Upp á síðkastið hef ég nokkrum sinnum orðið vitni að umræðum á samfélagsmiðlum þar sem einstaklingar eru að tjá sig um jafnréttismál. Í umræðunum var fólkið að neita því að vera femínistar því þau kjósa að kalla sig jafnréttissinna í staðin. Ástæðurnar voru allar með sama bakgrunn og það var að þau vildu ekki vera tengd við öfgafemínisma og mjög umdeildar hreyfingar eins og Free The Nipple. Þeim finnst að öfgafemínistar hafi „eyðilaggt“ hugtakið femínismi.  Þar að auki hef ég líka heyrt að fólk vill jafnrétti fyrir öll kyn en ekki bara konur.

Hvað er femínismi?

Þar sem margir halda að femínismi snúist um að upphefja konur svo þær séu æðra kynið þá langar mig til að útskýra hugtakið og um hvað það snýst. Skilgreiningin á femínista er einstaklingur sem veit að jafnrétti kynjanna er ekki náð og vill gera eitthvað í því. Femínismi er samheiti yfir pólitískar og hugmyndafræðilegar stefnur þar sem berist er fyrir jafnrétti kynjanna í víðum skilningi. Innan þess eru mismunandi skoðanir á því hvað ójafnrétti er, hvernig það lýsir sér og hvernig skal unnið gegn því. En allt hefur það eitt sameiginlegt; að sækjast eftir jafnrétti kynjanna. Algeng baráttumál femínista eru jöfn laun karla og kvenna, barátta gegn mansali, vændi, útlitsdýrkun og klámvæðingu samfélagsins. Bárátta fyrir rétti til fóstureyðinga og rétti kvenna til menntunar, atvinnu og annarra tækifæra til jafns við karla. Barátta fyrir jöfnum áhrifum kynjanna í stjórnmálum og viðskiptum.

Ég geri mér grein fyrir því að margar af þessum baráttum eru konum í hag en það er vegna þess að konur eru að meðaltali á lægra stigi en karlmenn.Image result for feminism

Hvers vegna femínisti en ekki jafnréttissinni?

Það er staðreynd að femínismi hefur þróast og baráttur breyst frá því hugtakið var fyrst notað. Með árunum hefur orðið fengið neikvæða merkingu á sig þar sem fólk sakar femínista um það að tala um jafnrétti og á sama tíma að hunsa ójafnrétti karla. En málið er samt að konur eru enn á hliðarlínunni sama hversu mörgum staðreyndum er hent út í almúgann. Svo að jafnrétti kynjanna náist þarf að veita konum meiri athygli til að ná þeim sama stig og karlmenn eru á.
Jafnréttissinnar berjast fyrir jöfnum rétti fólks óháð kyni, þjóðerni, trú, kynhneigð, fötlun ásamt mörgu öðru. Þegar leitast er eftir jafnrétti á öllum sviðum eru ákveðin málefni oft gleymd eða minna tekið eftir. Femínistar einblína á tiltekna baráttu og þess vegna þurfum við femínisma. Að sjálfsögðu er hægt að vera bæði femínisti og jafnréttissinni. En það er mikilvægt að jafnrétti kynjanna gleymist ekki í jafnréttisbaráttu alls fólks. Það má eiginlega segja að jafnrétti sé regnhlífarhugtak þar sem femínismi fellur undir.

En hvers vegna þurfum við femínisma?

Sumt fólk trúir því að femínismi sé hlutur af fortíðinni og að feðraveldið sé ekki lengur til staðar. Konur mega kjósa og vera á vinnumarkaði svo jafnréttinu hlýtur að vera náð, ekki satt? En þrátt fyrir að konur megi kjósa þá eru ennþá karlar í meirihluta á alþingi. Þar að auki er ennþá mikill kynbundinn launamunur, svo að feðraveldið er jú enn til staðar.

Við þurfum femínisma því við kennum stelpum hvernig skal forðast að vera nauðgað í staðin fyrir að kenna fólki að hlutgera ekki konur. Vegna þess að við segjum konum að ef þær labbi einar úti á kvöldin séu þær „auðvelt skotmark.“ Vegna þess að  30% af þeim konum eru hræddar við að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Við þurfum femínisma því við notum kvenleg orðatiltök eins og „að kasta eins og stelpa“ til að gefa í skyn veikleika. Því við erum ennþá spurð hvort við viljum stelpu- eða strákadót þegar við kaupum barnabox.

Við þurfum femínisma því stelpur eru drepnar við fæðingu í Asíu því foreldar vilja frekar stráka. Þar að auki eru stelpur giftar fullorðnum mönnum án þeirra samþykkis þegar þær eru ekki búnar að ná kynþroska. Þær eru teknar út skóla og fá þar af leiðandi ekki menntun. Þær þurfa að sjá um heimili og barn/börn þegar þær eru sjálfar ennþá börn.

Við þurfum femínisma því fólk þorir ekki að opinbera kynhneigð sína í Rússlandi því fólk er fangelsað, pyntað og jafnvel drepið fyrir að vera samkynhneigt. Auk þess þorir samkynhneigt fólk ekki að ferðast til Rússlands af þessari ástæðu.

Við þurfum femínisma því karlmönnum þykir ekkert óeðlilegt eða rangt við það að kaupa vændi jafnvel þrátt fyrir að þeir viti að vændiskonurnar séu hluti af mansalshring.

Við þurfum femínisma því við kennum strákum að þeir mega ekki gráta og sýna tilfinningar frá því að þeir eru smábörn. Það hefur alvarlegar afleiðingar og er ástæða þess að um 80% sjálfsvíga eru karlmenn.

Við þurfum femínisma því við erum ennþá að spyrja að þessum spurningum.

Þessi grein var unnin sem lokaverkefni í Kynjafræði í FMOS.

Takk fyrir að lesa x

Alexandra Ivalu

Alexandra er 19 ára Mosfellingur og stundar nám við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ. Hún er hálf íslensk og hálf grænlensk en hefur búið alla sína ævi hérlendis. Áhugamál Alexöndru eru förðun, útivera, ljósmyndun og hundar. Þið getið fundið Alexöndru á Instagram undir @alexandraivalu.