SANTORINI 2014

Santorini á alveg sérstakan stað í hjartanu mínu. Við Bjarki áttum yndislega daga á eyjunni og hefði ég ekkert á móti því að fara þangað aftur. Bjarki var að fara á ráðstefnu í Aþenu og við gripum tækifærið og lengdum ferðina um nokkra daga og fórum til Santorini áður en ráðstefnan var. Þessi eyja er eitthvað alveg útaf fyrir sig og það tekur ekki nema 20 mínútur að keyra frá einum enda eyjarinnar til hins næsta en hún er eins og U í laginu.

KALESTESIA SUITES

Hótelið eða öllu heldur íbúðin sem við vorum í var frábær! Það eru ekki nema sex eða átta íbúðir í heildina, en íbúðirnar eru með stofu, svefnherbergi, baðherbergi og litlu eldhúsi. Það er veitingastaður á staðnum og vandræðarlegt að segja það, en okkur fannst maturinn þar langt bestur af öllum stöðunum á eyjunni. Morgunamaturinn var frábær, en á hverjum morgni komu þau með bakka með allskonar gómsæti og settu upp fyrir utan íbúðina okkar, þar sátum við og drukkum nýkreystan appelsínu safa, gríska jógúrt, ávexti og drukkum kaffi og nutum útsýnisins. Hótelið er á öðrum enda eyjunnar en aðal bærinn Oia er hinumegin á eyjunni og það tók okkur ekki 15 mínútur að keyra þangað. Það er ekki mikið í kringum hótelið en það kostaði litlar sjö þúsund krónur að leigja bílaleigu bíl í fimm daga og vorum við mjög dugleg að keyra um eyjuna og skoða okkur um.

Sundlaugarsvæðið var algjör draumur út af fyrir sig, en þar sem við fórum í september þá var alltaf smá sjávargola sem var mjög kærkominn í þessum hita. Starfsfólkið kom líka reglulega með ferska ávexti í boði húsins, en vegna þess hve fáar íbúðir eru á þessu hóteli þá fékk maður alveg að vera i friði en ég held að við höfum tvisvar til þrisvar sinnum verið á sama tíma og einhver annar við sundlaugina.

RED BEACH

Við kíktum líka niður á strönd eða þetta er sum sé ekki alveg eins og maður hefði ímyndað sér þessar týpísku eyjur, en sandurinn á Santorini er mest allur svartur vegna eldgosins. Við kíktu á Red Beach (þaðan er einmitt myndin af hurðunum fyrir ofan). þaðan var verið að bjóða upp á bátsferðir yfir á white beach, black beach og fleiri strandir. En við létum red beach nægja og enduðum reyndar á því að ramba á black beach seinasta kvöldið okkar þar sem við vorum á rúntinum um eyjuna og ákváðum að beygja til vinstri en ekki hægri eins og við gerðum alltaf á leiðinni heim. Já eins lítil og þessi eyja er þá kemur hún á óvart og við skoðuðum t.d mjög lítið það svæði eyjunnar sem er í kringum flugvöllinn.

Við fórum í eina köfun á meðan við vorum þar sem var töluvert öðruvísi upplifinu frá fyrri köfunum. Við köfuðum upp við eyjuna þar sem við syntum upp að veggjum hennar, sem er allt öðruvísi upplifun en í öðrum köfunum þá höfum við siglt eitthvað út í buskan og kafað þar. Því var þetta ,,landslag“ allt öðruvís, sjáum líka einhver sjávardýr sem höfðu ekki sést í mörg ár á þessu svæði. Hafið er svo magnað, ég get ekki lýst öfund minni á ferðinni sem Kata fór í til Maldavis eyja – hvílíkur draumur! Ef þið eruð ekki búin að lesa færsluna hennar þá mæli ég með að þið kíkjið á hana hér.


Einn daginn þá förum við aftur til Santorini og þá væri ég alveg til að skoða hinar eyjarnar í kring eins og Mikanos og fleiri eyjar. Flugið þangað var heldur ekki mjög dýrt og hótelið var hlægilega ódýrt! Við flugum aftur til Aþenu og vorum þar í nokkra daga, en ég hefði miklu frekar viljað vera á Santorini allan tímann. En það var mjög gaman að sjá rústirnar í Aþenu, ég kannski hendi í litla færslu með myndum þaðan við tækifæri. Aþena er fínn staður til að milllenda, eyða kannski einum til tveimur dögum þar og halda svo áfram til Santorini.

Jónína Sigrún

Jónína er 28 ára og stundar nám í sálfræði við Háskólan í Reykjavík. Hún elskar að upplifa heiminn og reynir að nýta hver tækifæri sem hún getur til að ferðast. Þar nær hún að sameina áhuga sinn á fólki, mat, tísku, hita og sól. Þegar hún er ekki að láta sig dreyma um sól og sumar er hún önnum kafin við að sinna námi og fjölskyldu, en hún býr í Hafnarfirði ásamt manninum sínum, börnum og kisum. Þú finnur Jónínu á Instagram undir @joninasigrun.