„Vá geðveikt Thelma, ert þú byrjuð að blogga? Frábært, hlakka til að lesa allt eftir þig, þú ert svo fyndin og skemmtileg.“

Já nei nei, engin pressa fyrir venjulega konu sem býr í litlum bílskúr og kann ekki að mála sig. Ég er ekki að fara segja ykkur hvar þið finnið besta förðunardótið eða hvernig er best að grenna sig. Eða hvaða hönnun er best til að fegra heimili. Vinkonur mínar innréttuðu minn bílskúr og ég nota hann bara til að sofa í. En þó að ég gæti talið upp allskonar hluti sem einkenna mig ekki, þá er ég samt alveg áhugaverð held ég. Kannski bara smá … ?

Ég útskrifaðist úr menntaskóla 2013 (æj ekki fara að spá í aldrinum mínum) og hélt að sjálfsögðu veislu því hvert tilefni til þess að drekka er ávallt gaman. Eins og í venjulegum veislum þá fylltist gjafaborðið af veglegum gjöfum. Daginn eftir sat ég í þynnkunni með kaffibollann minn og slefaði yfir pökkunum og upp úr einum slíkum dró ég upp skál! Skrítna, glæra og einhversskonar punkta skál. Guð minn góður. Er ég 78 ára? Hvurn fjandann á ég að gera við skál sem rúmar ekki einu sinni salat eða morgunkorn? Þar sem ég sat með skálina í höndum mér hugsaði ég: „Vá, vinkona mömmu hefur nú bara rúllað í mestu makindum inn í Rúmfatalagerinn og horft yfir búðina og gripið ljótustu skálina þar og hugsað: „Jebb, þetta er alveg Thelmulegt.“  En þar sem ég er vel upp alin kona þá reyndi ég að finna ýmis notagildi fyrir hana en sá fljótt að eina sem myndi duga ofan í þessa skrítnu skál væru sólblómafræ eða þrjár kexkökur, þannig að tóm fékk hún að prýða hilluna fram á gangi.

Nokkrum mánuðum síðar þá kom að afmælinu mínu og að sjálfsögðu var blásið til veislu (þarf alltaf að vera vín?). Besti vinur minn hefur þann góða sið að halda ávallt vandræðalega sannar og fyndnar ræður. Hann hnippir í mig og segir að hann vanti eitthvað til að klingja í til þess að fá fólk til að þegja og hlusta á sig. Ég var nú ekki lengi að hugsa þegar ég reif skrítnu bólugröfnu skálina úr hillunni og sagði honum að nota hana. Hann rauk fram og byrjaði að berja hana með teskeið *KLING KLING KLING*. Í alvörunni þá vissi ég ekki hvert afmælisgestirnir ætluðu! Upp hófst fótur og fit þar sem allar mínar vinkonur ruku upp og í mikilli geðshræringu var gargað: „Guð minn góður, þetta er Ittala skál!“ Ég hugsa að ég hafi litið út eins og lítið barn sem var staðið að því að róta í herbergi eldra systkini síns. Ekki skánaði liðið þegar það áttaði sig á því að ég vissi nákvæmlega EKKERT um hvað þau voru að tala. Skálin var hrifsuð úr höndum vinar míns og henni klappað og strokið. Ég fékk svo ávítanir um að ég kynni nú alls ekki gott að meta með allskonar innöndunar hljóðum og hausar hristust til og frá í vanþóknun. Best væri nú að taka af mér skálina þar sem ég væri þess alls ekki verð að geta hugsað um slíkan DÝRGRIP og svo fylgdu enn fleiri innöndunar hneykslunar hljóð.

Eftir þetta atvik hefur tíðkast að gefa mér allskonar „svona dót“ í gjafir. Ég fékk til dæmis vasa í jólagjöf frá vinkonu minni sem ég held í alvörunni hafi ekkert notagildi nema kannski til að geyma mögulega einn blýant í.

Og svo fékk ég viðarplatta í gjöf frá stjúpmóður minni (og pabba) sem ég hélt fyrst að væri útskorið Ísland til að hengja upp á vegg en nei, þetta er víst ostabakki (held ég). Núna í ár fékk ég barnabolla sem mér fannst furðulegt þar sem ég á ekki ungabörn lengur. En nei, það tíðkast víst að drekka kaffi úr bollum sem eru með barnamyndum á.


En svo lengi lifir sem lærir og kannski einn daginn verð ég með heilan bílskúr af allskonar dóti sem ég gæti aldrei borið fram nafnið á né vitað hvað í ósköpunum ætti að gera við.

P.S. Vinkona mín fékk að lesa þetta fyrir birtingu og var ekki LENGI að benda mér á að maður skrifar iittala – I rest my case.

Thelma Hilmars

Thelma er móðir tveggja orkumikla drengja sem hún elskar heitar en allt. Hún býr í bílskúr og er í poppkórnum Vocal Project. Hangir endalaust með vinum sínum sem hún dýrkar og borðar kokteilsósu með öllu. Snapchat : thelmafjb
Fylgstu með Pigment.is á Snapchat!