„Heldurðu að förðunarnámið muni borga sig?“

„Geturðu alveg flutt að heiman svona ung?“ 

„Heldurðu að þú höndlir að fara að leigja ein?“ 

„Fær maður einhverjar tekjur út úr þessu (förðuninni)?“ 

„Ertu viss um að þú viljir ekki frekar bara fara í háskóla?“

„Fullt fjarnám með rúmlega fullri vinnu? Geturðu það nokkuð?“ 

„Stofna bloggsíðu?!? Til hvers? Heldurðu að þú fáir einhverja lesendur?“ 

„Heldurðu að þú fáir þér ekki bara bjór aftur eftir þrjá mánuði (þegar ég hætti að drekka fyrir 8,5 árum)?“ 

„Meikarðu alveg að gera þetta allt í einu?“ 

Svona hljóma nokkrar af milljón spurningum sem ég hef heyrt og þurft að svara í gegnum tíðina eða síðan ég var um það bil 17 ára gömul. Ásamt setningu sem ég hef heyrt oftar en eðlilegt getur talist: „Þetta mun aldrei ganga.“ Og afsakið orðbragðið, en FOKK jú ég ætlaði mér að gera þessa hluti – og framkvæmdi þá svo sannarlega!

Það mun alltaf vera fólk sem reynir að draga úr því sem maður gerir eða ætlar sér. Það mun alltaf vera til fólk sem efast um mann og einfaldlega margir sem að vilja ekki að manni gangi vel. Lífið er þannig að það munu ekki allir styðja hvorn annan og það eru heldur ekki til bleikir einhyrningar og skýjin eru ekki gerð úr sykurpúðum (svo ég viti).

Svo eru aðrir eða manns nánustu sem bera manns hag fyrir brjósti og gefa góðar ráðleggingar sem gagnast margar auðvitað mjög vel. En ég hef það fyrir reglu í dag að hlusta í raun ekki á neina nema einmitt þá sem bera minn hag fyrir brjósti og hvetja mig áfram í að vera sigurvegari í því sem ég tek mér fyrir hendur. Hinir mega einfaldlega eiga sig og vona í hljóði að ég muni renna á rassinn þar til þeir verða bláir í framan. Það kemur mér einfaldlega ekki við. Ég er líka ótrúlega heppin að vera þannig gerð að ef einhver efast um mig, þá geri ég allt sem í mínu valdi stendur til þess að afsanna viðkomandi og troða því í andlitið á þeim. Ég er nefnilega dálítið þrjósk. Auðvitað hef ég gert óteljandi mistök á leiðinni en þau eru hluti af lífinu og þroska sálina ef maður er tilbúinn að læra af þeim.

Við eigum ekki endalaust að þurfa samþykki eða viðurkenningu annarra á því sem við gerum, enda erum við að lifa okkar lífi en ekki annarra. Hlustum á þá sem raunverlega vilja að okkur gangi vel og veljum okkur fólk í kringum okkur sem mun styðja okkur og hvetja. Og það sem meira er, hlustum á okkur sjálf. Álit hinna sem eftir eru skiptir ekki máli.

Ef þig langar að gera eitthvað, gerðu það. Ekki hætta við út af áliti annarra eða láta draga úr þér. Þú stjórnar þínu eigin lífi.

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig flugfreyja, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta og hundamamma.

Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is