Himinn og geimur hafa alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér en þau eru stórkostlegt leyndarmál.

Að horfa upp í himininn, sjá tunglið okkar og endalaust af blikkandi stjörnum lætur mig oft hugsa hvað við erum lítil.
Ég rakst á þessa fallegu hönnun, Stóra Lúna, á Facebook og langaði mig ekkert meira en að fá tunglið beint inn í stofu til mín.

Linda Guðrún Karlsdóttir er hönnuðurinn á bak við Stóra Lúna og tók ég viðtal við hana.

Hvenær og hvernig varð Stóra Lúna til?

Stóra Lúna er komin til vegna mjög eftirminnilegs draums sem mig dreymdi fyrir rúmlega tveimur árum þegar ég var að takast á við óvænt veikindi. Í honum birtust mér allar plánetur sólkerfisins, hver á fætur annarri og snerust löturhægt fyrir framan mig svo ég missti ekki af einu einasta smáatriði. Þær tóku mig svo með sér og ég fékk að snúast með þeim um himingeimin og upplifa „stóra samhengið.“ Það var ótrúlega mögnuð tilfinning og hjálpaði mér á vissan hátt að ná áttum eftir áfallið sem fylgdi því að veikjast.

Eftir þetta kviknaði svo einlægur áhugi á þessum fjarlægu fyrirbærum og ég byrjaði að svipast um eftir fallegri mynd af plánetu til að hengja upp heima. Þegar ég fann ekkert sem höfðaði sérstaklega til mín ákvað ég að hanna og láta sérútbúa mynd, alveg eins og ég hafði séð hana fyrir mér: Stóra, hringlótta og „díteilaða“, eins og pláneturnar höfðu birst mér í draumnum.

Ég var mjög sátt með útkomuna og fékk jákvæð viðbrögð frá ýmsum sem sáu myndina heima. Nokkru seinna fór ég því að velta fyrir mér hvort ég ætti að fara með þetta eitthvað lengra. Ég ákvað að prófa og athuga hvert það mundi leiða mig.

Hvaðan kemur nafnið?

Stóra Lúna er partur úr anagrami sem vinkona mín, Margrét Bjarnadóttir, bjó til úr nafninu mínu þegar ég varð þrítug. Hún hafði fundið minn „kjarna“ með því að endurraða stöfunum í nafninu mínu, Linda Guðrún Karlsdóttir og úr varð: Stóra Lúna Tunglið Kriddr. Þegar ég fór að pæla í nafni á hönnunina fimm árum seinna kom þetta strax upp í hugann og það kom aldrei neitt annað nafn til greina.

Koma fleiri plánetur?

Það er planið. Langar líka að bæta við framandi tunglum. Ég stefni á nýja mynd á næsta ári.

___________________________________________

Hægt er að fá Tunglið, Jörðina, Mars og Plútó og koma allar myndirnar í tveimur stærðum.

Ég er komin með stærri gerðina af Tunglinu upp í stofu hjá mér. Linda benti mér á að það væri sérstaklega fallegt að hafa ljós við myndina eða láta kastara lýsa á hana. Bæði sést hún betur og þannig myndast líka fallegur skuggi sem gefur myndinni skemmtilega dýpt og skapar vissa þrívíddartilfinningu.

Tunglin og pláneturnar koma fallega innpakkaðar og þegar pakkinn er opnaður er þar umslag með texta sem útskýrir hvar, hvenær og hvernig ljósmyndin af hnettinum sem þú ert með í höndunum var tekin og unnin.

Ef þið eruð að leita að útskriftar-, jóla- eða afmælisgjöf þá er þetta einstök og falleg gjöf til þess að gefa.

Hægt að hafa samband og fá nánari upplýsingar á Facebook síðu Stóru Lúnu

 

Katrín Sif

Katrín Sif er hárgreiðslukona og einn af eigendum Sprey Hárstofu. Jákvæðni lýsir henni best og hún hefur áhuga á öllu sem tengist hári og tísku. Snap: spreyharstofa