Ég vil hér með vara hörundsára við harkalegum skrifum, sem sum eiga kannski ekki rétt á sér. En dæmi hver fyrir sig.

Ég ákvað að nýta fyrirtíðarspennuna í sambland við margra ára pirring og segja það sem þarf að segja – og það sem ég veit að allar vinkonur mínar sem eru starfandi förðunarfræðingar/sminkur furða sig reglulega á.

Árið 2011 útskrifaðist ég sem förðunarfræðingur. Þið sem eruð sérstaklega glögg áttið ykkur á því að síðan eru liðin um það bil sex ár. Þar áður byrjaði ég um 12-13 ára aldurinn að fikta mig áfram með förðunardót og fljótlega upp úr grunnskóla hóf ég að farða vinkonur mínar, stundum gegn einhverju klinki. Síðastliðin sex ár hafa falið í sér eftirfarandi atriði og kostnað:

  • Nokkur hundruð þúsund í skólagjöld (ég lærði í MOOD Make Up School og tók þar grunnnám, airbrush námskeið og masterclass yfir nokkurra ára skeið).
  • Gróflega reiknað, í kringum ein milljón í efniskostnað (einhverjir hundrað þúsund kallar til eða frá).
  • Nánast ómögulegt að reikna saman, en í kringum það sem samsvarar nokkrum heilum vinnumánuðum í ýmist ekkert launuð eða mjög illa launuð verkefni til að sanka að mér reynslu og/eða myndum í möppu.
  • Óteljandi einstaklings- og brúðarfarðanir, fjölmörg verkefni sem tengjast tímaritum, sjónvarpi eða öðru (sjá þessa síðu fyrir nánari upplistun).
  • Nokkurra ára starfsreynsla í verslunum, þar á meðal fyrir Make Up Store, L’Oréal, BOBBI BROWN (sölustjóri) og Nola (verslunarstjóri).

JÆJA.

Sem betur fer eru margir sem sætta sig vel við að ég taki 8.000 krónur fyrir einstaklingsförðun og 22.000 krónur fyrir brúðarförðun. Fyrir annars konar verkefni er ég svo með hálfs- og heils dags taxta ásamt útkallstaxta.  Þar að auki set ég álag á þessi gjöld fyrir a) Stórhátíðir eða b) Ef ég þarf að ferðast fyrir verkefnið.

En algengar spurningar skjóta oftar en ekki upp kollinum, svo sem: „Ég fæ ekki augnhár, er þetta þá ekki ódýrara?“, „Get ég komið bara alveg tilbúin með húðina og þú  bara gert augun?“ „Er þetta ódýrara ef ég kem með mitt meik/varalit/maskara?“, „Ég á bara 3.000 krónur, dugar það?“. Svo eru líka staðhæfingar eins og: „Ég er búin að reikna og bensínkostnaður til Selfoss er ekki SVONA dýr!“ og svo eitt af mínum uppáhalds: „Vá hvað þetta er dýrt. Frænka mín sem var að útskrifast úr (setjið inn nafn skóla hér) tekur sko bara 5.000 krónur með augnhárum!“

Nei annars. Mitt uppáhald er þegar að ég get ekki farið út með vinkonum mínum án þess að enda á því að farða þrjú andlit og geta hvorki slakað á né skemmt mér fyrr en ferðinni er heitið í miðbæinn (sorrý, en má ég velja hvort ég vil vinna frítt kl 23:00 á laugardagskvöldi?).

Myndir þú spyrja iðnaðarmann hvort að verkið væri ódýrara ef hann notaði þína borvél? Nei? Af hverju finnst fólki þá réttlætanlegt að spyrja aðra fagmanneskju þessara spurninga?  Er það vegna þess að allt tengt förðun er svo gaman að þetta hlýtur að vera bara hobbý og okkur þykir bara rosalega gaman að mála alla?

Ég viðurkenni fúslega, ég ELSKA allt sem tengist förðun. Ég elska að farða fólk. Ég elska að fara í förðunarverkefni, kynnast yndislegu fólki, lifa fjölbreytilegu lífi, skoða snyrtidót, skrifa um snyrtidót og margt fleira. En þetta er samt sem áður vinnan mín. Þetta er áhugamálið mitt, vissulega. En ég vinn við þetta. Prúttar vinnuveitandi minn niður tímakaupið mitt? Nei. Afhverju gerir annað fólk það þá þegar ég er að vinna sjálfstætt?

Vinnu- og vöruskipti eru svo allt annar kapítuli sem ég held að flestir stundi einhverntíman, hafi þeir tök á því.

Annars hefur þessi pistill engan sérstaklega hnyttinn endir. En ég er að spá í að spyrja tannréttingarsérfræðinginn minn næst hvort hann sé til í að lækka verðið fyrir mig ef ég strekki teinana sjálf.

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig flugfreyja, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta og hundamamma.

Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is