Grunar þig að þú sért ófrísk? Ég hef tekið saman nokkur atriði sem gætu bent til þess að þú sért með laumufarþega um borð.

 1. Lyktarskynið er á algjöru lokastigi og maki þinn fær óviðeigandi spurningar frá þér á borð við: „Er svitalyktareyðirinn þinn nokkuð myglaður?!?“ 
 2. Gleymni: Þú átt í fjarsambandi við þvottavélina sem að lokum deyr út. Þið hættið saman eftir þrotlausar tilraunir þínar við að ná þvotti úr henni sem hefur marínerast í 12 klukkustundir með tilheyrandi skötulykt. Að endingu sættir þú þig við hið óhjákvæmilega: Að maðurinn þinn sem er með litblindu og +9 fjarsýni á báðum, taki við þessu húsverki og möndli við litaflokkun og þvottavélaprógrömm. Skyndilega státar heimilið af myndarlegum haug af bleikum, soðnum barnahosum sem eitt sinn voru hvítir karlmannssokkar.
 3. Aftur lyktarskynið: Þú rýkur út í Heilsuhús og hefur ómældan áhuga fyrir ilmefnalausum og eiturefnalausum hreinsiefnum sem kosta útlim. Að sama skapi hefur þú aldrei verið reiðubúnari að rífa upp veskið og fjárfesta í slíkum munaði.
 4. Hinn óendanlegi þorsti heltekur þig og þú innbyrðir um það bil eitt stöðuvatn á dag. Færð símtal við lækni á heilsugæslunni og tilkynnir honum að þú sért með yfirvofandi sykursýki.
 5. Hvaða heilvita manneskju dettur í hug að bjóða þér upp á kaffi? Kaffi er ógeðslegt! Dónaskapur þetta er að bjóða manni ekki upp á alíslenskt kranavatn! Konan er þyrst!
 6. Brjóstin á þér stækka fyrirvaralaust um tvö númer. Þú ferð histerískt yfir mataræði síðastliðinna tveggja vikna þar sem þú hefur klárlega misst tökin í lífinu. Ferð í kolvetnasvelti, „googlar“ laxerandi og leyfir þér mögulega hafragraut á tillidögum. Þér verður ekkert ágengt og brjóstin blómstra sem aldrei fyrr. Glænýju brjóstahaldararnir úr Victorias Secret hafa verið dæmdir of litlir og þú heldur minningarathöfn þeim til heiðurs.
 7. Call the Midwife  (Bjallað í ljósuna) er allt í einu orðinn uppáhalds þátturinn þinn á Netflix. Þú gengur svo langt að taka sex þáttaraðir í nefið, hver hefur ekki gaman af fæðingarhörmungum seinni heimsstyrjaldarinnar? Þú þrætir við annað heimilisfólk um gæði þáttanna og þér tekst án áreynslu að drepa niður alla stemningu í stofunni.

  Mynd fengin af pbs.org
 8. Andlitið á þér skartar grænleitum undirtón sem myndi sóma sér vel hjá manneskju með lögheimili í fiskabúri. Þú mannst ekki alveg hvernig litaleiðréttingar-palettan virkar sem þú keyptir um daginn á Tax Free dögum. Ráðlegast er að maka þig í framan með fjólubláa litnum. Það fer ekki betur en svo að þú setur sjálfa þig í stofufangelsi og þróar með þér þunglyndiskast því þú lítur út eins og Úrsúla úr Litlu Hafmeyjunni.

  Mynd fengin af hellogiggles.com
 9. Þú tekur upp úr innkaupapokunum og áttar þig á því að þú gleymdir að kaupa smjör. Tárin brjótast fram og þú ert óhuggandi næstu klukkustundina. Þessi hræðilegu mistök verða ekki aftur tekin.
 10. Þú stendur sjálfa þig að því að standa út á miðju gólfi í Hagkaup klórandi þér í bumbunni blygðunarlaust. Áttar þig of seint á því að líklegast vildu aðrir viðskiptavinir Hagkaupa ekki láta bjóða sér upp á slíka hegðun á almannafæri.

  Mynd fengin af youtube.com
 11. Þú sérð ekkert athugavert við það að framreiða og borða pulsu í morgunmat.
 12. Þú ert aftur mætt í Hagkaup. Konan á undan þér í röðinni er að kaupa kartöflusalat. Þú gætir alveg hugsað þér að borða kartöflusalat með skeið núna. Áður en þú veist af ertu rokin úr röðinni, mætt í kælinn að versla þér kartöflusalat. Hvar eru plastskeiðarnar? Þú hefur ákveðið að borða kartöflusalatið beint úr dallinum á leið heim í bílnum.

Anna Ýr

Anna Ýr Gísladóttir er förðunarfræðingur, móðir og stjúpmamma, fagurkeri, heklari og föndrari ásamt mörgu öðru! Þú finnur Önnu á Instagram undir @annayrgisla