WHAT HAPPENS IN VEGAS, STAYS IN VEGAS

Við Bjarki fórum í fyrsta skiptið til Kaliforníu 2014, stóran part úr ferðinni vorum við í Los Angeles, en við keyrðum líka upp til San Francisco og Las Vegas. Vegas er aðeins í fjögurra tíma akstri frá Los Angeles. Hingað ætla ég klárlega aftur, en í næsta skipti held ég að mig langi frekar að fara í stelpuferð – Bjarki er ekki mikill djammari svo við vorum frekar róleg þessa tvo daga sem við vorum þarna, en ég væri alveg til í að fá að upplifa hina hliðina!

GISTING

Við bókuðum hótelið með tveggja daga fyrirvara, en hótel í Vegas eru mjög ódýr því þeir búast við að ná peningunum af þér í spilavítunum. Fyrir vikið fengum við geggjaða svítu á The Venetian á aðeins tuttugu þúsund krónur fyrir tvær nætur! Þegar við komum á hótelið fengum við gefins miða fyrir fríum morgunmat upp á herbergið báða dagana. Úti aðstaðan hjá þeim er mjög þæginleg, en hitinn í Vegas getur verið óbærilegur og því er mjög þæginlegt að geta slappað af í sundlauginni þann tíma sem maður hættir sér út á daginn.

Hótelið sjálf er risastórt og hálfgert völundarhús. En það er eins konar verslunargata ef svo má kalla inni á hótelinu; þar er gondólar á vatni sem hægt er að sigla í og það er búið að mála þakið þannig að það líkist himni. Og ég man að ég hélt fyrst að við værum úti þegar við vorum að labba þarna, tilfinninign var alveg eins og við værum úti! Þarna eru líka góðir veitingastaðar og eiginlega allt til alls; spilavíti, fatabúðir og kaffihús!

Annars mæli ég með að skoða á hotels.com og booking.com, þar finnur maður oft góða díla.

MATUR

BEAUTY & ESSEX við fórum á þennan veitingarstað í New York fyrir nokkrum árum, en það er einn í Las Vegas og annar í Los Angeles. Það sem er öðruvísi við þennan veitingastað er að hann er falinn. Fronturinn á veitingastaðnum er s.s. veðbúð. Þannig ef þú veist ekki af honum, þá eru engar líkur á því að þú sért óvart að fara að labba inn á hann.

CINNABON nei sko, ég er forfallinn aðdáandi Cinnabon! En Cinnabon eru heimsins bestu kanilsnúðar, það er meira að segja hægt að kaupa bara miðjuna – BARA miðjuna! Þegar við vorum að rölta um Strippið rak ég augun í skiltið og þá var ekki aftur snúið, ég án djóks þefaði staðinn uppi, hann var inn á einhverju hóteli á Strippinu. Ég var vandræðalega spennt!

Annars eru eflaust fullt af veitingastöðum þarna, við vorum bara ekki búin að kynna okkur þá, en næst verð ég búin að tékka á þessu.

HVAÐ Á AÐ GERA?

Það er algjört möst að fara á sýningu eða tónleika þegar maður fer til Vegas! Við fórum á Ka sýninguna hjá Circus De Soleil – ekkert smá flott sýning. En það er alltaf eitthvað um að vera í Vegas svo ég held að maður ætti ekki í erfiðleikum með að finna sér eitthvað að sjá. Annars er hægt að kíkja inn á Las Vegas Weekly til að sjá hvaða tónleikar og sýningar eru í boði.

The Strip sem er aðal gatan í Vegas er eitthvað sem maður verður skoða, hún verður allt önnur um leið og það byrjar að dimma og iðar öll að lífi þangað til sólin kemur aftur upp. Gosbrunna sýningin fyrir framan Bellagio hótelið er eitthvað sem allir þurfa að sjá einu sinni, kemur á óvart. Það sem mér fannst hvað skemmtilegast í þessari ferð var þegar við fórum að skjóta en við fengum að skjóta úr allskonar byssum. Svo er auðvitað alltaf hægt að gleyma sér í spilavítunum (munið af hafa passann ykkar með ykkur!) eða skella sér í sundlaugarpartý á einhverju af hótelunum.

Þar sem ferðin okkar var ákveðin með mjög litlum fyrirvara vorum við ekki búin að kynna okkur Vegas nógu vel, en hér fyrir neðan eru nokkrir hlutir sem ég hefði verið til í tékka á, en geri það kannski bara næst þegar ég fer til Vegas!

SUNBUGGY hér er hægt að leigja bæði fjórhjól og buggy bíla og bruna um eyðimörkina. Þau eru líka með Go-Kart braut.

SLOTZILLA eitthvað fyrir þá sem eru ekki lofthræddir! Húsið er eins og risastór spilakassi og þaðan getur valið á milli þess að fara á zipline yfir Freemont Street, eða fara ennþá hærra eða upp á 10.hæð og farið í zoomline í superman stellingu!

NEON MUSEUM hingað langar mig að fara! Þetta er safn með öllum gömlu neon skiltunum sem hafa verið uppi í Vegas í gegnum árin. Held að það sé ótrúlega gaman að rölta þarna um.

HIGH ROLLER er risastórt parísarhjól á Strippinu, þar er mjög gott útsýni yfir The Strip og örugglega mjög flott að kvöldi til.

Ein ábending, ég mæli ekki með að fara í ágúst, það er bara of heitt! Við vorum þarna í byrjun ágúst og það var um 40° og það lækkaði kannski niður í 30° á kvöldin – enda í miðri eyðimörk! Því vorum við hlaupandi milli hótela á daginn til að komast í loftkælingu og lærðum það fljótt að halda okkur í sundlauguinni – þangað til við vorum orðin vel rauð.

VEGAS, I´LL BE BACK!

Jónína Sigrún

Jónína er 28 ára og stundar nám í sálfræði við Háskólan í Reykjavík. Hún elskar að upplifa heiminn og reynir að nýta hver tækifæri sem hún getur til að ferðast. Þar nær hún að sameina áhuga sinn á fólki, mat, tísku, hita og sól. Þegar hún er ekki að láta sig dreyma um sól og sumar er hún önnum kafin við að sinna námi og fjölskyldu, en hún býr í Hafnarfirði ásamt manninum sínum, börnum og kisum. Þú finnur Jónínu á Instagram undir @joninasigrun.