Hamingjusamasti dagur lífs míns er runninn upp:

SKÓLASETNING!

Ég gat ekki leynt gleði minni þegar ég var að útskýra fyrir drengjunum mínum að nú væri tölvubannið komið aftur á, nammiátið ætti að minnka, allir ættu að fara snemma í háttinn og nú væri ekki í boði að vera í símanum upp í rúmi. Mér var alveg sama þegar þeir fóru í fýlu og mér var meira að segja alveg sama þegar ég heyrði sjálfa mig segja þetta upphátt  og átta mig á því að ég væri ekkert smá léleg móðir að leyfa þetta allt á nokkrum vikum í sumar. En hvað átti ég að gera? Ég var að GEGGJAST á þeim. Ég þurfti að berjast við að vekja þá á morgnana, berjast við að fá þá til að sofna á kvöldin, berjast við að henda þeim út að leika, berjast við að fá þá til að hætta í tölvunni og berjast við að öskra ekki þegar þeir sögðu: „Mér leiðist!“

Ég stóð sjálfa mig að því að segja hluti sem ég hélt að ég myndi ALDREI segja við nokkurn mann:

„Þegar ég var lítil þá þurfti sko að draga mig inn á kvöldin því við vorum alltaf úti í leikjum.“

„Ég hjólaði ALLT sem ég fór.“

„Mér leiddist sko aldrei.“

„Það voru ekki símar og playstation í minni tíð!“

Ég sá í augum barna minna hversu gömul ég væri orðin, svona þegar þeir ranghvolfdu þeim í nokkra hringi yfir ungdómsræðu minni og andvörpin komu í hrönnum yfir þessu óréttlæti sem þeir voru beittir. Skilningslaus móðir sem talaði um gamla daga þar sem voru ábyggilega ekki einu sinni til bílar.

Til hamingju með að lifa þetta af

En loksins rann upp þessi langþráði dagur þar sem ég gekk mjög svo hröðum skrefum inn í skólann með letihaugana mína tvo. Settist inn í skólasalinn og sá helling af foreldrum með sama gleðibrosið smurt yfir andlitið. Þetta er búið, loksins. Mig langaði að „high-five“ þá alla. Þetta gátum við. Til hamingju með að hafa lifað þetta af.

Ég klappaði stórkostlega yfir ræðu skólastjórans og hljóp á eftir nýja bjargvætti mínum þegar hann kallaði nöfn krakkana upp og bað þá um að elta sig inn í nýja bekkinn sinn. Lofaði honum öllu fögru með heimalærdóm og mætingu á réttum tíma.. Jájá, bla bla bla, komdu bara með stundaskrána og störtum þessu skólaári. Brosti mínu breiðasta þegar við gengum heim og blístraði lagstúf með Queen – I want to break free…

Ég man þegar þeir voru á leikskóla. Þá þurfti maður að lifa af mánuð, heilan mánuð. Með aktívan krakkann á bakinu að reyna að finna upp á einhverju til að láta daginn líða. Það er ekki hægt by the way. Ég náði  aldrei að jafnast á við leikskólann, leikskólakennara, leikskólakrakkana og leikskólaleiktækin. Þegar það sumarfrí var búið þá hljóp ég með drengina inn á deildirnar, knúsaði starfsfólkið og þakkaði þeim fyrir að vera til.

En þetta frí var sko miklu erfiðara. Drengir sem eru að fara í 4. og 8.bekk leggja sig ekki á daginn, leika sér ekki með kubba, hafa ekki gaman af því að láta syngja fyrir sig, hafa ekki gaman af Doru the Explorer og kex í skál. Trúið mér. Það bítur ekkert á þá! Þannig að já, ég segi það enn og aftur… hamingjusamasti dagur lífs míns er runninn upp.

Thelma Hilmars

Thelma er móðir tveggja orkumikla drengja sem hún elskar heitar en allt. Hún býr í bílskúr og er í poppkórnum Vocal Project. Hangir endalaust með vinum sínum sem hún dýrkar og borðar kokteilsósu með öllu. Snapchat : thelmafjb
Fylgstu með Pigment.is á Snapchat!