Æj vá, takk æðislega kæra sumar. Þú hefur formlega látið mig haga mér eins og ég sé vitstola brjálæðingur. Afhverju? –jú leyfðu mér að útskýra.

Í hvert sinn sem þér hentar að henda fram smá sólarglætu þá umturnast allt heimilislíf mitt. Hér er rokið fram úr rúminu og hlaupið út í dyragætt til að athuga hvort augu mín séu að plata mig og að hér sé ekki um „gluggaveður“ að ræða. Þegar ég svo sé að þú ert ekkert að grínast með þetta þá bölsótast ég dágóða stund yfir öllum helvítis aukakílóunum sem ég ákvað að raða á mig í gegnum tíðina og á þar af leiðandi ekki sumarleg föt. Bara stóra svarta boli og leggings og ef ég fer þannig út þá mun ég líta út eins og hálviti í sólinni. Það tekur mig smá tíma að átta mig á því að ég get ekki farið í megrun á næsta klukkutímanum og því er ég tilneydd til að sætta mig við orðin hlut og hefst handa við að vekja börnin.

STRÁKAR, STRÁKAR, SNÖGGIR ÞAÐ ER KOMIN SÓL … ALLIR ÚT!

Og svo þarf að flýta sér, því Guð má vita hversu lengi sólin staldrar við. Það gæti komið rigning eftir tvær mínútur og svo er heldur aldrei að vita hvenær sólin kemur svo aftur, er það á morgun eða á næsta ári og á  meðan ég leita að sólarvörninni (sem er útrunnin frá því í fyrra), sundfötum, sólgleraugum, sumarlegum fötum og fokking derhúfu þá eru allar líkur á að sólin sé farin og sumarið með glott á vör: „Haha, sáuð þið Thelmu hlaupa um eins og fífl að leita að sólarvörninni…“

Vinnudagarnir

Það er allt önnur saga ef sólin lætur sjá sig á vinnudegi. Það er hreint út sagt glatað að sitja inni og horfa á sólina sleikja alla aðra en mig. Þá verð ég þung og leiðinleg í skapi. Ég nenni ekki að segja góðan daginn eða brosa. Drekk bara ógeðslega mikið kaffi og hata alla á Snapchat sem dirfast til að senda mér sólarsömbu myndir með: „Svona margar gráður“ smurt yfir skjáinn. Jájá, bla bla bla, er ENGINN að vinna? Hvaðan kemur allt þetta fólk? Stundum held ég að það sé bara með bíkiní í veskinu, klæði sig inn á baði á skrifstofunni og hlaupi út á bílastæði og taki myndir af sér við hliðina á einhverju tréi til að láta mér líða illa.

Sólarsamviskubit

Stundum er sumarið líka í öðruvísi tussuskap. Það er þegar það ákveður að henda fram geislum sólar á þynnkudegi. Þá vakna ég ógeðslega seint og allir orðnir kaffibrúnir nema ég og þá kemur samviskubit. Já, það er til sólarsamviskubit! Þá skammast ég mín allan daginn fyrir að hafa ekki nýtt sólina eins og helmingurinn þjóðarinnar. Fullt af fólki labbandi um bæinn með belgina fulla af ís og montandi sig af nýjustu freknunum sínum. Sjúklega pirrandi og í ofan á lag er ég þunn. Alls alls ekki gott combó.

Sumrin fyrir mér eru stressandi. Ég er stressuð yfir því að passa ekki í fötin mín, stressuð yfir því að missa af sólinni, stressuð yfir því að fá mér í glas og þá kemur sólin daginn eftir, stressuð yfir því að fara að vinna og þá gæti komið sól. Ég til dæmis skrifaði þennan pistil í sól en þegar honum lauk var komin rigning.

Takk æðislega sumar, ég á ekki breik.

Thelma Hilmars

Thelma er móðir tveggja orkumikla drengja sem hún elskar heitar en allt. Hún býr í bílskúr og er í poppkórnum Vocal Project. Hangir endalaust með vinum sínum sem hún dýrkar og borðar kokteilsósu með öllu. Snapchat : thelmafjb
Fylgstu með Pigment.is á Snapchat!