Ég hef áður greint frá því á Snapchat hjá okkur (pigment.is) að mér finnist lang skemmtilegast að baka smákökur (og allt annað) frá grunni. Ég veit ekki hvað það er, það væri auðveldara að fara í búð og kaupa tilbúnar kökur eða deigblöndu, en það er svo góð tilfinning að baka til dæmis sömu smákökuuppskriftir á jólunum og voru bakaðar heima. Þær uppskriftir sem mamma og amma bökuðu eftir þegar ég var lítil hafa líka verið í fjölskyldunni í áratugi, ef ekki lengur.

Þó ég spili nú ekki öllum trompum út og deili öllum mínum uppskriftum með alþjóð, langaði mig þó að deila þessari með ykkur. Þessar tilteknu smákökur hafa verið mitt uppáhald síðan ég man eftir mér og mér hefur alltaf þótt þær ómissandi á jólunum.

Við höfum alltaf kallað þær „englatoppa,“ en það væri sennilega hægt að kalla þær kókostoppa eða kókosbita líka. Bragðsins svipað dálítið til Bounty súkkulaðisins sem er einnig eitt af mínum uppáhalds. Uppskriftin er einnig lygilega einföld og einungis örfá skref.

Uppskrift

4 eggjahvítur

200 g sykur

200 g kókosmjöl

100 g brytjað suðusúkkulaði

Byrjið á því að stífþeyta eggjahvítur og sykur saman þar til blandan er orðin snjóhvít og stíf (eins og ekta marensblanda). Blandið kókosmjöli og heimabrytjuðum súkkulaðibitum (mjög mikilvægt, annað telst til lögbrots) varlega saman við og setjið á plötu með teskeiðum. Bakið við 150° í 10 mínútur.

image

image

Njótið með dýrindis kaffi og jólatónlist!

Plantan á myndinni er úr Blómaval – Krúsirnar eru úr Söstrene Grene/IKEA – Krítarlímmiðarnir fást HÉR á Twins.is

gunnhildurbirna-1

Endilega líkið við Facebook síðu okkar HÉR – Einnig erum við á Snapchat undir nafninu Pigment.is

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig flugfreyja, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta og hundamamma.

Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is