Við eigum öll þessa vinkonu sem skilur ekki gerviaugnhár, fær flog ef hún sér Ísíó4 matarolíu í eldhúsinu og borðar chia graut á hverjum morgni. Ég á að minnsta kosti nokkrar þannig og hef alltaf jafn gaman af þessum hundakúnstum. Ég reyni yfirleitt að herma eftir þeim blind af aðdáun en það tekst bara í nokkra daga svo er ég aftur komin í ólifnaðinn, búin að draga fram baneitrað Ariel þvottaefnið á ný, gamla góða Kötlusaltið er grafið upp því bannsett sjávarsaltið er svo dýrt og bragðlaust og svo er avókadóið óþroskað í ofanálag. Ég legg ekki meira á mig.

Æskuvinkona mín til margra ára er algjör heilsumúffa og hefur alltaf verið óhrædd að stefna vinskap okkar í hættu með því að gefa mér heimatilbúnar jólagjafir. Í eitt sinn ákvað ég að búa til gjöf handa henni í staðinn þar sem hún virtist aðhyllast slíkar gjafir. Ég fór lengst út fyrir þægindarammann og bjó til heimatilbúinn kaffiskrúbb og færði henni í afmælisgjöf. Ég hef sjaldan séð hana jafn ánægða með nokkurn hlut. Um jólin gaf ég henni svo heimatilbúið kerti, aftur var hún himinlifandi. Ég hafði fundið leiðina að hjarta hennar. En nú þarf ég sífellt að finna upp á nýju dóti til að búa til handa henni, ætli það endi ekki með því að ég gefi henni „Sock bunny“ sem gerði garðinn frægann í Friends þegar ég verð uppiskroppa með hugmyndir.

Mynd fengin af Twitter

 

HEIMAGERÐ JÓLAGJÖF

Ég er með eina hugmynd í pokahorninu sem mig langar að deila með ykkur: Heimagerðar bómullarskífur! Það er víst óumhverfisvænt að vera sífellt að nota einnota bómullarskífur og henda þeim í ruslið, með þessu móti er hægt að nota sömu skífurnar aftur og aftur við andlitshreinsun og vernda umhverfið í leiðinni. Ég er ekki frá því að þetta sé fullkomin gjöf fyrir heilsulögguna.

Mynd fengin af Pinterest

ÞAÐ SEM ÞIÐ ÞURFIÐ

Að kunna að hekla eða að læra að hekla

Bómullargarn (mæli með Rúmfó fyrir hagstæð verð)

Heklunál, skæri og stór frágangsnál

Ílát undir bómullarskífurnar svo þetta verði framreitt á lekkeran hátt

YOUTUBE KEMUR TIL BJARGAR

Ef þið kunnið að hekla þá er þetta eitt það auðveldasta sem þið gætuð búið til og alls ekki vitlaust byrjendaverkefni. Ég set inn eitt Youtube video sem þið getið kíkt á annars er aragrúi af mismunandi vidjóum sem hægt er að velja úr. Svo er líka hægt að Googla: „Crochet Face Scrubbies“ og hægt að fá fríar uppskriftir á textaformi.

BÓMULLARSKÍFUR MEÐ HANDFANGI

Það getur komið vel út að gera líka handfang á skífurnar eins og sést hér:

Mynd: Pinterest

Þessar bláu eru aðeins grófari og gætu verið notaðar sem andlitsskrúbbur. Svo er alltaf gaman að láta ilmkjarnaolíur fylgja með í pakkanum, eða kókosolíu til dæmis.

Mynd: Pinterest

Gaman er að gefa bómullarskífurnar í fallegri krukku, ef þið náið ekki að fylla krukkuna af skífum þá er alltaf hægt að setja uppfyllingarefni eins og þurrskraut eða gerviblóm til dæmis.

Mynd: Pinterest

 

Anna Ýr

Anna Ýr Gísladóttir er förðunarfræðingur, móðir og stjúpmamma, fagurkeri, heklari og föndrari ásamt mörgu öðru! Þú finnur Önnu á Instagram undir @annayrgisla

Deila
Fyrri greinBEDROOM.HAIR
Næsta greinBRIOGEO & NOLA PARTÝ