Ég kaupi mikið af bönunum enda eru þeir hollir og góðir en ég lendi stundum í því að þeir séu orðnir of þroskaðir. Þá er best að nota þá í staðin fyrir að henda þeim. Bæði er hægt að skera þá niður og setja í frysti og svo eru þeir fullkomnir í boostið eða til að baka úr þeim.

Ég bakaði þessar girnilegu og hollukökur um daginn.

Innihaldsefni:

2 vel þroskaðir bananar
1 1/2 bolli hafrar
1/2 bolli hnetusmjör (notaði Whole Earth – crunchy organic, fæst í Krónunni)
1/4 bolli rúsínur
1 tsk kanill

Aðferð:

Bananarnir stappaðir vel saman í skál. Höfrunum bætt út í og blandað vel saman við bananana. Hnetusmjörið kemur næst og svo rúsinur og kanil. Allt blandað vel saman.

Smjörpappír settur á ofnfat og deginu skipt niður og raðað á. Mér finnst fínt að hafa þetta á við munnbita á stærð. Svo er allt sett inn í ofn og leyft að bakast í 10-15 mínútur á 180° eða þar til kökurnar eru orðnar gylltar að lit.

Auðvelt og svo gott á bragðið! Sniðugt fyrir afmæli, kaffiboð, brönsinn eða til að setja í sætar krukkur og gefa að gjöf. Svo er líka bara hægt að borða þrjár eða fjórar í morgunmat.

Katrín Sif

Katrín Sif er hárgreiðslukona og einn af eigendum Sprey Hárstofu. Jákvæðni lýsir henni best og hún hefur áhuga á öllu sem tengist hári og tísku. Snap: spreyharstofa