Sæl verið þið,

Ég er nýr pistlahöfundur hér á Pigment og er ótrúlega þakklát fyrir að fá þetta skemmtilega tækifæri og þvílíkur heiður að fá að slá í hópinn með þessum frábæru stelpum. Ég er búin að fara fram og til baka um það hvort ég ætti að gera kynningarblogg eða demba mér bara beint í eitthvað förðunar- eða föndur tengt blogg, hugsaði með mér að það kannski myndi enginn nenna að lesa kynningarblogg frá mér.

En jú, tilgangurinn með þessu bloggi er svo að þið getið kynnst mér aðeins betur og hreinlega til að koma til dyranna eins og ég er klædd, með alla mina kosti og galla. Persónulega finnst mér skemmtilegt að lesa blogg annarra og sjá hvernig þau lifa sínu lífi frá degi til dags því mér finnst ég vera að kynnast manneskjunni og get þannig tengt betur við hana og það sem hún skrifar um.En hvers vegna ættuð þið kæru lesendur að lesa blogg frá mér um það hvernig maður á að föndra og farða sig ef þið vitið ekki hvort ég viti baun í bala um það sem ég segi?

Róleg en skapstór

Ætli ég byrji ekki bara á byrjuninni. Ég heiti Kristín Einars og er 25 ára hálf íslensk/filipísk stelpa, fædd og uppalin í Kópavoginum. Í dag bý ég hins vegar í hinni frábæru Reykjavíkurborg með yndislegum kærasta, eitursvölum fjögurra ára syni mínum og litlum svörtum hnoðra af kattarkyni (gleymum samt ekki hinum hnoðranum, frumburðurinn, Chihuahua rakki, sem býr núna hjá ,,ömmu sinni og afa”). Ég er svolítill hippi í mér, rólega týpan en á sama tíma skapstór, ákveðin og svo hálfgerður nagli, sem þarf víst til ef maður á að ala upp barn sem er ofur orkuríkt eintak.

Louvre, Paris með Alexander
Elías

Förðunarfræðingur og myndlistarkona

Ég er lærð sem förðunarfræðingur og hef starfað við það frá árinu 2013, hef unnið að skemmtilegum verkefnum t.d. fyrir auglýsingar og myndatökur, ásamt því að hafa starfað fyrir snyrtivöruheildsölu. Ég lærði fatahönnun í framhaldsskóla en áhuginn minn hefur alltaf verið meiri í myndlist. Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri er að búa til eitthvað nýtt og ég kem til með að vilja deila því með ykkur, sem dæmi má nefna DIY verkefni.

Fyrir utan uppruna, starfstitil og menntun þá elska ég að dansa, ferðast og er vandræðalega spennt fyrir plöntum. Þar að auki er ég áhugamanneskja um andlegum málefni sem tengjast hugleiðslu, jógafræði og heilbrigðu mataræði.

Ég sé fram á það að skrifa ýmist mikið um þessi frábæru áhugamál mín því það er það sem ég veit og kann best.

Ef þið hafið áhuga á að fylgjast með mér á öðrum samfélagsmiðlum þá er ég með opið instagram bæði perónulegt  www.instagram.com/kristineinarsmua og allt sem tengist förðun www.instagram.com/kristineinarsmakeup

Takk fyrir að lesa! <3

Kristín Einars

Kristín Einars er 26 ára förðunarfræðingur og móðir. Hún lærir myndlist í Listaháskóla Íslands, en hefur unnið sem freelance förðunarfræðingur frá árinu 2013, ásamt því að hafa starfað við að kynna snyrtivörur.
Kristín skrifar um sín helstu áhugamál sem eru förðun, hönnun, eldamennska, uppeldi og jóga.

Instagram @kristineinarsmua – Daglegt líf
@kristineinarsmakeup – Allt sem tengist förðun
Facebook.com/makeupbykristineinars