Oft hef ég pakkað of miklu inn á dagana mína og endað daginn á því að vera dauðþreytt en samt ekki búin að ná að gera neitt almennilegt af viti, allavega ekki af því sem skiptir mig mestu máli. Svo las ég grein sem ég fann á netinu sem breytti algjörlega lífi mínu (finn hana því miður ekki aftur). Dagarnir mínir fóru að breytast frá því að vera einkenndir af stressi og kaótík yfir í afslappaðri og metnaðarfyllri daga.

Mig langar að deila þessari aðferð með ykkur og sýni ykkur eins og ég hef sniðið hana að mínum þörfum.

Tilgangurinn með þessu er svo að maður geri sér grein fyrir markmiðum sínum og hvað það er sem maður vill upplifa í lífinu. Fegurðin við að skrifa þetta allt niður gerir manni kleift að áætla hvernig og hvað þarf til. Ég mæli með að prófa þetta allavega í eina viku.

Daglegur listi: Fimm hlutir í dag og fimm hlutir í lífinu

Keyptu þér bók sem þú getur skrifað í og byrjaðu hvern dag á því að skrifa niður fimm hluti sem þú ætlar þér að gera þann dag. Það getur verið eitthvað sem þú hefur fyrirfram ákveðið eða jafnvel einfaldir hlutir eins og að borða kvöldmat. Ég nýti morgunkaffið í að byrja daginn rólega og til að setja mér áform fyrir daginn. Gott er að skrifa bæði það sem þú veist að þú þarft að gera og svo það sem þér langar mest að gera eða jafnvel það sem gæti hjálpa þér að ná markmiðum þínum.

Þessa bók keypti ég í Söstrene Grene fyrir 379 kr. Þessi færsla er ekki kostuð.

Næst skaltu skrifa niður fimm hluti sem þú vilt gera eða eignast í lífinu, hvort sem þér finnist það vera raunhæft eða ekki (hugsaðu STÓRT og leyfðu huganum að reika og dreyma, það eru engir draumar of kjánalegir til að skrifa niður).

Þessi listi getur t.d. litið svona út: Fara í heimsreisu, vinna dans keppni, kaupa hús, komast í gott form fyrir sumarið eða hvað annað sem þig dreymur um að upplifa/gera/eignast.

Eftir því sem þú skrifar þessa lista oftar ferðu að sjá mynstur, einhverjir hlutir munu áfram vera eins en aðrir detta út af listanum og nýtt kemur inn. Þannig geturu séð fyrir þér hvað þú raunverulega vilt í lífinu og sigtað út loftbólurnar sem taka þinn dýrmæta tíma.

Þegar þú veist betur hvað þú vilt geturu sett fram raunhæf markmið. Ef að draumurinn er að ferðast seturu þér markmið sem hjálpar þér að safna peningum eða finna nýja skapandi leið til að þéna peninga og safna fyrir ferðinni. Sama formúla gildir um allt annað.

Setja upp sýniskort eða ,,vision board“

Önnur aðferð sem mér finnst virka vel er að gera ,,vision board”. En til þess er gott að vera ákveðin/n með það sem maður vill. Það er góð regla að setja hvað sem er sem veitir þér innblástur á sýniskortið, allt sem gleður þig og þér finnst fallegt. Hugmyndin er að allt sem fer á sýniskortið verður að veruleika.

Það eru til ótal leiðir til að búa til sýniskort en ein af einföldustu leiðunum er að nota korktöflu eða einfaldlega vegginn heima hjá sér til að pinna- eða líma upp myndirnar. Þú getur prentað út myndir, orð sem hafa merkingu fyrir þig eða sett upp póstkort af stöðum sem þú vilt heimsækja.

Veldu  góða staðsetningu fyrir sýniskortið þitt þar sem þú veist að þú munt sjá  það reglulega. Ég hef mitt kort inni í svefnherbergi og þannig verður það auðveldlega eitt af því fyrsta sem ég sé þegar ég vakna.

Ást og friður,

Kristín Einars

Kristín Einars er 26 ára förðunarfræðingur og móðir. Hún lærir myndlist í Listaháskóla Íslands, en hefur unnið sem freelance förðunarfræðingur frá árinu 2013, ásamt því að hafa starfað við að kynna snyrtivörur.
Kristín skrifar um sín helstu áhugamál sem eru förðun, hönnun, eldamennska, uppeldi og jóga.

Instagram @kristineinarsmua – Daglegt líf
@kristineinarsmakeup – Allt sem tengist förðun
Facebook.com/makeupbykristineinars