BYRJUNARÖRÐUGLEIKAR

Aldrei nokkurn tíma datt mér í hug að ég sæti og heklaði tímunum saman. Í barnaskóla var ég afleitur nemandi í handavinnu. Flestir kennarar dýrkuðu mig en ekki handavinnukennarinn. Hún dæsti alltaf þessi ósköp þegar ég kom að kennaraborðinu til að biðja um aðstoð. Ég minnnist þess þegar ég hafði setið sveitt við að sauma flísstuttbuxur. Ekki spyrja mig afhverju mér fannst það tilvalinn klæðnaður. Ég skil ekki þessa samsetningu enn þann dag í dag. Ég tilkynnti handavinnukennaranum að ég hefði gleymt að sikk-sakka alla kanta! Á þeim tímapunkti var kennarinn ekki búinn að fá sér nógu marga kaffibolla og sagði við mig að það væri allt í lagi og að ég ætti bara að sleppa því í þetta sinn. Ég var því mjög fegin að fá að sleppa svona ódýrt út úr þessum saumaskap og var allra manna fljótust að klára verkefnið. Ég var rosalega stolt að geta komið með kláraða flík úr handavinnu heim til þess að sýna mömmu. Ég man hvað mamma brosti breitt og tók við stuttbuxunum spennt að skoða afraksturinn. Til þess að athuga hvort ekki væri gott í þessu þá togaði hún í sundur buxnastrenginn. Mér til mikillar armæðu þá fóru stuttbuxurnar við það í tvennt. Mamma gat ekki annað en hlegið að þessum ósköpum. Þetta ólukkans sikk-sakk skipti þá augljóslega einhverju máli. Ég var kennaranum afskaplega reið og sór þess eið að láta handavinnu eiga sig hér eftir. Sá eiður var vitanlega ekkert svo heilagur því ég var bara í 6. bekk á þessum tímapunkti. Mamma átti eftir að taka við ótal mislukkuðum handavinnuverkefnum það sem eftir var af minni grunnskólagöngu. Meðal annars: Götóttum vettlingum, jólaveggteppi sem amma bjargaði mér út úr og kláraði fyrir mig og síðast en ekki síst holóttum „prjónuðum“ ánamöðkum.

Lært að hekla

En lífið á það til að koma manni á óvart. Ég fór í langt veikindaleyfi árið 2016 og var í 6 vikur í endurhæfingu á Reykjalundi. Á dagskránni þar var meðal annars handavinna. Mér leið eins og ég væri farin aftur til fortíðar, mætt í handavinnutíma í grunnskóla. Ég ákvað að líta á þetta sem annað tækifæri en ekki endurtekna martröð. Fyrsta verkefnið mitt var að sauma mér hitapoka og fékk ég mjög góða aðstoð við það. Að því loknu ákvað ég að læra að hekla. Aumingja konan sem hjálpaði mér að læra að hekla á Reykjalundi var svo þolinmóð. Ég verð henni ævinlega þakklát fyrir hjálpina. Hún var allt annað en mæðuleg og öll að vilja gerð sem varð til þess að ég kom öllum að óvörum og lærði að hekla.  Það skiptir svo miklu máli að hafa góða og þolinmóða kennara.

Heimferðarsettið

Heklið á rosalega vel við mig og það er fjölbreytt og skemmtilegt. Ég ákvað að hekla heimferðarsett fyrir litlu prinsessuna sem kemur í nóvember. Ég læt nokkrar myndir fylgja með af settinu. Ef þið hafið aldrei heklað áður og langar að kynna ykkur það þá mæli ég eindregið með því að þið farið á Youtube. Virkilega góð kennslumyndbönd er þar að finna fyrir byrjendur og lengra komna. Bella Coco er einn besti leiðbeinandinn á Youtube að mínu mati. Myndböndin eru í svo góðum gæðum og hún talar mjög skýrt og fer rólega yfir hvert smáatriði. Smellið HÉR til að skoða myndbönd frá Bellu Coco.

Settið í heild sinni. Heklað úr 100% baby merino. Garnið, tölurnar og blúnduborðinn fékkst í Föndru.
Ég fylgdi engri sérstakri uppskrift fyrir peysuna en neðri parturinn er gerður með Arcade Stitch sem er eitt af mínum uppáhalds munstrum.
Buxurnar urðu aðeins hippalegri en ég ætlaði mér en það verður að hafa það. Uppskriftin er af youtube.

Uppskrift af buxum HÉR

Litlir vettlingar

Uppskrift af vettlingum HÉR

Litlar hosur

Uppskrift af hosum HÉR

Krúttulegasta húfan

Uppskrift af húfu HÉR

Færslan er ekki kostuð

Þið getið fundið mig á

Snapchat: annyr

Instagram: Anna Yr Makeup Artist

 

Anna Ýr

Anna Ýr Gísladóttir er förðunarfræðingur, móðir og stjúpmamma, fagurkeri, heklari og föndrari ásamt mörgu öðru! Þú finnur Önnu á Instagram undir @annayrgisla