„Mamma, Mammaaaa, MAMMA!“

Ó Guð hjálpi mér hvað ég elska drengina mína heitt. En stundum, bara stundum væri ég til í að bruna með þá aftur upp á fæðingardeild og skila þeim. Mér finnst stundum, bara stundum alveg hrikalega þreytandi að vera í þessu móðurhlutverki.

„Mammmaaaa, Mammaaaaaaaa, MAMMMAAAAAAAAA!“

Ég sé mig ljóslifandi fyrir mér þar sem ég ríf af mér eyrun og hendi þeim ofan í svona ruslakvörn. Þeir eru líka með heimsmet í að kalla stanslaust á mig og ekki halda í eina sekúndu að það sé komið fjallaljón í bílskúrinn okkar og ég þurfi að bregðast við með sveðju… nei. Þeir eru að biðja um vatnsglas eða fjarstýringu af því að þeir nenna ekki að standa upp. Sérstaklega á kvöldin þá kalla þeir eins og þeir eigi lífið að leysa og þeir eru ógeðslega klárir vegna þess að þeir vita að það er ekki í boði að þjónusta vatnsglös og bull þegar komið er í ból. Þá þurfa þeir herkænsku og af henni eiga þeir nóg. Þá er gripið til allskyns ráða sem þeir vita að ég verð að bregðast við. Tökum dæmi:

„Mér er svo illt í höndinni þegar ég geri svona (drengurinn liggur með handlegginn beyglaðan eins og saltkringlu fyrir aftan bak og kveinkar sér ROSALEGA).“ „HÆTTU ÞÁ AÐ BEYGLA HÖNDINA SVONA!!!“

„Mamma, mér leið illa í skólanum í dag“ .. „NÚÚÚ, hvað gerðist ástin mín?????“ (þarna sest ég á rúmstokkinn og held í höndina hans með móðurlegum áhyggjusvip). „Ég týndi strokleðrinu mínu OG það var lax í matinn og kennarinn sagði að ég YRÐI að smakka hann!“ (Í alvöru talað krakki, ertu að grínast??!)

„Ó nei, ég gleymdi !!!!! það er próf á morgun og ég gleymdi bókinni“ (AAAARRRG)

„Það er hjóladagur á morgun og það er sprungið dekk“ (og hvað á ég að gera í því NÚNA??)

„Allir eiga að koma með heimabakað bakkelsi á morgun“ (Guði sé lof fyrir bakarí snemma að morgni).

Nú hljótið þið að hugsa: „Talar hún ekki við krakkana sína á daginn?“ og svarið er: Ó jú, það reyni ég svo sannarlega. En þær samræður ganga einhvern veginn svona:

– Hvernig var í skólanum?

„Fínt.“

– Gerðist eitthvað skemmtilegt?

„Neeeee….“

– Hvað var í matinn?

„Man það ekki.“

Nei nei ókei, samræður eru ekki í boði hér enda krakkinn með hausinn á kaf í símanum eða að tengja Playstation í huganum. En á kvöldin, guð hjálpi mér. Þá er munað eftir ÖLLU. Þegar allt þetta dugar ekki til þá er gripið til umræðu sem er ekki fræðilegur möguleiki í HELVÍTI að sleppa við, alveg sama hvað klukkan er orðin margt.

„Ég er hræddur við að deyja. Hvað verður um okkur þegar við deyjum?“

„Afhverju skilduð þú og pabbi?“

„Afhverju eru til börn sem fá ekki að borða út í heimi?“

„Getur komið stríð á Íslandi?“

Morgnarnir geta verið sérlega þreytandi. Ég horfi stundum á þá og skil ekki afhverju þeir ná því EKKI sem sagt er á hverjum einasta fokkings morgni. Farðu í skó, farðu í skó, farðu í skó, FARÐU Í SKÓ! Hvað er það sem er svona flókið? Ég horfi á barnið mitt hringsóla um íbúðina í einum skó, hinn í hendinni og úlpan lafir á annarri öxlinni. Mig langar til að garga og hrista hann en ég næ að hemja mig með því að bæta við fallegum orðum. „Farðu í skó, ÁSTIN MÍÍÍÍN!“ Svona eins og ég nái að betrumbæta skammirnar með ástarorðum með mjög svo pirruðum tóni. „Við erum að verða of sein GULLIÐ MIIIIITTTT.“

Í hvert einasta skipti sem ég bið gaurana mína að fara í sturtu þá kemur ALLTAF: „Afhverju?“. Ég veit að maður á aldrei að alhæfa, en trúið mér ég get það í þetta sinn. Þeir spyrja ALLTAF „Afhverju?“ Afhverju heldur þú að þú eigir að fara í sturtu? „Ég veit það ekki, mér finnst það leiðinlegt“

Jesús Kristur. Í hvert sinn, hvert einasta sinn!

Og svo kemur að kvöldmatnum. Ég nostra betur við matinn heldur en Martha „friggin“ Stewart. Hangi í eldhúsinu í marga klukkutíma og ber svo á borðið á meðan ég raula eins og Öskubuska. MATUUUUUUUR! Tvennt getur gerst á þessum tímapunkti:

Annarsvegar að þeir ryðjast að borðinu eins og hungraðir úlfar og háma sig matinn án þess að anda og rjúka svo frá borðinu og segja ekki takk. Matmálstíminn tók sum sé 6 mínútur og ég hefði alveg eins getað hent í þá kálbögglum.

Hinsvegar setjast þeir að borðinu og byrja að hræra matnum til og frá á disknum. Með fyrirlitningasvip. Setja smá á gaffalinn og reka tunguna út til að SLEIKJA matinn svona eins og það teljist til þess að smakka. Svo koma gretturnar og spurningin: „Hvað er þetta?“

– Kjúklingur ÁSTIN MÍÍÍN

„Ohhh, ég er sko hættur að borða kjúkling“

– Síðan hvenær?

„Síðan áðan“

– Kallinn minn, hættu þessu bulli og borðaðu matinn sem ég var að elda (og var ógeðslega lengi að því)

„ Æj, mér finnst þetta ekki gott“

– Þú ert ekki búinn að smakka matinn!

„Júúúú, ég er bara ekki svangur og svo er mér illt í maganum“

En svo þegar þeir sofna og ég læðist inn, með áherslu á að læðast því ég vil alls ekki vekja þá Þá hellist yfir mig samviskubit yfir því að hafa fundist stundum, bara stundum hrikalega erfitt að vera móðir. Ég horfi á þá sofa og breiði yfir þá með kossi á kinnar. En þá bæra þeir á sér og ég STEKK út úr herberginu. Fjandinn hafi það ég elska þá OFUR OFUR heitt en ég er í fríi þar til vekjaraklukkan hringir og ég þarf að byrja ferlið upp á nýtt.

Thelma Hilmars

Thelma er móðir tveggja orkumikla drengja sem hún elskar heitar en allt. Hún býr í bílskúr og er í poppkórnum Vocal Project. Hangir endalaust með vinum sínum sem hún dýrkar og borðar kokteilsósu með öllu. Snapchat : thelmafjb
Fylgstu með Pigment.is á Snapchat!

Deila
Fyrri greinHALLÓ PIGMENT!
Næsta greinIKEA ÓSKALISTI