Ég hef lagt mikið á mig fyrir að vera á staðnum sem ég er á í dag og er ekki hætt, ég ætla mér meira og ég ætla að lifa lífinu til fulls.

Ég og Rikka á Tallinn Fashion Week 2017

Margir segja við mig: „Vá þú ert svo heppinn að hafa fundið það sem þú elskar“ og: „Þú ert svo heppinn að vinna við það sem þú elskar!“ Já ég er mjög heppin með að hafa fundið það sem mér finnst æðislegt að gera og kalla varla vinnu og það er að skapa og gleðja. Ég er hárgreiðslukona og hef alla mína ævi verið mikið fyrir list og sköpun.

Hjördís að módelast og Heida HB að mynda – Iðunn Jónasar sá um förðun

Þegar ég var yngri þá leitaði ég mikið í listnám. Ég spilaði á þverflautu og tónlist hefur haft mikil áhrif á lif mitt. Ég fór á myndlistarnámskeið, leirnámskeið og á saumanámskeið. Þegar ég fór að ákveða í hvaða skóla ég ætti að fara í eftir 10. bekkinn þá hafði ég aldrei fengið kynningu á iðnnámi, listnámi eða öðru. Ég ákvað því að elta vinkonu mína í Fjölbraut í Breiðholti. Ég eignaðist nýja vini og lifið var gott nema námið var ótrúlega erfitt og ég féll oft í fögum bæði þar sem ég les hægt og auðvitað var mitt áhugasvið ekki á þessum stað. Ég barði mig niður fyrir hvert fall og lágar einkunnir og sjálfsálitið var ekki alveg eins og það ætti að vera vegna þessa. Þegar ég féll á önn þá er eins og ég hafi vaknað og á leiðinni heim tilkynnti ég foreldrum mínum það að ég ætlaði í hárgreiðlsunám.

Þarna kom hvatinn, ég ákvað þarna á leiðinni heim að verða hárgreiðlsukona. Ég vildi ekkert meira en að vera á stofu og ég vildi fá að læra sem mest og ýta mér lengra.
Ég talaði við stelpu sem var að læra förðun og fórum við tvær að vinna saman með hinum og þessum ljósmyndurum til þess að fá reynslu og safna í möppu. Með þessari ákvörðun og skrefi þá hef ég í dag kynnst fleira fólki í þessum bransa og höfum við gert stórkoslega hluti saman.

Ég tók eftir því að flestir í skólanum fóru að nota setningar eins og „ég þoli ekki“ eða „ég hata.“ Til dæmis: „Ég þoli ekki permanent“ og með hverri önn fóru þau að þola minna og minna en samt voru þau í hárgreiðlsunámi. Ég hugsaði með sjálfri mér að ef þú ferð að stimpla hluti svona þá endist þú ekki lengi í þessu fagi því listinn fer minnkandi yfir það hvað þér finnst gaman. Allt verður neikvætt og þú hættir að hafa áhuga á þvi sem þú elskaðir einu sinni. Hugsun okkar hefur ótrúleg áhrif á hvatvísi okkar, gleði og áhuga. Ég vildi jákvæðni og vildi alls ekki fara að nota setningar á borð við „ég þoli ekki“ því ég vissi að það myndi leiða mig í áhugaleysi. Ég held að þarna hafi komið það sem allir segja mér í dag með hvað ég er heppin að vinna við það sem ég elski, en það er manneskjan sem ég ákveð að vera með því að hugsa jákvætt og ýta mér áfram. Fólk sér það og segir að þetta sé mjög sjalgjæft. Þetta er sjalgjæft þar sem neikvæðnin tekur alltaf völdin á okkur og við erum aldrei sátt. Prófaðu að snúa þessari hugsun og finna jákvæðni og hrósa þér. Þú munt finna það sem þú elskar!Í dag á ég hárgreiðlsustofu með tveim öðrum hársnillingum, ég hef farið á 5 tísku vikur (Par+os, Tallinn, Kaupmannahöfn og tvisvar til Prag). Ég hef séð um hár á forsíðum og myndaþáttum í tískutímaritum hérlendis sem erlendis. Ég hef séð um hár fyrir leiksýningar og verið sjálf með námskeið og kynnst ótrúlega flottu fólki á þessu ferðalagi.

Þetta hefur kostað mjög mikla vinnu og hef ég ekki verið að bíða eftir verkefnum heldur leita ég af þeim, ég ýti mér áfram, spyrst fyrir og kynni það sem ég hef gert.

Mig langaði að skrifa þessa grein þar sem ég ér nýkomin frá Tallinn Fashion Week og hef heyrt svo marga segja hvað þeir öfundi mig vegna þess að ég vinn við það sem ég elska og fæ að gera huti eins og að ferðast og gera hár.
Mér finnst bara margir sitja og bíða eftir að eitthvað gerist og hlutirnir komi upp í hendurnar á þeim en þetta virkar ekki svoleiðis. Þetta tekur mikla vinnu, þolinmæði og hugrekki myndi ég segja að koma sér áfram og grípa tækifærin sem koma upp á borðið.
Þú getur allt sem þú vilt! Stundum tekur það tvo daga en það getur líka tekið mörg ár að ná því sem þú ætlar þér. Gerðu þitt besta og reyndu að finna jákvæðni í öllu sem þú gerir, við lærum alltaf einhvað nýtt á hverjum degi. Hrósum okkur og verum stolt af því sem við erum.

Þú getur allt en það þarf þrautsegju. Þetta er þitt líf og hvað þú gerir með það er eingöngu í þínum höndum.

Settu markiðin þín niður á blað, stór sem smá. Leyfðu þér að vera með stóra drauma og gerðu áætlun yfir hvernig þú gætir komist á þann stað sem þú vilt. Spurðu til og lærðu af þeim sem hafa komist lengra eða á áfangastaði sem þú vilt komast á. Ef þú ert sú manneskja sem einhver leitar til og spyr um ráð eða leiðir vertu þá manneskjan sem hjálpar og gefur tækifæri og svör til þess að leyfa öðrum draumum að rætast. Við lærum mest af öðrum og af reynslu.

Þetta er ekki bara í tengslum við starf og nám heldur líka ferðalög, heilsu, fjármál og allt sem þér dettur í hug. Vertu besta útgafan af sjálfum þér og lífðu lífinu með bros á vör og jákvæða orku!

Drífðu þig áfram, þú veist ekki hvernig morgundagurinn verður.

Katrín Sif

Katrín Sif er hárgreiðslukona og einn af eigendum Sprey Hárstofu. Jákvæðni lýsir henni best og hún hefur áhuga á öllu sem tengist hári og tísku. Snap: spreyharstofa