Tilhugsunin um að geta nýtt gömlu vögguna mína fyrir barnið okkar er bæði rómantísk og nostalgísk í senn og ég er þakklát mömmu fyrir að hafa geymt hana í öll þessi ár. Þessi huggulega tilfinning sem kemur yfir mann þegar gamlir hlutir eru dregnir fram sem voru partur af barnæskunni er ólýsanleg. Barnæskan er eitt það dýrmætasta sem við upplifum og ættum öll að fá að njóta þó vissulega sé það ekki upplifun allra.

VAGGAN 1986

Vaggan mín er 31 árs gömul og hefur gengið á milli manna í ættinni. Hún var orðin svolítið veðruð eftir öll þessi ár svo ég og Nathan ákváðum að taka hana í gegn. Vaggan var upprunalega hvít og úr bambus.

Ég í vöggunni árið 1986

VAGGAN UPPGERÐ

Það sést kannski ekki vel en við skiptum um hjól undir vöggunni. Hjólin fengum við í verkfæralagernum á mjög sanngjörnu verði.

Við fórum í Slippfélagið til að kaupa málningu og heitir liturinn  “Sjúklegur” sem er einstaklega viðeigandi eða hitt þó heldur. Við fórum um það bil 3-4 umferðir til þess að ná góðri þekju. Málningin var mjög fljót að þorna sem var mikill kostur þar sem eldhúsborðið var hertekið undir iðnaðinn.

Ég lét gera nýja dýnu eftir máli hjá Vouge fyrir heimilið og var sú dýna miklu veglegri en sú sem var fyrir, þykkari og mýkri. Ég hef ekki fundið hið fullkomna lak utan um hana ennþá þar sem hún er í óvanalegum stærðarhlutföllum en hef látið þessi úr Ikea og Rúmfatalagernum duga.

Rimlahlífin sem fylgdi vöggunni var svo yfirþyrmandi að ekkert sást í vögguna lengur svo við keyptum rimlahlíf í Fífa frá BabyDan. Fæst HÉR.

Himnasængin og standurinn fyrir hana er einnig frá BabyDan og fæst í Fífa HÉR.

RÚMFÖT & SKRAUT

Bangsann fékk ég að gjöf frá vinkonu minni og ég var svo ánægð með hann að ég ákvað að kaupa sænguver í stíl við bangsann. Hönnunin heitir Fabelab og fæst til dæmis hjá sirkusshop.is. Rúmfötin eru úr 100% lífrænni bómull.

Blómin eru úr Ikea. Ég afhausaði þau greyin til að fela götin sem eru fyrir stangir sem við gátum ekki notað.

Það eina sem vantar á vögguna núna er órói. Hann finnst vonandi fyrir jól.

Færslan er ekki kostuð

Anna Ýr

Anna Ýr Gísladóttir er förðunarfræðingur, móðir og stjúpmamma, fagurkeri, heklari og föndrari ásamt mörgu öðru! Þú finnur Önnu á Instagram undir @annayrgisla