EINELTI Í ÖLLUM BIRTINGARMYNDUM

Ég ætla að gera eitthvað sem er ótrúlega ólíkt mér og „ranta“ smá. Einhverjir munu að öllum líkindum taka þennan pistil óstinnt upp og halda því fram að ég sé að lesa yfir þeim með hvað þeir „mega“ gera og hvað ekki í mannlegum samskiptum. Ef það er tilfellið, þá er mér bara alveg sama. Og það er líka alveg rétt að ég sé að tuða um eitthvað sem kemur mér líklega ekki við. Þeir taka það til sín sem eiga það og ef einhver móðgast við þennan lestur, hendir mér af Facebook og fer í fýlu við mig, þá er það sennilega manneskja sem ég vil hvort eð er ekki eiga í samskiptum. Ruslið fer nefnilega stundum út með sig sjálft.

Ég er að tala um einelti. Stoppið hér ef þið nennið ekki lífsreynslusögum. Í gegnum alla mína leik- og grunnskólagöngu upplifði ég minn skerf (og nokkurra annarra) af því að vera þolandi stundum mjög alvarlegs eineldis. Eins og það væri ekki nóg upplifði ég það einnig á vinnustað eftir það þar sem ég stoppaði sem betur fer stutt. Eineltið brennimerkti mig fyrir lífstíð og skildi eftir ör og rændi mig bæði sjálfstrausti og eðlilegri barnæsku svo eitthvað sé nefnt. Ég varð fyrir ógeðslegri framkomu krakka (sem eru orðnir fullorðið fólk í dag og hafa mörg beðið mig afsökunar), sumra kennara og þar fram eftir götunum. En nóg um það. Ég nenni takmarkað að lifa í fortíðinni og hvað þá að skrifa um hana. Blessunarlega bar ég sigur úr býtum gegn margþekktum afleiðingum eineltis (eftir smá krókaleið) og stend uppi sem sigurvegari. Ég er heilsteyptari og sterkari einstaklingur en mig hefði nokkurn tímann grunað að ég gæti orðið. Það eru því miður ekki allir svo heppnir sem verða fyrir einelti.

Það er þó þannig að einelti getur gert vart við sig á öllum sviðum lífsins, á öllum aldri og í ótal birtingarmyndum. Ein birtingarmyndin sem hefur verið áberandi undanfarið er svokallað net-einelti. Sögur af börnum og fólki sem stígur fram og segir frá slíku einelti verða sífellt fleiri.

Varðandi börn  sem beita slíku einelti getur margt búið að baki. Heimilisaðstæður geta verið erfiðar, barnið hefur ekki verið frætt og veit þar af leiðandi ekki hvað einelti er, foreldrar eru ekki að ala barnið nægilega vel upp (nei ég er ekki að dæma ykkur sem foreldra), almenn fáviska og svo framvegis. Mér finnst að minnsta kosti einelti þar sem börn eiga í hlut vera afsakanlegra en þegar fullorðið fólk á í hlut. Við eigum nefnilega að vita betur.

En nú virðist það vera orðið samfélagslega „í lagi“ að beita þekkt fólk einelti. Á einhverjum tímapunkti ákváðum við að verða svo hræðilegar fyrirmyndir fyrir börnin okkar að við leyfum okkur að segja HVAÐ SEM ER bakvið tölvuskjá. Ef þú ert þekktur, hvort sem það er í heimi fjölmiðla, tónlistar eða einhvers annars þá má níðast á þér. Það má skrifa niðurlægjandi hluti um þig og fjölskylduna þína á netinu, það má senda þér ógeðsleg skilaboð á Snapchat, Facebook og Instagram og svo framvegis. Því þú ert þekktur og þá baðstu væntanlega um að láta dæma þig, alveg burtséð frá öllu öðru. Fólk sem hefur ekkert að gera og er sennilega vansælt má sitja heima í sófa með símann að vopni og niðurlægja þig því það fær eitthvað út úr því (þó ég skilji ekki alveg hvað). Ég tek þó fram að blessunarlega hef ég sloppið við þennan hluta, enda er ég bara ekkert þekkt.

Það slær mig alltaf hvað fólk getur verið óvægið í garð annarra. FULLORÐIÐ fólk. Sem á að vita betur og vita hversu slæmar afleiðingar eineltis geta verið, alveg sama hvar það er. Það skiptir nefnilega engu máli hvort maður er nafnlaus á bakvið tölvu- eða símaskjá. Orðin og sögurnar meiða nákvæmlega jafn mikið.

Í lok þessa pistils, sem átti að vera stuttur en varð að ritgerð, vil ég endilega minna ykkur á eftirfarandi: Hinumegin við skjáinn er lifandi manneskja með tilfinningar. Það er ekki ykkar að dæma hana, semja sögur eða skrifa ljót skilaboð. Þið sem hafið verið að þessu, vitandi hvað þetta er ljótt: Skammist ykkar! Þið sem hafið stundað þetta án þess að gera ykkur grein fyrir afleiðingunum: Ég hvet ykkur til að breyta því hvernig þið hagið ykkur gagnvart öðru fólki.

Verum góð við hvort annað.

Endilega líkið við Facebook síðu okkar HÉR – Einnig erum við á Snapchat undir nafninu Pigment.is 

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig flugfreyja, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta og hundamamma.

Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is

Deila
Fyrri greinJÁTS!
Næsta greinHEIMURINN UNDIR VATNI