Þegar ég varð þrítug þá fór ég að grenja. Mér fannst ótrúlega erfitt að vera ekki lengur tuttugu og eitthvað. Ég var formlega (að mínu mati) orðin gömul og komin á fertugsaldurinn og ég hef verið harkalega minnt á það á þessum sex árum frá móðursýkis-afmælis-grenju-kastinu mínu.

Ég er vinamörg og að mínu mati ótrúlega heppin með innræti þeirra. Vinir mínir eru á öllum aldri og af allskonar stærðum og gerðum.

„Er þetta dóttir þín?“

Ein af mínum kæru vinkonum er níu árum yngri en ég. Við vorum að stússast saman fyrir nokkrum árum (Lesist: þegar ég var 32 ára) og ég bað hana að koma með mér að hitta kennarann minn sem ég hafði aldrei hitt til að skila einhverri ritgerð. Mig langar að taka það fram að ég var þreytt, ómáluð, í ljótri úlpu og inniskóm! En vinkona mín var falleg og vel til höfð að venju. Kennarinn kemur svo loksins hálf hlaupandi alltof seinn og segir hátt og hvellt : „Sæl, ert þú Thelma?“ og tekur í höndina á mér. Hann lítur svo á fallegu vinkonu mína og horfir á mig og segir: „Er þetta dóttir þín?“

Veröldin mín hrundi á augabragði… hvað hélt þessi fáviti eiginlega að ég væri GÖMUL?!?! Ég hefði þurft að vera 9 ára gömul til að eiga hana!! Ég horfði á kennarann með svip sem hefði getað startað þriðju heimsstyrjöldinni og hvæsti „NEI“ út um samanbitnar tennurnar. Henti svo í hann helvítis ritgerðinni og strunsaði af stað með „dóttur“ mína í eftirdragi. Alla bílferðina var ég á suðupunkti og vesalings „dóttir“ mín alveg miður sín. Hún segir mér þá að hún sé mjög barnaleg í útliti og hafi alla tíð verið talin mun mun MUN yngri en hún er í raun og veru. Ég hreytti þá í hana: „Já, þú lítur út fyrir að vera fokking 5 ára!“

Hvað heldurðu að ég sé gömul?

Eftir þetta datt ég í þá gryfju að ég gera skoðanakannanir í hvert sinn sem ég fór á djammið. Komin vel í glas í mínu fínasta pússi á börum Reykjavíkur með meiköppið óaðfinnanlegt (en í raun runnið niður kinnarnar eftir sveitt dansspor) þar sem ég slagaði til drengja og spurði „hvaaaaað heldur þú að ég sé gömul?!“ Ég gat bara ekki trúað því að ég væri orðin ellileg, ég sem var tvítug í hjarta mínu. Ég hætti snarlega þessum könnunum þegar ég fékk svarið: „Svona fjörtíu og eitthvað.“ JESÚS!

Við getum verið óvægin við hvort annað við manneskjurnar. Ég var komin með aldurskomplexa á háu stigi og fannst ég vera að renna út á tíma með flest allt. Ég sá fyrir mér að hefja prjónaskap og stunda Bingó í Vinabæ grimmt. Ég myndi mögulega biðja vinkonur mínar að læra með mér bridds og hefja sérrí drykkju.

Eitt sinn lét ég tilleiðast að fara með „dóttur“ minni og fleiri vinkonum á djammið á ónefndan skemmtistað þar sem aldurshópurinn var 15 að verða 12 ára. Ég stend í röðinni að drepast úr aldurs minnimáttarkennd og mantraði með sjálfri mér að aldur er afstæður og það er innrætið sem skiptir máli. Við komumst fram fyrir röðina af því að við þekktum dyravörðinn. Ungur vinahópur verður alls ekki sáttur við þessa flýtimeðferð og hrópar: „Ertu að djóka, ætlarðu að hleypa þeim inn á undan?“, lítur svo á mig og segir: “Þú ert alltof gömul til að koma hingað inn!“

Með hverri hrukku kemur reynsla

Aldur er víst eitthvað sem við flýjum ekki og ef við erum heppin þá fáum við að bæta á okkur árum. Það eru forréttindi að fá að eldast og með hverri hrukku kemur reynsla. Þetta heyrði ég mikið frá fólki eldra en ég sem var að reyna að stappa í mig stálinu. Jájájá, ég veit það! Auðvitað skiptir útlitið engu máli en það vill engin láta alla halda að þú sért móðir vinkvenna þinna sökum þess hversu fáránlega gömul þú lítur út fyrir að vera.

Núna segi ég öllum að ég sé fimmtíu og eins. Þá fæ ég svoleiðis holskeflu af hrósum yfir því hvað ég er dæmalaust ungleg.

„Mission accomplished.“

Thelma Hilmars

Thelma er móðir tveggja orkumikla drengja sem hún elskar heitar en allt. Hún býr í bílskúr og er í poppkórnum Vocal Project. Hangir endalaust með vinum sínum sem hún dýrkar og borðar kokteilsósu með öllu. Snapchat : thelmafjb
Fylgstu með Pigment.is á Snapchat!