Þeir sem mig þekkja og þeir sem hafa fylgst með mér í einhvern tíma vita að eitt af mitt helstu áhugamálum og ástríðum (fyrir utan förðun) eru dýr; nánar tiltekið hundar. Ég veit ekki hvað það er en þegar ég sé hund (reyndar öll dýr) úti á götu þá tjúllast ég úr gleði og verð að dást af honum eða klappa honum ef hundur og eigandi leyfa. Ég elska líka stóra hunda og besta vinkona mín hefur stundum sagt í gríni að dauðdagi minn muni sennilega fela í sér að ég hafi klappað einhverju dýri sem ég átti ekki að klappa.

Ég hef alltaf verið rosaleg dýramanneskja en ég ólst upp í dreifbýli og hef alltaf lifað við að vera með eitt, tvö eða fleiri dýr inni á heimilinu. Einnig höfum við fjölskyldan alla tíð verið með hestabúskap og ég eyddi miklum tíma á bóndabýlum hjá vinkonum mínum svo að ég er flestu vön. Ég átti mér svo alltaf þann draum heitastan að fá mér hund en lét kött „nægja“ þar sem að ég var aldrei með aðstöðu til þess.

Sagan af Dexter

Eins og þeir sem ég þekkja mig vita líka þá er ég mjög fljótfær. Snemma árs 2016 var ég á leið að flytja í húsnæði þar sem ég gat verið með hund og ákvað að kíkja eftir gotum. Strax í fyrstu tilraun sá ég auglýsingu um got á labrador/pointer blöndu en báðar tegundirnar höfðu verið í miklu uppáhald hjá mér. Ég ákvað að fara fljótlega að skoða og féll auðvitað fyrir hvolpunum (því hver gerir það ekki?). Ég skoðaði nokkra og hélt á einum þegar eigandinn tók einn hvolp í viðbót upp úr gerðinu og sagði „Svo er það þessi hérna.“ Á móti mér tók sérstaklega krumpaður hvolpur sem var settur í fangið á mér. Ég veit ekki hvað það var en ég hugsaði strax „Ég á þig.“ Ég ákvað að láta taka hann frá og hugsa aðeins málið en það endaði á þeirri ákvörðun að taka hann að mér og hann fékk nafnið Dexter (mögulega var ég niðursokkin í þættina á þessum tíma).

Við skulum hafa það á hreinu að blandan hans Dexter er sérlega erfið verandi bæði 2/4 amerískur pointing labrador og 1/4 veiðihundur og hann er með orku á við um 10 labradora (heyrt frá dýralækni). Hann var virkilega erfiður hvolpur og er enn dálítið óþekkur, til dæmis í taumi. Ég þakka líka fyrir að ég byrjaði með kærastanum mínum á svipuðum tíma og ég fékk mér hund en hann hjálpaði mér ótrúlega mikið og í dag eigum við Dexter auðvitað bara saman. En hann er yndislegur, glaður og góður við alla og það sem þessi hundur hefur bætt líf mitt og veitt mér og okkur mikla hamingju! Hvort sem það er að fara með hann í göngutúr, útihlaup, á námskeið eða bara kúra með honum og leika við hann, þá gerir hann gjörsamlega allt betra.  Mér líður alltaf vel í kringum hann og ég nýt þess að gera hluti með honum. Þar að auki hef ég öðlast ótrúlega mikinn áhuga á hundaatferli og hef dembt mér í allskyns lærdóm og lestur því tengt.

Stór ákvörðun sem krefst skuldbindingar

Vissulega er þetta risastór ákvörðun sem á alls ekki að taka í flýti og ekki ef maður gerir sér ekki grein fyrir því hvað það þýðir að eiga hund eða ala upp hvolp og það endar oft á því að fólk lætur hundana snemma frá sér, sérstaklega þegar þeir fara að sýna merki um gelgju. Það er gífurlega erfitt og getur tekið mikið á taugarnar – en aðalmálið er að það sé þess virði fyrir bæði eiganda og hund og að ákvörðunin sé vel ígrunduð. Einnig þarf að kynna sér tegundina vel og athuga hverju maður leitar eftir í hundi. Ef maður leitar hins vegar eftir hundi sem maður þarf helst ekkert að hreyfa, þjálfa eða borga fyrir að eiga og vill bara hafa lítinn kúrufélaga, þá getur verið skynsamlegt að fá sér kött (eða bangsa).

Tobbi

Við erum svo mikið fallin fyrir hundahaldi að okkur nægði ekki að eiga einn hund, heldur tókum við að okkur fimm ára Pug rakka í haust sem heitir Tobbi. Hann kom frá annarri fjölskyldu sem hafði ekki alveg nægan tíma fyrir hann í augnablikinu og var orðinn dálítið feitur en er orðinn spengilegri núna. Hann er einnig yndislegur karakter, skemmtilegur og góður og þeir „bræður“ eru strax orðnir óaðskiljanlegir.

En hvers vegna hundar?

  • Þeir eru einfaldlega bara bestir!
  • Hver vill ekki félaga sem elskar mann skilyrðislaust og gleður mann?
  • Það er sannað að samvistir hunda lækka kvíða, blóðþrýsting og þunglyndi svo fátt eitt sé nefnt
  • Frábært áhugamál
  • Meiri hreyfing = meira heilbrigði

Ég mæli svo eindregið með hundum fyrir alla sem hafa áhuga, tíma, orku og fjármagn í að halda slíkan. Ég hef aldrei séð eftir þessari ákvörðun og er löngu búin að ákveða að ég muni aldrei lifa hundalaus.

 

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig flugfreyja, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta og hundamamma.

Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is