Eins og flestir lesendur blogga og fylgjendur snappara hafa væntanlega tekið eftir, þá eru auglýstar vörur og fleira á þessum miðlum. Það getur verið í formi færslu, mynda, story á Snapchat eða eitthvað þvíumlíkt. Sumir eru öflugri í þessu en aðrir en oftast er eitthvað um auglýsingar hjá öllum.

Ein stór auglýsing?

Mikil umræða var um auglýsingar á samfélagsmiðlum fyrir nokkrum vikum, ásamt því að ég hef séð nokkra af kollegum mínum í bloggheiminum skrifa eða tala reglulega um þetta. Þannig er mál með vexti að samfélagsmiðlar hafa tekið mikið yfir sem „auglýsendur“ þegar það kemur að snyrtivörum, fatnaði og mörgu fleira. Það er að sjálfsögðu enn auglýst í blöðum og tímaritum en samfélagsmiðlar verða sífellt stærri og áhrifameiri. Fyrirtæki notast því auðvitað við þá – rétt eins og þau notast við tímaritin. Allir með vott af markaðsviti myndu líklega gera það nákvæmlega sama ef þeir þyrftu að koma vöru eða þjónustu á framfæri.

Á dögunum talaði ég við vinkonu mína sem er lesandi af mörgum bloggum, en sagðist vera hætt að nenna að lesa þau mörg þar sem að þau væru meira og minna farin að snúast um auglýsingar og „mont“ heldur en raunverleikann, ráðleggingar, hugleiðingar og fleira. Þar get ég að vísu verið nokkuð sammála henni og get vel viðurkennt að ég hef fallið í þá gryfju sjálf að fjalla meira um vörur sem ég fæ en eitthvað annað. Einnig hef ég marg oft heyrt setningar á borð við: „Ég vildi að ég væri bloggari, þá fengi ég fullt af dóti gefins.“

Þetta er raunveruleg vinna

Málið er þetta: Bloggið er orðið form af vinnu fyrir mig og marga aðra. Vörur sem við fáum eru í raun launin okkar og vinnan okkar er að kynna þessar vörur og koma þeim á framfæri til almennings. Að sjálfsögðu tölum við ekki um vörur sem okkur líkar ekki við, en í mínu tilfelli reyna fyrirtæki að koma til móts með því að láta mig fá eitthvað sem þau halda að gæti hentað mér. Þar að auki er ég mjög heppin að ritstýra hópbloggi svo að stór hluti varanna fer í hendur hinna pennanna á síðunni. Ef svo ólíklega vill til að varan henti engum í hópnum (held það hafi nú sjaldan sem aldrei komið fyrir), þá er einfaldlega ekki skrifað um hana og viðkomandi fyrirtæki látið vita af stöðunni. Lesendur eru nefnilega mikilvægasti hluti síðunnar og við viljum vera heiðarlegar gagnvart þeim. Færslurnar eru fyrst og fremst ætlaðar þeim til yndisauka, innblásturs og skemmtunar.

Stundum, eins og undanfarið, koma tímabil sem innihalda fullt af nýjungum frá vörumerkjum. Þá er eðli málsins samkvæmt mun meira um umfjallanir og „vöru-snöpp“ en á eðlilegri dögum. Eins mikið og ég og aðrir vildum á svona tímum geta haft tíma bæði í langar greinar, ráðleggingar OG vöruumfjallanirnar, þá verður maður einfaldlega að geta andað inn á milli svo að eitthvað verður að víkja í smá tíma.

Er gaman að fá vörurnar? Að sjálfsögðu er það gaman! Það eru mikil forréttindi að fá að prófa nýjar vörur og að fá oft að vera ein af þeim fyrstu sem gerir það. En þrátt fyrir það mætti líkja því að fá vörur í stað umfjallana við það að fá pening inn á bankareikninginn minn fyrir aðra vinnu sem ég legg af hendi og jafnvel kaupa mér eitthvað fyrir hann. Þetta er nefnilega ekki svo einfalt að fá bara vörur og fyrir einhverskonar töfra birtist færsla um þær, eða að við bloggarar séum bara svona ótrúlega heppnar fyrir einskæra tilviljun.

Þetta er vinna. Myndataka tekur tíma og myndvinnsla sömuleiðis. Myndavélin sem ég nota var ekki ókeypis. Síðan sjálf, hönnun og uppbygging hennar var langt í frá ókeypis. Það að lesa sér til um vöruna getur tekið allt frá nokkrum mínútum upp í klukkutíma „gúggl“ og að skrifa um vöruna tekur einnig sinn tíma. Fundir taka einnig sinn tíma, viðræður, peningur sem fer í bensín við að keyra á staði og svo framvegis. Þar sem að ég ritstýri líka síðunni fer ég svo yfir allar færslur og laga til hjá öðrum pennum, tímastilli, sé um Facebook/Instagram og svo framvegis. Allt þetta ferli, eins hrikalega skemmtilegt og það er, tekur jafn mikla orku og „venjuleg“ vinna. Hvað snapp-umfjallanir varðar, að þá taka þær líka mikinn tíma og orku með tilheyrandi tali, svörum á spurningum, myndatökum og fleiru.

Áhugamálið

Ástæðan fyrir því að ég blogga er þó (ótrúlegt en satt) ekki til þess að fá vörur. Þó svo að það sé auðvitað stór plús að fyrirtæki séu tilbúin til að treysta manni fyrir að meta og skrifa um vöruna sína. Ég myndi blogga um allt sem ég nota og miklu meira til þó ég fengi ekki eina einustu vöru „gefins.“ Ástæðan fyrir því að ég blogga er sú að ég elska að skrifa. Koma skoðunum mínum og ráðleggingum á framfæri. Sjá lesendahópinn stækka og sjá árangur af því sem ég er að gera. Mér líður oft eins og ég sé með eitt af skemmtilegustu áhugamálum í heimi – og í risastórum saumaklúbb með fullt af skemmtilegum stelpum sem deila því áhugamáli.

Við erum einfaldlega öll að gera okkar besta og við viljum öll koma frá okkur efni sem þið getið notið. Hvort sem um er að ræða umfjallanir eða eitthvað annað. Ég vona að þessi pistill komi til með að gagnast einhverjum sem hefur verið að velta þessum málefnum fyrir sér – eða hafi í það minnsta veitt ykkur góða lesningu.

gunnhildurbirna-1

Endilega líkið við Facebook síðu okkar HÉR – Einnig erum við á Snapchat undir Pigment.is 

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig flugfreyja, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta og hundamamma.

Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is