Þessi ferð var bókuð með mikilli hvatvísi og með aðeins tveggja vikna fyrirvara. Það voru engin plön hjá okkur Bjarka um að fara út í sumar þar sem við Jenný erum að fara í stelpu ferð í ágúst og strákarnir báðir búnir að fara erlendis núna í sumar. En ég slæ ekki höndinni upp á móti góðu verði og var ekki lengi að spyrja yfirmanninn minn hvort ég mætti taka frí þenna föstudaginn því ég hafði fundið svo ódýrt flug. Áður en ég vissi af var ég komin með frí á föstudeginum og á leiðinni til Amsterdam tveimur vikum síðar!

HVERNIG Á AÐ KOMAST ÞANGAÐ?

Ég fann ódýrt og þægilegt flug hjá WOW, en það fór klukkan sex um morguninn á föstudegi og vorum við því lent um hádegi í Amsterdam. Flugið heim á sunnudeginum fór síðan ekki fyrr en klukkan níu um kvöldið svo við gátum nýtt allan sunnudaginn. Annars flýgur Icelandair líka til Amsterdam, en ég mæli með að skoða Dohop og Kiwi til þess að finna ódýr flug.

HVAR Á MAÐUR AÐ GISTA?

Við vorum mjög heppin en vinkona mín býr í 10 mínútna hljólafæri frá miðbæ Amsterdam. Ég var búin að kíkja á hótel en með svona stuttum fyrirvara og um helgi þá voru verðin ansi há. En eftir að hafa farið til Amsterdam og áttað mig á hvað það er stutt að hjóla á milli staða þá mundi ég segja að það skipti ekki öllu máli að vera í miðbænum.

HVAR Á AÐ BORÐA?

Venjulega er ég búin að ligga yfir Tripadvisor til að skoða hvar er best að borða en þar sem þessi ferð var plönuð með stuttum fyrirvara var orðið of seint að panta borð á mörgum af flottustu veitingastöðunum. Amsterdam hefur sko upp á nóg að bjóða þegar kemur að góðum mat og bara með því að renna í gegnum Tripadvisor varð valið orðið erfitt, en þarna eru þó nokkrir Mitchelin veitingastaðir. Næst ætla ég því að reyna hafa aðeins meiri fyrirvara og ná að panta borð á allavegna einum af þeim.

En Amsterdam má líka alveg eiga það að það er ódýrt að fara út að borða og því gaman að leyfa sér að fara á einhverja af flottustu veitingastöðunum sem borgin hefur upp á að bjóða. Annars klikkar „street food“ maturinn aldrei og vorum við dugleg að grípa okkur eitthvað á leiðinni, en þessir tveir staðir stóðu upp úr í þessari ferð.
Amsterdam (Oud-Zuid) // DignitaDignita Vondelpark
Koninginneweg 218h & Dignita Hoftuin:  Nieuwe Herengracht 18A

Ég elska brunch og hef nú prófað þó nokkra staði og þessi er klárlega í topp þremur! Hér er allt ferskt og gert á staðnum,. Við fengum nýkreystan appelsínu safa með matnum og frábært kaffi. Og ekki nóg með það heldur er brunch í boði, allan daginn!

BAK
Van Diemenstraat 408

Það er ákveðin upplifun að fara á þennan stað. Hann er á frekar afskekktum stað og þú þarft að hringja dyrabjöllu og láta hleypa þér inn. Þar labbar þú inn í gamla vöruskemmu og ferð upp á þriðju hæð. Þar tekur á móti þér þetta æðislega útsýni yfir borgina og vorum við svo heppinn að fá borð við gluggann. Hér er fyrirfram ákveðinn matseðill sem samanstendur af sex réttum sem kokkarnir hafa ákveðið þann daginn og er matseðilinn því aldrei eins. Okkar matseðililll var mjög áhugaverður en þar var allskonar í boði.

Ég er þó persónulega ekki mjög hrifin af grænmeti og fannst matseðilinn þennan daginn samnstanda af of miklu grænmeti fyrir minn smekk. Ég myndi gjarnann vilja prófa að fara aftur ef það væri meira kjöt í boði því allt þetta grænmeti sendi mann ekki beint pakksaddan heim. En ég mæli alveg hiklaust með staðnum, alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt. Allt þar er fengið beint frá býli og er maturinn ótrúlega fallega framreiddur.

