Núna þegar jólin eru að nálgast fara kannski einhverjir að pæla í bakstrinum. Það er yfirleitt mamma sem sér um jólabaksturinn hjá okkur en þar sem hún er flutt til Ísafjarðar og verður ekki í Reykjavík hjá okkur um jólin þá verður maður að redda sér sjálfur og baka, sem ætti ekki að vera mikið mál.

Mynd: Unsplash.com

Mamma hefur bakað þessa köku í mörg ár og minnir að hún hafi fundið hana í kökubók Hagkaups fyrir mörgum árum og langar mig að deila þessari dúndrandi uppskrift með ykkur. 

Botn:
200 gr. sykur
4 egg
200 gr. suðursúkkulaði
200 gr. smjör
1 dl. hveiti (má sleppa)

Aðferð:
Ofninn er hitaður í 180°C með blæstri. Bræða saman smjör og súkkulaði við vægan hita. Sykurinn og eggin þeytt vel saman þangað til blandan er létt og ljós, hveitinu síðan blandað saman við. Þeir sem vilja kökuna extra blauta geta sleppt hveitinu. Súkkulaðiblöndunni er varlega bætt saman við í lokin. Smyrja bökunarformið vel eða setja bökunarpappír í botninn. Kakan bökuð í 30 mínútur.

Kremið:
150 gr. suðursúkkulaði.
75 gr. smjör.
2-3 tsk sýróp.

Allt brætt saman við vægan hita. Kælt örlítið og sett síðan yfir kökuna. Skreytið kökuna gjarnan með ferskum berjum og bera má fram strax. Kakan er einnig mjög góð köld, að mínu mati er hún lang best volg og með ís og mæli ég með Toblerone heimatilbúnum ís og finnið uppskriftina hér.

Ása Bergmann

Ása Bergmann er 30 ára Verslunarhönnuður (Retail Designer) sem býr í Herning í Danmörku. Hún er í sambúð með Dananum/Færeyingnum Nicklas, syni hans Emil og hundinum Flóka. Helstu áhugamál hennar tengjast hönnun og eru það aðallega Verslunar-, Innanhús- & Grafísk Hönnun. Að auki hefur hún áhuga á ferðalögum, tísku, útiveru og bakstri.

Instagram @asabergmanndesign & @asabergmann_
www.asabergmanndesign.com