Nú vorum ég og kærastinn að koma úr mánaðarreisu. Við byrjuðum að fara til Thailands þar sem stoppað var í nokkra daga á Phi Phi Island þar sem við vorum að kafa. Síðan voru það tveir dagar í Kuala Lumpur og svo enduðum við að vera 15 daga á Bali.

Bali er minn uppáhalds staður og var þetta í annað sinn sem ég fer þangað en ég fór síðast ein míns liðs í september 2015.

Bali er eyja þar sem allir eru brosandi. Fólkið þarna þekkir að meirihluta nær ekkert nema Bali og hafa fæstir heimsótt önnur lönd eða eyjur í kring. Fólk á ekki mikið milli handana og þurfa nær allir að vinna í tveim vinnum til þess að halda sér og fjölskyldunni uppi.

Á Bali er hindu trú og þeir eru búnir að setja menninguna sína inn í trúna. Þeir biðja oft og setja vafna bambus platta út á götu, inn í eða ofan á bía eða þar sem hentar, en tilgangurinn með því er að biðja fyrir jafnvægi í kringum sig. Fólkið er virkilega fallegt og brosir út í eitt. Þarna er mikil jákvæð orka sem er ótrulegt. Það sem við sáum er engan veginn auðvelt líf en þeir eru nægusamir og sáttir með hverjir þeir eru og hvar þeir eru sem er mjög heillandi og mér finnst að við Íslendingar ættum að taka þetta viðhorf til okkar.

Ég elska Bali út af þessari róandi tilfinningu sem ég fæ þar, fegurðinni út um allt og jákvæðninni.

GILI TRAWANGAN

Við vorum fyrst á Gili Trawangan sem er eyja rétt fyrir utan Bali en það tekur um tvo til þrjá tíma að komast þangað með báti. Eyjurnar eru þrjár; Gili T, Gili Mano og Gili Air. Gili T er kölluð partý eyjan en þar eru nokkir skemmtistaðir sem spila tónlist langt fram á kvöld. Það sem einkennir Gili er það að það er einungis ferðast um gangandi, hjólandi eða á hestavögnum. Það er bannað að nota vespur og er eyjan of lítil fyrir bíla en þeir vildu halda henni hreinni og spara orku svo þeir bönnuðu vespur (bensín og rafmagns).

Við vorum komin til þess að kafa og köfuðum þar með Manta Dive. Ég mæli með þeim, við fórum á skemmtilega staði og sáum risavaxnar skjaldbökur, White Tip hákarla, kolkrabba sem breyta um lit, cuddle fish, lion fish, litríka kóralla og svo margt meira.

JIMBARAN

Næst var haldið aftur til Bali á stað sem heitir Jimbaran. Jimbaran er mjög rólegur staður þar sem fólk kemur og slakar aðallega á. Við vorum að prófa þennan stað í fyrsta skipti og ég mæli frekar með að vera nær Uluwatu. Við vorum samt mjög ánægð með þetta og bókuðum við líka þetta fína hótel en flest hótel á Bali kosta litið sem ekkert en þú færð þvílíkt flott og mikil gæði fyrir peninginn. Við vorum þar í fimm daga og notuðum við þá í að fara í skoðunarferðir um Bali og svo sérferð um Uluwatu, Padang Padang ströndina og Nusa Dua.


Ég mæli með að sjá Tari Kecak Uluwatu en það er menn sem búa til tónlist með hljóðum á meðan þú horfir á indónesískan dansþátt.
Rock Bar er einn flottasti veitingarstaður sem ég hef séð og farið á og ég mæli hiklaust með að kíkja þangað. Gott er að koma timalega eða um fjögur-fimm leytið til þess að ná góðum sætum og ná að sjá fallega sólsetrið sem Bali bíður upp á á hverju kvöldi.
Svo er gaman að rölta um Jimbaran og sjá sjávarmarkaðin þar sem hægt er að versla allan fisk í heimi og fá sér að borða á stöndinni.

UBUD

Ubud er ótrúlega fallegur staður og virkilega gaman að koma þangað. Þú ert umkringdur hrísgrjónaökrum og það eru margar götur þarna sem skiptast svo niður. Ein gatan selur handunnin timburverk, önnur er með gull og silfur svo eru steinagötur og fleira.  Ég mæli með að kikja á Monkey Forest og gefa villtum öpum banana. Maður verður samt að passa sig, þeir eru villtir og geta verið árasagjarnir. Það má snerta þá eða gefa þeim einhvað annað en banana. Þeir eru líka þjófóttir svo gott að vera með gott hald á simanum eða myndavélinni! Sem betur fer lentum við ekki í neinu slíku.

Það er skemmtileg gata sem liggur svo upp þegar þú kemur af Monkey Forest og geturu verslað allskonar hluti þar. Ég mæli með veitingarstað á þeirri götu sem heitir Three Monkeys. Virkilega góður matur og mjög kósy staður. Annar veitingastaður sem er sirka 20 mínútna labb frá Three Monkeys heitir Sari Organik. Þú labbar smá spöl í gegnum hrisgrjónaakra og litla sveitabæi og endar á veitingarstaðnum með útsýni yfir akrana. Auðvitað er möst að panta sér einhvað indónesískt þar og ferska kókóshnetu. Svo mæli ég með að skella sér í hjólaferð niður eldfjallið Kintamani en þar sérðu hvernig fólk býr, vinnur og færð að sjá meira hvernig alvöru Bali menning er.

CANGGU

Uppáhalds staðurinn minn! Hérna er „chillstemmning,“ farið á brimbretti og haft gaman. Andrúmsloftið á Canggu er yndislegt. Ég mæli með að fara fara á brimbretti en ég „surfaði“ núna með MOJO SURF og stóð ég mig bara þokkalega vel. Hér fer fólk á hverju kvöldi á stöndina og horfir á sólsetrið og brimbrettakappana meðan sólin sest.

Það er rosalega mikið af góðum veitingarstöðum en ég mæli hiklaust með þessum: Betelnut CafeCafe OrganikGypsyIthaka sem eru staðir á aðalgöngugötunni sem bjóða öll upp á æðislegan morgunmat, hádegismat eða kvöldmat. Svo eru það Deus og Old Mans sem eru vinsælir þar sem það er „happy hour“ öll kvöld og svo skemmtir fólk sér langt fram á kvöld. Old Mans er við ströndina svo það hentar vel að hoppa þangað í mat, drykk og jafnvel dans eftir fallegt sólsetur. Canggu er stutt frá Seminyak , Legian og Kuta. Það er ekkert mál að taka taxa eða mótorhjól þangað yfir. Æðisleg stemming og það var best í heimi að enda ferðina þarna.

Ef ég ætti að segja þér hvað væri nauðsynlegast að gera á Bali, þá væri það:

Kafa – Fara á brimbretti – Skoða UBUD og kynnast menningunni á Bali – Borða góðan mat og svo auðvitað að njóta lifsins!

Ef þú vilt vita meira eða einhverjar spurningar þá geturu haft samband við okkur á Facebook (hlekkur hér fyrir neðan) eða sent mér póst á katasprey@gmail.com 

Katrín Sif

Katrín Sif er hárgreiðslukona og einn af eigendum Sprey Hárstofu. Jákvæðni lýsir henni best og hún hefur áhuga á öllu sem tengist hári og tísku. Snap: spreyharstofa