Ég er bara svona týpa sem allt þarf að gerast mjög hratt hjá, ef ég ákveð eitthvað. Ef ég kaupi lottómiða (sem ég geri nánast aldrei) og fer og læt renna honum í gegnum lottóvélina og bíð eftir fagnaðarhljóðum og rétti fram höndina til að hala inn milljónunum mínum þá er ég geðveikt hissa á því þegar starfsmaðurinn segir mér að enginn sé vinningurinn. Þá hætti ég að kaupa lottó í eitt ár, svo mikil er hneykslun mín. Ég, sem ákvað í þetta eina sinn  að kaupa lottó miða!

Ég hef fitnað um ein tólf kg og ég er alls ekki sátt við það. Þegar ég svo ákveð að gera eitthvað í því þá finnst mér að það eigi að gerast hratt og örugglega. Ég kaupi líkamsræktarkort, æfingaföt, vatnsbrúsa, kotasælu og Hámark á einum degi. Rýk af stað í ræktina og hamast eins og brjálæðingur og ÆTLAST til þess að vera orðin grönn á morgun. Þegar það gengur svo ekki upp þá fer líkamsræktin á sama veg og lottómiðinn, á bið í  eitt ár (eða fleiri, fer alveg eftir því hversu fúl ég verð). Ég verð bara svo hrikalega pirruð þegar vigtin húrrar ekki niður um ein 5 kg þegar ég stíg á hana (klukkutíma eftir æfinguna).

Mér finnst líka svo rosalega erfitt að kveðja uppáhalds vin minn, Hr. Brauðmeti.  Hann verður samt seint talinn besti vinur minn því hann lætur mig blása út að framan og gerir mig eins og vaggandi ólétta konu sem er komin eina 6 mánuði á leið. Hann fær allskonar fólk til að ganga upp að mér skælbrosandi með höfuðið hallandi til hliðar og segja „awwww ertu ólétt“? Ég vorkenni þessu fólki alltaf svo mikið að ég næ ekkert að vera móðguð. Ég skil það vel, ég lít út eins og ólétt kona. En ég er að vísu enn að jafna mig eftir barnsburð. Líkami kvenna getur alveg verið mjög mjög mjög lengi að því. Við erum eins mismunandi og við erum margar, fjandinn hafi það og  yngri strákurinn minn er að verða níu ára. Það er enginn aldur og ekki má gleyma því að hann fæddist 18 merkur! Ekki nema von að líkaminn minn sé enn að bíða þess bætur.

Stundum gleymi ég því hvernig ég lít út. Ég er kannski að fara út á lífið, set góða tónlist á, opna einn kaldan og hefst handa við að smyrja á mér andlitið allskonar felulitum. Klæði mig í þröng föt og fæ mér annan bjór. Spegla mig svoleiðis bak og fyrir á leiðinni út. Þá er bjórinn búinn að slæva sjón mína og ég er bara ótrúlega dolfallin yfir spegilmyndinni. Blikka sjálfa mig og hvísla „you got this, skinny bitch“. Ég er þessi sem er hrókur alls fagnaðar, dansandi upp á borðum og heimta að fá að vera með á öllum myndum. Svo kemur morguninn eftir og myndirnar fara að dúkka upp á Facebook og Instagram og ég fæ andlegt áfall. ÞETTA er ekki konan sem blikkaði sjálfa sig í gær. Bolurinn aflagaður, bumban úti, hárið í fokki og varaliturinn orðinn hálfur. Ég er bara hissa á því að það sé ekki komin forsíðufrétt með yfirskriftinni: „Ólétt kona sást drukkin á djamminu í gær“.

En þegar djammviskubitið gengur yfir og ég er komin með hausinn á réttan stað þá er ég komin með lausnina á öllum mínum vandamálum. Ég ætla kaupa lottó í hverri viku því einn daginn kemur að því að ég vinn og þegar það gerist þá fer ég í fitusog.

 

Thelma Hilmars

Thelma er móðir tveggja orkumikla drengja sem hún elskar heitar en allt. Hún býr í bílskúr og er í poppkórnum Vocal Project. Hangir endalaust með vinum sínum sem hún dýrkar og borðar kokteilsósu með öllu. Snapchat : thelmafjb
Fylgstu með Pigment.is á Snapchat!