föndrari ásamt mörgu öðru! Þú finnur Önnu á Instagram undir @annayrgisla