Ég tók skrítna ákvörðun. Í heila viku skyldi ég fara í ræktina á hverjum degi. Ég rauk af stað á mánudegi (af því að allir vita allt svona rugl hefst á fyrsta degi vikunnar) í svörtum leggings og einhversskonar víðum Kvennahlaupsbol frá 1996. Ég vissi ekkert út í hvað ég væri að fara annað en að nafnið á tímanum hljómaði eins og ég myndi verða vöðvastælt og hamingjusöm að honum loknum. Ég hefði svo sem getað sagt mér að þetta hefði verið versta ákvörðun lífs míns þegar ég gekk inn í salinn og sá að helmingurinn af liðinu voru hrikalega peppaðir karlmenn með risastór lóð sér við hlið. En nei, ég gekk samt inn um dyrnar… að Helvíti.

Þjálfarinn dempaði ljósin, setti dúndrandi tónlist á og bað okkur að rífa lóðin upp. Ég svitnaði strax og innan í mér öskraði kokteilsósu sál mín á mig:“Hlauptu Thelma, hlauptu aftur heim upp í sófa!“ en ég neitaði að hlusta og hamaðist áfram. Vöðvarnir titruðu og sveittur líkaminn var að hruni kominn þegar þjálfari Satans sagði: „Flott hjá ykkur, þetta var æðisleg upphitun!“

UPPHITUN?!? Var maðurinn að grínast? Ég leit á klukkuna og sá að það voru bara tíu mínútur liðnar og þetta væri bara rétt að byrja. Restin af tímanum er í móðu og helsta minning mín er rödd þjálfarans: “Áfram! Þetta er ekki búið! Keyra svoooooooo!“ Sá hann ekki að ég var að deyja hægum dauðdaga? Ég óskaði þess heitt og  innilega að einhver myndi henda lóði í hann. Ég hefði gert það sjálf en ég hefði aldrei náð að lyfta því upp, hvað þá skutla því eitthvert.

Þegar ég var svo búin að ímynda mér jarðaför mína og reyna að hugga sjálfa mig með því að telja í huganum alla þá sem myndu mæta og gráta mest yfir andláti mínu lækkaði Satan loksins tónlistina og hrósaði okkur fyrir góðan tíma og bað okkur að leggjast í slökun. Ég fann ekki fyrir líkamanum þegar ég skutlaði mér í gólfið og hamaðist við að að reyna anda rólega við rólegu tónlistina. Sór þess eið með sjálfri mér að fara aldrei aftur í þennan tíma. Ég myndi aldrei standa aftur upp úr sófanum eða fara út úr húsi.

Næstu dagar á eftir voru mér erfiðir. Jú, ég lá sko sannarlega upp í sófa og hringdi í allar vinkonur mínar vælandi yfir harðsperrum. Þær sögðu mér að hætta þessu helvítis tuði og að hundskast aftur í ræktina. Þegar harðsperrur voru að líða undir lok og ég farin að hætta að grenja yfir þessari þolraun minni þá skráði ég mig aftur á æfingu … í þetta sinn í jóga!

Thelma Hilmars

Thelma er móðir tveggja orkumikla drengja sem hún elskar heitar en allt. Hún býr í bílskúr og er í poppkórnum Vocal Project. Hangir endalaust með vinum sínum sem hún dýrkar og borðar kokteilsósu með öllu. Snapchat : thelmafjb
Fylgstu með Pigment.is á Snapchat!

Deila
Fyrri greinVORIÐ FRÁ BOBBI BROWN
Næsta greinAMIKAT