Um daginn átti ég afmæli og ég fékk mjög viðeigandi afmælisgjöf. Ég fékk mína fyrstu plöntu. Plantan gengur undir nafninu „Skrímslið“ en hennar eiginlega heiti er: Monstera Deliciosa.

Skrímslið lætur fara vel um sig

Planta? Á ég að fara að hugsa um lifandi plöntu? Mínar plöntur hafa hingað til verið ódauðlegar og hafa fengist í Ikea. Ég get mun frekar haldið barni á lífi heldur en plöntu skal ég ykkur segja. En einu sinni verður allt fyrst. Ég er nefnilega á góðri leið með að fara að drepa mína fyrstu plöntu. Morðið verður framið um hábjartan dag að öllum líkindum og verður fyrir allra augum.

Plantan heitir á íslensku ,,Rifblaðka“ þar sem að blöðin rifna smátt og smátt

En til þess að sýna smá viðleitni þá fór ég að googla hvernig í ósköpunum ætti að sjá um þessa framandi lífveru sem hefur gert sig heimakomna á borðstofuborðinu mínu. Mér til mikillar ánægju er aðalatriðið að hugsa lítið og illa um þessa plöntu. Moldin á helst að vera uppþornuð þegar menn taka sig til og vökva hana. Hún vill ekki sólarljós heldur leitar í skugga og að öllum líkindum mun hún breiða úr sér eins og skrímsli ef hún er vanrækt almennilega. Þetta gæti bara ekki hljómað betur.

Til þess að vökva plöntubarnið þurfti ég að sjálfsögðu að fjárfesta í lekkeri vatnskönnu í Ikea:

Garðkannan fæst HÉR

Snapchat: annyr

Instagram: annayrmakeupartist

Þangað til næst,

 

Anna Ýr

Anna Ýr Gísladóttir er förðunarfræðingur, móðir og stjúpmamma, fagurkeri, heklari og föndrari ásamt mörgu öðru! Þú finnur Önnu á Instagram undir @annayrgisla