Mér tókst ekki að klára stúdentin á sínum tíma því ég var bara ung og vitlaus og einblíndi meira á félagslífið en lærdóm. Sem var bara í góðu lagi því ég á einstaklega góðar minningar frá þeim tíma. Ég held að það hafi bara verið „ment to be“ að ég drattaðist ekki að klára Fjölbraut þegar ég var yngri. Svo byrjar maður að eldast, komin með heimili, fjölskyldu, eiginmann og þá fór mig að langa að fara að mennta mig. En ég vissi ekki í hverju ég átti að mennta mig. Ég er þessi verklega týpa, læri betur að sjá og gera hlutina. Einhverja hluta vegna skráði ég mig á sjúkraliðabraut í Fjölbraut við Ármúla. Tók algjöra U-beygju í lífinu, settist á skólabekk og fór að læra að vera sjúkraliði. Hafði aldrei unnið við eitthvað sem tengist heilbrigðisgeiranum. En ég var mjög spennt fyrir þessu. Þetta er þriggja ára nám, bóklegt og verklegt. Sem hentaði mér mjög vel.

En þegar ég fór að segja frá að ég væri farin í þetta nám þá voru viðbrögðin misjöfn frá fólki. Sumir sögðu að þetta væri frábært og ég myndi vera afar góður sjúkraliði. Svo sögðu sumir eitthvað í þessa átt: „Ætlar þú bara að vera skeina gömlu fólki það sem eftir er?“ án djóks. Ég svaraði bara játandi, enda þarf maður þriggja ára nám til að læra að skeina rétt. Áður en ég fór í námið, hafði ég ekki hugmynd um hvert starf sjúkraliða væri. Jú, ég vissi nú að hluti að því væri að skeina, en líka svo margt annað og allt annað.

Þessi mynd er frá því í náminu :) Eignaðist góðan vin þar!

Á þessum myndum fengum við sjúkraliðar Bráðamóttökurnar að fara og skoða og kynnast starfi Landhelgisgæslunnar og fengum að fara í þyrluferð.

Gefandi og mikilvægt

Starf sjúkraliðans er mjög mikilvægt, fólk gerir sér alls ekki grein fyrir því, sem mér finnst miður. Oft finnst mér ég ekki fá þessa virðingu eins og flest aðrar stéttir í heilbrigðisstörfum. Án okkar sjúkraliðana myndi til dæmis Landspítalinn ekki fúnkera. Það er bara svoleiðis. Þeir sem starfa innan heilbrigðisstéttarinnar vita vel hversu mikilvæg stétt sjúkraliða er, hvað við gerum og hvað við getum. Ég fór ekki í sjúkraliðan út af laununum, þau eru náttúrulega ekki nógu góð miðað við starfið sem við gegnum. Ég hef oft hugsað eftir vaktir á leiðinni heim: „Vá, ég hjálpaði við að bjarga lífi í dag.“ Sem er geggjuð tilfinning. Ég elska að hjálpa og láta gott af mér leiða.

Lífið á bráðadeildinni

Ég vinn á Bráðadeild G2 á Landspítalanum í Fossvogi. Það er alltaf nóg að gera hjá okkur, það þarf ekki einu sinni að nefna það. Já, það er álag og oft er maður gjörsamlega bugaður eftir vakt. En alltaf hlakka ég til að mæta á vakt aftur. Það er svo góður mannskapur og frábært vinnuandi. Ég dáist af hverjum og einum sem vinna þarna. Það er alveg magnað að vera hluti af þessum frábæra hópi fólks af öllu stéttum og gerðum.

Ég vinn með svo flottu fólki og dáist að þeim og verkefnum sem við tökumst á saman heild. Það er ekkert grín hvað við tökumst á við daglega, þá skiptir máli að vera gott teymi!

Slysó er best!

Mig langaði með þessari færslu að vekja athygli á mínu starfi. Aldrei er minnst á okkur sjúkraliðana þegar talað er um álag á spítalanum, alltaf sagt hversu mikið álag er á læknum og hjúkrunarfræðingum. Alveg jafnmikið álag á okkur líka, bara okkar stétt gleymist oft. Af hverju heldur fólk að ég verði bara að skeina gömlu fólki það sem eftir er. Ef þú hittir einhvern sem er sjúkraliði, forvitnastu hvað hann gerir, á hvað deild eða stofnun hann vinnur. Starf okkar er mismunandi eftir deildum og stofnunum. Markmið okkar er að okkar skjólstæðingi okkar líði vel og fær faglega og góða hjúkrun og finnst hann öruggur.

Á þessari mynd fékk ég að fara á sjúkrabílavakt.

Ég er svo ánægð með þessa U-beygju mína sem ég tók fyrir nokkrum árum, mér finnst ég algjörlega vera á heimavelli í mínu starfi.

Ég mæli með að þið kynnið ykkur sjúkraliðann; skítalaun en svo gefandi starf!

Berglind Veigarsdóttir

Berglind Veigarsdóttir og er 32 ára, gift og á 2 yndislegar dætur. Hún er sjúkraliði og vinnur á Bráðamóttöku Landspítalans og er einnig dresser í þjóðleikhúsinu en ákvað nýverið að breyta til og gerast flugfreyja hjá Icelandair. Hún hefur mikinn áhuga á tísku, heimilum, ferðalögum, snyrtivörum, menningu og fleiru. Hún mun skrifa um allt sem vekur áhuga hennar hverja stundina en þá helst tísku, ferðalög og heimilið.