HVAÐ ER HÆGT AÐ GERA?

Það er nóg um að vera í Amsterdam og er um að gera að vera smá skipulagður ef maður hefur stuttan tíma. Besta leiðin til að sjá Amsterdam er að leigja sér hjól sem er án efa auðveldasti ferða mátinn. Við leigðum hjól yfir helgina og það kom á óvart hvað var auðvelt að rata þarna. Við hjóluðum í gegnum Vondelpark á hverjum degi og þaðan niður í Rauða hverfið. Þar læstum við hjólunum og röltum síðan um miðbæinn.

SÖFNIN

Við vorum ákveðin í því að fara á Body Works safnið og Sex Museum. Aldrei hef ég verið fyrir jafn miklum vonbrigðum og þegar við fórum á Sex Museum! Ég veit ekki hverju ég bjóst við, en það var allavegna ekki þetta. Ég held að ég hefði betur bara kíkt á „peep show“ og labbað út sátt. En þetta safn er samansafn af myndum, styttym og málverkum þar sem fólk er í kynferðislegum athöfnum í gegnum aldirnar og ekkert meira! Næst skelli ég mér frekar á peep show í Rauða hverfinu.

Body Works
Þetta safn stóðst allar væntingar og meira en það! Ótrúlegt að skoða líkamann á þennan hátt og þegar við fórum var verkefnið “Happiness Project” í gangi, en þar var verið að sýna hvernig hamingja hefur áhirf á líkamann. Fólk hefur í gegnum árin gefið líkamann sinn til styrktar þessa verkefnis og eru þetta sum sé alvöru líkamar og líffæri sem eru til sýnis sem er alveg magnað! En engan veginn ógeðslegt á neinn hátt og ég held að fæstir átti sig á því að þetta séu raunverulegir líkamar.
Bátsferð

Það sem stóð uppúr ferðinni hjá mér var laugardagurinn, en þá leigðum við bát og sigldum um Amsterdam. Það var búið að benda mér á að fara í bátsferð, en ég hafði voða lítinn áhuga á því að sitja í einhverjum túristabát ásamt fullt af öðru fólki. Við leigðum bát í fjóra tíma, eitthvað sem ég hélt að væri alltof langt en það var þægilega langur tími til að slappa af og njóta útsýnisins. Skemmtilegt sjónarhorn sem maður fær að sjá þegar maður siglir um sýkin; allir húsbátarnir og svo auðvitað húsin! Þau eru allskonar í laginu, bæði skökk og halla fram.

En við leigðum bát í gegnum www.boats4rent.nl, kannski ekki flottustu bátarnir, en þetta voru einu bátarnir sem voru lausir með svona stuttum fyrirvara. En fyrir vikið voru þeir líka ódýrari en hinir bátarnir.

Ég er ekki mikið fyrir að skoða söfn og við nenntum heldur ekki að bíða í eilífri röð fyrir utan Önnu Frank og Van Gogh safnið. En það er sko sannarlega nóg að skoða í Amsterdam og get ég eginlega ekki beðið þangað til að fara aftur og skoða enn meira og prófa enn fleiri veitingastaði.

BÚÐIR

Það kom mér heldur betur á óvart hvað er hægt að versla þarna. Við kíktum aðeins á sunnudeginum niður í miðbæ og þar náði ég að hoppa inn um nokkrar búðir. Þeir eru með allar þekktu búðirnar eins og Zöru, Urban Outfitters, & Other Stories og enn fleiri litlar skemmtilegar „vintage“ búðir. Þar var til dæmis hægt að fá vintage Louis Vuitton ferða koffortin og Chanel veski, svo eitthvað sé nefnt.

Amsterdam náði alveg að heilla mig upp úr skónum og ég bíð spennt eftir næstu ferð, sem vonandi verður fyrr en seinna.

Jónína Sigrún

Jónína er 28 ára og stundar nám í sálfræði við Háskólan í Reykjavík. Hún elskar að upplifa heiminn og reynir að nýta hver tækifæri sem hún getur til að ferðast. Þar nær hún að sameina áhuga sinn á fólki, mat, tísku, hita og sól. Þegar hún er ekki að láta sig dreyma um sól og sumar er hún önnum kafin við að sinna námi og fjölskyldu, en hún býr í Hafnarfirði ásamt manninum sínum, börnum og kisum. Þú finnur Jónínu á Instagram undir @joninasigrun.