Færslan er ekki kostuð

Lena Rut vinkona mín er algjörlega ómentanlegur hluti af mínu lífi. Hún er ótrúlega hæfileikarík og það er alveg sama hvað hún tekur sér fyrir hendur, hún gerir allt vel. Fer í skóla og dúxar, breytir heima hjá sér og það gæti átt heima í fallegu tímariti, hannar skartgripi og smíðar og gerir það fullkomið. Hún auðvitað dúxaði í gullsmíðinni en þegar kemur að eldhúsinu getum við sagt að hún á sín móment og dúxar þar annað slagið þó þetta sé ekki uppáhalds staðurinn hennar í veröldinni. Það komst til dæmis ein uppskrift frá henni í bókina mína en svo kom reyndar svo í ljós að þetta var ekki einu sinni uppskrift frá henni. En hey, það er öllum sama nema Hödda manninum hennar sem gerði víst þessa uppskrift.

Ég ætla að deila með ykkur annari uppskrift í dag frá henni. Ég veit ekki hvort hún sé upprunalega frá henni frekar en hin en hún er algjör snilld. Einföld og bilaðslega góð eins og fyrri uppskriftin sem komst í bókina mína. Ef ég væri að gefa út aðra bók núna kæmist þessi klárlega í hana og væri skrifuð frá Lenu Rut eins og hin uppskriftin sem komst í bókina.

Við fórum til Lenu og Hödda í brunch sem væri ekki í frásögur færandi nema fyrir það að hún búin að setja í nokkrar litlar skálar gríska jógúrt með ávöxtum ofan á. Ég laðaðist strax að þessu þó ég hefði líka verið með glútenfríar lummur fyrir framan mig og endaði ég á að borða þrjár litlar skálar af þessu þar sem þetta var svo gott. Jebb ég kann mig ekki þegar mér finnst eitthvað rosalega gott, það fer ekki fram hjá neinum. Auðvitað var ég löngu orðin södd en þetta er svo hættulega gott að það hreinlega er ekki hægt að standast mátið þegar þetta er fyrir framan mann.

Það sem þarf í uppskriftina er (passar fyrir 4)
1 stór dós vanilluskyr
1 stór dós grísk jógúrt
1-2 msk hunang (ég valdi lífrænt, reyna að vera holl þið skiljið)
1 msk vanillusýróp frá Nicolas Vahé
2-3 gerðir af uppáhalds ávöxtunum þínum
Lemon Curd frá Nocolas Vahé

Ég var nú reyndar ekkert alveg með hlutföllin á hreinu en þetta heppnaðist mjög vel hjá okkur og allir glaðir með millimálið sitt þennan daginn. „Mamma þú ert besti kokkur í heimi, ég elska hvað þú ert flink…“ sagði 6 ára molinn minn sem kann sko að meta hæfileika móðurinnar í eldhúsinu þegar það sem er í matinn er nánast tilbúið beint af beljunni. Ef ég legg mig alla fram í að gera til dæmis allt frá grunni þá er hann ekki eins hrifin svo ég veit ekki hversu góð meðmæli þetta eru… en þið prufið allavega kannski og látið mig svo vita.

Blandið öllu saman nema Lemon Curd-inu og ávöxtunum. Hrærið vel og setjið svo í fallegar skálar eða ljótar, þið ráðið. Skerið niður ykkar uppáhalds ávexti og dreyfið þeim yfir. Það sem er töfra töfra við þessa uppskrift er Lemon Curd-ið, það er eiginlega svona „secret ingredient“.

Toppaðu gúrme millimálið þitt með einni tsk af Lemon Curd og þú ert komin með fullkomið millimál.

Nicolas Vahé keypti ég í FAKÓ húsgögn.

Þórunn Eva er þekktust fyrir bókina Glútenfrítt Líf. Hún er gift, tveggja barna móðir og fagurkeri, en hún flytur einnig inn hinar vinsælu Lulu’s snyrtitöskur.