Ég hef mikið verið að leggja mig fram við að finna eitthvað sem er gott, hollt og passar inn í hitaeiningamarkmiðin mín (macros) fyrir daginn eftir að ég byrjaði aftur í fjarþjálfun hjá Alpha Girls. Eins og ég sagði frá eftir áramót þá er markmiðið að losa mig við nokkur kíló og verða heilbrigðari bæði andlega og líkamlega. Til þess þarf auðvitað að undirbúa máltíðir dagsins og mér finnst alveg nauðsynlegt að eiga eitthvað gott til að grípa í þegar ég hef ekki tíma til þess að elda.

Vinkona mín og stelpa sem er með mér í prógrammi hún Íris Harpa, benti mér nýlega á þessa dásemdar uppskrift af kotasælubollum! Þær eru með fáum innihaldsefnum og ótrúlega einfaldar í gerð. Svo skemmir ekki að þær eru ótrúlega bragðgóðar og passa í raun með hvaða áleggi sem er, eða einar og sér. Svo er hægt að útfæra uppskriftina eftir sínum smekk eins og ég gerði með því að bæta fjölkornablöndu út í deigið. Mér finnst bragðið af fræjunum og þá sérstaklega kúmen fræjin gefa bollunum skemmtilegan keim.

Það sem þú þarft:

200 g kotasæla

200 g haframjöl

2 egg

1 msk lyftiduft

Smá salt

Fjölkornablanda (eða hvað sem er)

Myljið haframjölið í blandara. Blandið öllum hráefnum saman í skál og gerið bollur (stærð eftir smekk) úr deiginu. Bakið við 200° í 20-25 mínútur. Það er einnig hægt að sleppa fræjunum í deigið og setja þau ofan á bollurnar, eða blanda hverju sem þið viljið út í!

Mér finnst bollurnar himneskar með smá smjöri, osti eða sykurlausri sultu, en svo eru þær ekkert síðri eintómar.

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig flugfreyja, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta og hundamamma.

Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is