Færslan er ekki kostuð

Eins og hefur áður komið fram þá hrífst ég af bleika litnum. Mér finnst gulllitað og rósagyllt einnig passa einstaklega vel með bleikum.

Ég hef meira gaman af hlutum sem einhver hefur gefið mér frekar heldur en hlutum sem ég versla mér sjálf. Þá þykir mér vænna um þá og þeir minna mig á manneskjuna sem gaf mér gjöfina.

Úrið fékk ég í konudagsgjöf frá manninum mínum. Hann hafði tekið eftir því fyrir löngu síðan að ég var hrifin af þessu úri. Honum tókst aldeilis að koma mér á óvart. Úrið er frá Line the Fine og fæst HÉR.

Ég á þó nokkra skartgripi frá Sif Jakobs. Mér finnst hönnunin fínleg og stílhrein. Hringinn fékk ég einnig frá manninum mínum á fyrstu jólunum okkar saman. Það eru fáir hlutir sem mér þykir jafn vænt um og þennan hring. Sif Jakobs skartgripirnir fást meðal annars í Leonard Kringlunni.

Sólgleraugun keypti ég þegar ég var í Arizona í H&M. Ég auðvitað gat ekki staðist þau því þau eru rósagyllt.

Ananasblæti

Hverjum hefði svo dottið í hug að þetta væri setning sem ég myndi láta út úr mér: „Mig langar í gylltan ananas.“ Mig hefur langað í slíkan grip frá því að leiðir okkar lágu saman í Hrím. Ég hef ítrekað reynt að tala mig ofan af þessari þráhyggju en hefur ekki orðið ágengt. Svo í einum af mínum rannsóknarleiðöngrum í Smáralind rakst ég á þessa líka fínu eftirhermu í Flying Tiger of Copenhagen. Eins og gefur að skilja þá elti hann mig heim.

Ég get alls ekki gengið fram hjá Söstrene Grene án þess að taka einn hring. Mér finnst þessi verslun svo krúttleg og ég kem stundum út með poka fullan af dóti sem ég tel mér trú um að ég þarfnist. Síðast þegar ég fór þangað var komin ný sending af glósubókum. Mögulega þyrfti ég að glósa eitthvað niður í nánustu framtíð. Þá er nú eins gott að eiga lager af glósubókum í viðbragðsstöðu.

Ég viðurkenni það. Ég keypti annan ananas í Tiger. Eins og þið sjáið þá er þessi allt öðruvísi en hinn. Sem er það sem ég segi sjálfri mér daglega.

Myndina í bakgrunninum fékk ég í afmælisgjöf frá virkilega góðri vinkonu. Hún passar einstaklega vel hérna hjá hjá okkur í Garðabænum. Við erum í það minnsta ekki í vandræðum ef við gleymum hvar við búum. Veggspjaldið fæst HÉR.

Bókin og koparklemman er úr Söstrene Grene.

Hauskúpur & Kvóts

Við skötuhjúin eigum okkur sameiginlegt áhugamál en það er að sanka að okkur alls kyns hauskúpum. Þessa fundum við á bensínstöð á leið okkar til Grand Canyon.

KVÓTS dagatalið fékk ég í Rökkurrós fyrir síðustu jól. Auðvelt er að losa það í sundur og ramma inn málshættina ef maður vill eiga þá áfram. Uppáhalds málshátturinn minn úr dagatalinu er: „LÍFIÐ HEFUR ENGA FJARSTÝRINGU, STATTU UPP OG BREYTTU ÞVÍ SJÁLFUR.“ Ég hef enn ekki gefið upp alla von um að finna þessa dularfullu fjarstýringu.

Fullkomnir kaffibollar

Ég er alveg ferlega léleg kaffidrykkjumanneskja. Ég fæ mér yfirleitt fullan bolla og tek síðan bara 2-3 sopa. Stærðin á þessum litlu fallegu bollum er þess vegna fullkomin fyrir mig. Hönnunin er frá DAY Home og þeir fengust í Heimahúsinu. Mér finnst allt frá DAY Home svo fallegt og mæli með því að þið skoðið þessa línu.

Ég gaf Nathani þessa forlátu koparhauskúpu í bóndadagsgjöf. Flestum fyndist þessi gjöf vera heldur óhugnaleg og allt annað en rómantísk en hún vakti sem betur fer mikla lukku hjá manninum mínum.

Bækurnar eru úr Söstrene Grene.     

Við hjónaleysin fjárfestum í þessu glópagulli í ofboðslega fallegri húsgagnaverslun í Arizona. Ef þið eruð á leið til Bandaríkjanna þá mæli ég með því að þið kíkið inn í Z Gallerie. Mig langaði að sóa aleigunni þar en hafði sem betur fer vott af sjálfsstjórn.

Ég vildi að öll mín eldhúsáhöld væru gyllt eða koparlituð. Ég er ekki svo heppin en við eigum nokkra fjársjóði í eldhúsinu. Meðal annars þessa salatskeið sem ég fékk í Hrím. Ég að vísu borða aldrei salat en hverjum er ekki sama um það, skeiðin er falleg fyrir því. Tilgangurinn helgar alls ekki meðalið í þessu tilfelli.

Þið getið fundið mig á

Snapchat:annyr

Instagram: Anna Yr Makeup Artist

Anna Ýr

Anna Ýr Gísladóttir er förðunarfræðingur, móðir og stjúpmamma, fagurkeri, heklari og föndrari ásamt mörgu öðru! Þú finnur Önnu á Instagram undir @annayrgisla