Þegar að von er á barni er tími til kominn að færa fórnir. Nýlegasta fórnarathöfnin fól það í sér að losa sig við altarið (snyrtiborðið mitt) og búa til skiptiaðstöðu og skiptiborð.

Þetta var mjög STÓR ákvörðun sem kostaði langan umhugsunarfrest. En eins og alltaf kennir neyðin naktri konu að spinna og ég sá engan annan möguleika í stöðunni þar sem að íbúðin okkar er ekki stór í sniðum. Ég á svolítið erfitt með mig því fullkomnunaráráttan minnir mig stöðugt á að skiptiaðstaðan er alls ekki tilbúin en mig langaði að sýna ykkur hvað ég hef verið að möndla við síðustu tvær vikurnar. Ég sýni ykkur svo afraksturinn aftur þegar komin er lokaniðurstaða í málið.

Skiptiaðstaðan

Allar hillur voru til staðar svo ég þurfti að vinna mig í kringum þær, ég ætla að leyfa þessum litlu hillum vinstra megin að vera tómar eins og stendur þangað til ég útvega þeim æðra hlutverk. Bleiki bjarminn aftan við skiptiborðið er ljósalengja úr Ikea. Það er hægt að velja um nokkra liti. Ég ætlaði að velja hvíta en þegar ég vissi að hægt var að kjósa bleikt ljós þá gat ég ekki setið á mér.

Hillurnar, skiptiborðið og mottan fást í IKEA.

Skiptiborð: SUNDVIK

Myndahillur: MOSSLANDA

Vegghillur: LACK

Ljósalengja: LEDBERG

Motta: RARING

Þegar að barnið kemur þá er auðvitað ekki hægt að raða einhverjum gersemum upp á skiptiborðið svo þetta verður svona þangað til.

Þessar sætu taukörfur fást í Húsgagnaheimilinu. Ég geymi barnahandklæði í þeim núna en reikna með því að þær verði notaðar undir bleyjur seinna meir.

Taukörfur: Husgogn.is

Ég hélt að Nathan (maðurinn minn) yrði ekki eldri þegar ég krafðist þess að skipt yrði um höldur á Ikea skiptiborðinu. Ég rakst á þessar dúllumúffur í The Pier og mér finnst þær gera alveg ótrúlega mikið. The Pier

Ég elska elska elska flokkunarkassana úr IKEA. Þeir gera lífið svo miklu auðveldara! Þetta eru fötin sem ég hef sankað að mér í stærð 50-56, einhver hárbönd, Fabelab bangsi og hreinlætisvörur. Eins og þið sjáið þá eru þetta ekki margar flíkur, það er víst ekki hægt að senda barninu skilaboð á messenger og fá að vita í hvaða stærð það ætlar að fæðast, hvort það gæti hugsað sér að vera í minnstu stærðinni eða hvort við ætlum bara að vera svolítið ríkuleg í mörkum og demba okkur beint í stærð 62.

Ikea kassar: SVIRA

Neðri skúffan inniheldur prjónafatnað og föt í stærðum 62, skiptilök á skiptidýnuna og taubleyjur. Taubleyjurnar eru ótrúlega ódýrar í Ikea og koma tvær í pakka. Við keyptum líka skiptidýnuna og skiptilökin í Ikea á mjög hagstæðu verði.

Skiptidýna: VADRA

Áklæði á skiptidýnu: VADRA

Taubleyjur: HIMMELSK

Aukahlutir og punt

Nauðsynlegt var að finna lampa sem var krúttulegur að mínu mati. Nathan var orðinn mátulega gráhærður en tókst að sýna stillingu þegar búið var að keyra á milli 7 verslana til að finna „krúttulegan“ lampa. Hann lét sig hverfa tímabundið í Byko þegar ég nappaði síðasta ljósbleika skerminum af sýningareintakinu. Honum fannst ekki huggulegt að möndla við sýningareintak án aðstoðar. Kalla átti til starfsmann eins og siðmenntað fólk gerir.

Lampi: Fæst í Byko án skerms

Kertastjaki: SKURAR

Ég pantaði þessi blautþurrkubox af Hjal.is. Ég á enn eftir að prufukeyra þau með blautþurrkum. Þetta stærra á að vera við skiptiborðið en minna er til þess að hafa í skiptitöskunni.

Funkybox: hjal.is

Þessa fallegu dagbók barnsins fékk ég í afmælisgjöf. Hún er mjög vegleg og falleg og gaman að hafa hana uppi við sem punt.

Fyrsta bók barnsins: petit.is

Barnið getur ómögulega látið skipta á sér án þess að hafa gylltan ananas og blómapott sér nær. Þetta prjál fær að fjúka annað þegar við erum komin á fullt í bleyjuskiptunum. Ananasinn er úr Tiger.

Blómapottur: PAPAJA

Blóm: IKEA

Kertadiskur: SKURAR

Matthilda (stjúpdóttir mín) fékk þennan sprota í skírnargjöf. Bókin er úr Ikea og blómavasinn úr Söstrene Grene.

Myndir af Matthildu. Litla myndin var tekin ein jólin þar sem prinsessan sýndi leikræna tilburði. Stærri myndina tók pabbi hennar. Ég elska myndina af henni í baðinu, hún er alveg eins og engill. Til stendur að ramma inn einhverjar sónarmyndir og bumbumyndir og bæta í safnið.

Myndarammar: SÖNDRUM

Vinkona mín gerði þessa mynd handa Matthildu og gaf okkur í jólagjöf í fyrra sem ég held mikið upp á. Ég vona að ég geti fengið hana til að gera aðra fyrir krílið síðar.

Fiðrildin eru pakkaskreyting úr Ikea sem endaði einhvern veginn upp á vegg.

Færslan er ekki kostuð.

Anna Ýr

Anna Ýr Gísladóttir er förðunarfræðingur, móðir og stjúpmamma, fagurkeri, heklari og föndrari ásamt mörgu öðru! Þú finnur Önnu á Instagram undir @annayrgisla