Á milli jól og nýars festum við kærasti minn kaup á okkar fyrstu íbúð. Við vorum búin að velta því fyrir okkur í nokkra mánuði að taka skrefið og skoða fasteignamarkaðinn sem við gerðum. Eftir að hafa skoðað í nokkrar vikur allar gerðir af íbúðum og fasteignum út um allt höfuðborgarsvæðið vorum við komin með ákveðna hugmynd af því hvernig íbúð við vildum kaupa. Síðan gerðist það að rétt fyrir áramót gerðum við okkar fyrsta tilboð og var það samþykkt! Við erum að flytja í Hlíðarnar í yndislega íbúð sem við fáum afhenta í mars. Spenningurinn er enn þá meiri eftir að hafa verið á leigumarkaði í mörg því það er ákveðið afrek að eignast loksins okkar fyrstu eign!

Það má segja að það hafi alltaf verið ákveðinn draumur hjá mér að gera upp eldri íbúð og er það rætast. Svo núna fara öll kvöld í hugmyndavinnu og undirbúning. Árið 2018 verður framkvæmdar árið mikla því við ætlum að gera íbúðina upp og gera hana alveg að okkar. Erum farin á fullt að skoða allskonar hugmyndir og er Pinterest besti vinur minn í dag.

GÓLEFNIÐ

Við ætlum að skipta um gólefni og er hugmyndin að flota gólfið eða leggja harðparket. Ég var alveg harðákveðin að flota gólfið þegar ég myndi kaupa íbúð. En í dag er ég ekki viss, það er eitthvað kuldalegt við flotað gólf en samt svo flott. Já þetta er erfitt val. Kærasti minn vill ekki sjá flotað gólf svo ég held að harðparket verði fyrir valinu. Fórum að skoða um daginn úrvalið og það eru til svo mörg ótrúlega flott harðparket á markaðinum í dag.

Flotað gólf
Parket

ELDHÚSIÐ

Mesti tíminn fer í að áætla hvernig eldhúsið á að vera, því það er svona dæmigert gamalt eldhús sem er stúkað af. Okkur langar að fá meira flæði á milli eldhús og stofu en það er burðarveggur á milli svo það er ekki hægt að brjóta hann allan í burtu. En við erum að skoða þetta með Reykjavíkurborg um hvernig við ætlum að gera þetta og fáum þá leyfi hjá byggingarfræðingi og arkitekt til að fara í framkvæmdir. Það er allavega eitt ákveðið og það er að það verður brotið gat á þennan blessaða vegg en hvar það verður og hvernig er enn þá óákveðið. En okkur dreymir um gott eldhús og er planið að ganga í þær framkvæmdir á árinu. Ég hugsa að ég vilji hafa eldhús innréttingarnar hvítar og hafa eldhúsið frekar bjart en með einhverju svörtu ívafi. Hef alltaf verið frekar skotin í svörtum eldhúsveggjum.

LITAVALIÐ

Er svo spennt að fá íbúðina afhenta til að geta hafist handa sem fyrst. Síðan er auðvitað að huga að öðru og það er málning og litavalið á veggina. Á meðan við vorum í leiguhúsnæði vildum við ekkert mála eða breyta neinu. En núna verður sagan önnur hvort sem það verður allt bleikt, svart, blátt, grænt, grátt.. eða allt hvítt. Það verður málað.

Framundan bíður okkar spennandi og stórt verkefni og mun það taka sinn tíma. Ég mun að sjálfsögðu leyfa ykkur að fylgjast með framgangi mála hér á blogginu og á snappinu mínu gudbjorgliljag þegar nær dregur.

Þið getið fylgst með mér á Instagram @gudbjorglilja og á Snapchat undir nafninu gudbjorgliljag

 

Guðbjörg Lilja

Guðbjörg Lilja Gylfadóttir er 29 ára ný útskrifuð með BSc í sálfræði. Hún er mikil áhugamanneskja um tísku, hönnun, ljósmyndun og ferðalög. Guðbjörg er einnig matgæðingur og elskar að elda góðan mat, drekka kokteila og unir sér best í góðra vina hópi. Hún skrifar um allt sem vekur áhuga hennar og það sem henni þykir skemmtilegt og veitir innblástur.
Netfang: gudbjorglilja@gmail.com.