grilled guacamole

Ég er búin að vera með löngun í guacomole í allan dag og varð því fyrir miklum vonbrigðum þegar ég kíkti í Hagkaup í kvöld að öll avocadoin voru hörð og því ekki hægt að gera guacomole. Ég læri þó sjaldnast af reynslunni og kaupi ekki óþroskuð avocado til að láta þau þroskast, heldur sleppi ég þessu bara öllu saman. Ég er allt eða ekkert týpan sjáið þið til.

Mér datt þó í hug að deila með ykkur uppskriftinni sem ég nota alltaf þegar ég bý til guacomole. Á mínu heimili þá borðum við taco alla vega einu sinni í viku og með því fylgir alltaf ferskt guacamole. Svo finnst mér mjög gott að nota afgangs guacomole á hrökkbrauð eða jafnvel ristað brauð, en þar erum við komin út í aðeins meiri máltíð. En hér er uppskriftin, þetta er ,,dass“ uppskrift og því lítið mál að gera stóran eða lítinn skammt.

Guacomole uppskrift

2-3 avocado
2 stórir tómatar
1 rauðlaukur
pipar
hvítlaukssalt
cayenne pipar
papriku krydd

Ég byrja fyrst á því að stappa saman avocadoið og krydda. Ég set mest af pipar og hvítlaukssalti og svona sirka jafn mikið af cayenne og papriku kryddi. Því næst sker ég tómatana í tvennt og skef allt innan úr þeim. Sker þá síðan í litla teninga og blanda við avocado maukið. Rauðlaukinn sker ég í frekar litla bita og nota ekki alltaf allan laukinn. En það gæti verið mögulega verið vegna þess að ég er ekkert alltof hrifin af lauk en hef nú verið dugleg við auka við hann í gegnum árin. Svo er öllu blandað saman; lauknum, tómötunum, maukinu og voíla: Tilbúið! Mér finnst best að borða guacamole með taco eða til dæmis með söltum tortilla flögum og ferskri salsa.

Jónína Sigrún

Jónína er 28 ára og stundar nám í sálfræði við Háskólan í Reykjavík. Hún elskar að upplifa heiminn og reynir að nýta hver tækifæri sem hún getur til að ferðast. Þar nær hún að sameina áhuga sinn á fólki, mat, tísku, hita og sól. Þegar hún er ekki að láta sig dreyma um sól og sumar er hún önnum kafin við að sinna námi og fjölskyldu, en hún býr í Hafnarfirði ásamt manninum sínum, börnum og kisum. Þú finnur Jónínu á Instagram undir @joninasigrun.