Ég má til með að segja ykkur frá yndislegum samtökum sem litu nýlega dagsins ljós, en þau heita Zebrabörn. Samtökin eru lítil deild innan samtakanna Lindar, félags um meðfædda ómæmisgalla. Þau sèrstaklega tileinkað börnum sem fæðast með ónæmisgalla en það hefur verulega skerðandi áhrif á lífsgæði, bæði barnanna sjálfra og allra aðstandenda. Vinkonurnar Þórunn Eva Guðbjargardóttir Thapa og Silja Rut Sigurjónsdóttir stofnuðu félagið en báðar eiga þær börn með meðfædda ónæmisgalla.

Erfitt ferli

Fyrir mitt leyti hef ég fylgst mikið með henni Þórunni Evu okkar ganga í gegnum strangt ferli með syni sína, en hún er einn af pistlahöfundunum okkar hér á Pigment. Það eru varla til orð sem lýsa þeim einstaka styrk sem strákarnir hennar hafa, ásamt þeim hjónum og aðstandendum. Þau standa sig eins og hetjur í gegnum lyfjagjafir, spítalaferðir, veikindi og svo mætti lengi telja. Þrátt fyrir allt er gleðin og lífshamingjan alltaf stutt undan og þau halda ótrauð áfram. Jón Sverrir, annar sonur Þórunnar er meðal annars að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Einstök Börn en ég hvet ykkur til þess að heita á hann.

Glæsilegt boð í Öskju

Á dögunum var haldið boð í Bílaumboðinu Öskju til heiðurs samtökunum og voru stjörnur á borð við Sölku Sól á staðnum ásamt þekktum snöppurum og einstaklingum. Til sölu voru gullfallegar myndir sem þið getið einnig eignast og styrkt gott málefni í leiðinni. Meðfylgjandi myndir voru fengnar frá Bílaumboðinu Öskju.

Ágóði myndanna rennur óskertur til Zebrabarna, en tilgangur þeirra er að fjármagna fræðslu í þágu sjúkdómsins.
Myndirnar eru teiknaðar af Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur og prentaðar af Hlyni hjá Prentun.is. Þau gáfu bæði vinnu sína til verkefnisins ásamt fleiru góðu fólki.

Bæði er hægt aðfá fallegar myndir í barnaherbergið sem og stofuna. Þær er hægt að kaupa á eftirfarandi stöðum:

Zebrabörn
Epal
iglo + indi
Gallery Spuni
Litla Hönnunar Búðin
Hrím Hönnunarhús
Líf & List Smáralind
name it
Englabörnin

Myndir: Zebrabörn

Ég elska myndirnar og keypti strax tvær myndir af Zebrahestinum í loftbelginum (Skýjazebra) til þess að gefa í vöggugjafir. Ég mun svo örugglega kaupa mér eina í viðbót til þess að hafa heima við.

Endilega kaupið ykkur mynd og styrkið þetta ótrúlega góða og verðuga málefni <3

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig flugfreyja, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta og hundamamma.

Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is