Ég læt ekki oft hendur standa fram úr ermum í eldhúsinu. Ég ákvað samt að vera með örlítinn myndarskap fyrir skírnina hennar Magdalenu Kristínar og bjó til Rice Krispies kransaköku. Ég hefði betur látið það ógert því þetta var algjört vesen! En barnið fær nú bara einu sinni nafn á ævinni svo það er eins gott að leggja sitt af mörkum.

UPPSKRIFT

Uppskriftina fann ég á gotteri.is:

1000 gr hjúpsúkkulaði

2 litlar dósir sýróp (Lyle’s golden syrup)

300 gr smjör

540 gr Rice Krispies

 

Formin fékk ég lánuð hjá mömmu. En þau fást á ýmsum stöðum sem selja bökunarvörur.

Mynd: www.kop-kande.dk

FRAMKVÆMD

Ég byrjaði á því að hita súkkulaðið, sýrópið og smjörið saman í mjög stórum potti. Síðan bætti ég Rice Krispies út í og blandaði því varlega saman við. Leyfði þessu aðeins að kólna. Á hverju formi eru 3 kransar. Til þess að varna því að kransarnir klessist saman þarf fyrst að gera ysta og innsta kransinn, leyfa því að harðna, fjarlægja úr forminu og svo er hægt að gera miðjukransinn. Ég setti formin í Ikea zip lock poka inn í frysti á meðan kransarnir voru að harðna. Ég tók mér alveg tvær kvöldstundir í þetta föndur enda enginn asi því Rice Krispies geymist vel í frysti. Ég geymdi alla kransana í frysti fram að veisludegi og raðaði þeim svo saman um morguninn. Á þessum tímapunkti var ég mjög fegin að hafa gert sykurfiðrildi því þetta leit út eins og myndarlegur stafli af kúamykju. Já, ég er ekki jafn pen og ég lít út fyrir að vera.

SYKURSKRAUT

Sykurmassafiðrildin gerði ég kvöldinu áður en ég hefði þurft að gera þau fyrr því það tekur sykurmassa töluverðan tíma að harðna. Ég keypti bleikan og hvítan tilbúinn sykurmassa, stimpla og kökuglimmer í versluninni Allt í köku.

Mynd: www.cakewarehouse.co.nz

Ég notaði bökunarmottu úr Ikea og dreifði smávegis af kartöflumjöli yfir til þess að þurrka sykurmassann örlítið. Síðan flatti ég massann út með kökukefli. Þá gat ég byrjað að stimpla og búa til fiðrildi. Þetta er í raun og veru alveg eins og myndakökugerð fyrir utan bökunina. Ég braut síðan saman þykk blöð og þurrkaði fiðrildin á þeim. Það er hægt að fjárfesta í sérstökum svampi til þess að þurrka sykurmassa en ég lét blöðin duga í þetta sinn.

Mynd: Blomsterkager.dk

Daginn eftir penslaði ég kökuglimmeri yfir fiðrildin með þurrum bursta. Síðan bræddi ég smávegis suðusúkkulaði og festi fiðrildin þannig á kransakökuna. Ég hef alveg fengið betri hugmyndir en að ráðast í að skreyta rice krispies köku með sykurmassafiðrildum því það er enginn sléttur flötur á slíkri köku og það var mjög erfitt að festa fiðrildin á en þolinmæði þrautir vinnur allar.

Ef þið hafið rúman undirbúningstíma og finnst gaman að föndra þá mæli ég með þessu. Annars finnst mér alltaf sniðugast að njóta þess að vera til og kaupa tilbúna köku út í búð. En það er kannski bara ég.

Kveðja,

Anna eldabuska

 

 

Anna Ýr

Anna Ýr Gísladóttir er förðunarfræðingur, móðir og stjúpmamma, fagurkeri, heklari og föndrari ásamt mörgu öðru! Þú finnur Önnu á Instagram undir @annayrgisla