Ég er ekki í atvinnuviðtali svo ég get bara verið hreinskilin er það ekki? Ætti ég kannski að byrja á því að segja ykkur að ég sé förðunarfræðingur í sambúð, reyklaus stjúpmóðir sem hefur bíl til umráða? Ef ég ætti að lýsa sjálfri mér (þegar ég er ekki í atvinnuviðtali) ætli ég myndi ekki byrja á því að segja frá því að ég er algjör stelpu-stelpa. Hvernig lýsir það sér? Mín barnæska samanstóð af bleikum blúndum og Barbie sem var síðar vikið frá störfum þegar Spice Girls litu dagsins ljós. Það mætti halda að ég hefði gengið í gegnum einhvers konar bleikan hreinsunareld því enn þann dag í dag elska ég allt bleikt, blúndur, glimmer og dúllerí. Ekki skemmir fyrir ef það glitrar líka (ég er af þeim sökum kölluð Krummi stundum, því ég ásælist allt sem glampar á). Heimilið mitt hefur samt sem betur fer verið friðað og er ekkert í líkingu við bústað Báru Bleiku. Áhrif mannsins míns njóta sín þar í hvarvetna og ég tel okkur eiga nokkuð nútímalegt og fallegt heimili í póstnúmeri 210 sem ég mun hafa gaman af að deila með ykkur í komandi færslum.


Smávegis „sník-pík“ af heimilinu okkar og já mér tókst að troða bleikum rósum upp á heimilisfólkið.

En til þess að leyfa ykkur að kynnast mér aðeins betur þá get ég sagt ykkur frá því að ég öðlaðist nýtt hlutverk um daginn í lífinu og breyttist í frjósemismusteri, með öðrum orðum varð ófrísk loksins eftir langa bið og nákvæmlega enga þolinmæði. Það endaði með því að mín pantaði sér í glasafrjóvgun (og það var 4 mánaða bið), sló öllu upp í kæruleysi í þrotlausri bið eftir tímanum, rauk til útlanda, maxaði Visa kortið alsæl og kom síðan heim ólétt án þess að koma nálægt einu einasta glasi. Ég jú komst í nálægð við bjórglas úti en mér til varnar hafði ég ekki hugmynd um að við værum tvö í einu flugsæti. Svona svindlar maður á kerfinu, pantar sér far fyrir einn en ert í raun og veru tvær manneskjur, nokkuð vel af sér vikið, finnst ég hafa stórgrætt á þessu öllu saman! Ég geng með litla prinsessu og á von á mér í nóvember svo það er ekki ólíklegt að ég fjalli aðeins um meðgönguna og það sem framundan er.

Við skötuhjúin saman í Grand Canyon í umræddri kæruleysisferð

Eins og áður sagði er ég stjúpmóðir, maðurinn minn á yndislega stelpu sem heitir Matthilda og er 4 ára svo ég hef öðlast smávegis færni í foreldrahlutverkinu. Ég var tilbúnari en allt til þess að verða móðir þegar ég kynntist Möttu og okkur líkaði sem betur fer vel við hvor aðra og erum mjög nánar. Ég hlakka alltaf svo til að fá hana til okkar því hún gerir veröldina svo miklu líflegri og litríkari.

Í dag er ég förðunarfræðingur. Ég elska snyrtivörur og er óhrædd við að játa að það eru engin takmörk fyrir því hversu mörgum snyrtivörum ég get sankað að mér. Þegar ég hugsa um „me-time“ þá sé ég strax fyrir mér snyrtiborðið mitt, ég að mála mig og hlusta á góða tónlist í rólegheitum. Eitthvað segir mér að nokkrir pistlar muni innihalda umfjöllun um förðun og snyrtivörur.

Ég hef mikið dálæti á skrifum og byrjaði ung að halda dagbók, ég á ennþá gömlu dagbækurnar og get bilast úr hlátri við að lesa um hversdagsvandræði 9 ára stúlku. Stundum skrifa ég smásögur mér til gamans og má vel vera að ég hendi einni hér inn við tækifæri. Annars hef ég verið iðinn bloggari síðan í menntaskóla og er rosalega spennt að takast á við þetta nýja verkefni og vera með ykkur hér á Pigment.is!

Anna Ýr

Anna Ýr

Anna Ýr Gísladóttir er förðunarfræðingur, móðir og stjúpmamma, fagurkeri, heklari og föndrari ásamt mörgu öðru! Þú finnur Önnu á Instagram undir @annayrgisla

Deila
Fyrri greinFESTIVAL NAILS INSPO
Næsta greinHVER ER ALEXANDRA?