Lúlú kom í heiminn þann 9. nóvember síðastliðinn eftir rúmlega 38 vikna meðgöngu. Ég var sett af stað vegna meðgöngueitrunnar og það tók góðar 30 klukkustundir að koma þessari dásemd í heiminn. Hver einasta mínúta var þess virði því hún fullkomnar lífið á hverjum einasta degi.

Við höfum kallað hana „Lúlú“ frá því að við vissum að stúlka væri á leiðinni. Ástæðan fyrir þessu gælunafni er sú að það er „L“ í nafninu hennar sem hún fær 11.febrúar næstkomandi. Flestir hafa verið logandi hræddir um að við séum að fara að skíra barnið „Lúlú“ en svo er ekki. Það hefði nú samt verið kómískt að láta alla halda það fram að skírn, en ég er ekki þeim hæfileika gædd að halda brandara til streitu í fimm mínútur, hvað þá í fleiri mánuði. Okkur hafa borist fjölmargar kvartanir yfir þessu gælunafni og fólk er almennt orðið þreytt á því að bíða eftir því að Lúlú fái nafnið sitt. Við höfum verið hvött til þess að nefna hana fyrir skírnina en við erum hefðbundin af því leyti að við viljum alls ekki segja frá nafninu fyrr en hún er skírð.

Ég hlakka til að fjalla meira um lífið með dætrum mínum á næstu misserum. Ég læt nokkrar myndir fylgja með af prinsessunum okkar:

Systurnar að hittast í fyrsta sinn
Lúlú (Mynd: Krummadís Photography)
Matthilda stóra systir (Mynd: Krummadís Photography)

 

Anna Ýr

Anna Ýr Gísladóttir er förðunarfræðingur, móðir og stjúpmamma, fagurkeri, heklari og föndrari ásamt mörgu öðru! Þú finnur Önnu á Instagram undir @annayrgisla