Ég er lengi búin að vera á leiðinni að prufa að gera þessa uppskrift en einhverra hluta vegna hef ég bara ekki þorað. Nú er hinsvegar kominn sá tími að mig langar að reyna að hafa meiri hollustu á heimilinu og tími hreinlega ekki að hætta að baka. Ekki misskilja, við erum nú frekar holl svona á heildina litið en ég elska að baka. Við borðum stundum snemma kvöldmatinn og þurfa strákarnir mínir þá oft að fá eitthvað smá áður en þeir fara að sofa. Þessi kaka er fullkomin fyrir það.

Ég man eftir því þegar ég var lítil og var í sveit á sumrin, þá fengum við alltaf kvöldkaffi. Það var skúffukaka, pönnsur og margt í þeim dúr sem boðið var uppá áður en við fórum inn að sofa. Ég sakna þessa tíma, það var eitthvað svo kósý að setjast öll saman í smá stund áður en við fórum að sofa.

pigmentkaka1

Núna get ég klárlega leyft mér að hafa köku í kvöldkaffi því ég prufaði loks að búa til sætu kartöflu brownie sem ég breytti í skúffuköku. Ég sagði strákunum ekki hvað var í henni því þeir borða sko ekki sæta kartöflu og annar þeirra hreinlega kúgast þegar hann reynir.

Viti menn, þeir elskuðu þetta og voru svo glaðir að fá skúffuköku fyrir svefninn. Þegar ég svo sagði þeim hvað var í skúffukökunni kom smá svekkelsis svipur á þann eldri en það fór fljótt af honum og fékk hann sér meira.

Ég skora á ykkur að prufa. Holl og góð skúffukaka sem hægt er að gefa krílunum í kvöldkaffi á virku skólakvöldi. Hljómar dásamlega vel svona þar sem haustið er að skella á og kertakósý er að detta inn.

Skúffukakan er ótrúlega mjúk og ekki í eitt augnablik sem maður finnur sætu kartöflu bragð.

pigmentkaka2

 

Allt sem þú þarft í kökuna:

 • 1 sæt kartafla
 • 3 egg
 • 1/2 bolli kókosmjólk
 • 1/2 bolli hunang
 • 1 tsk matarsódi
 • 1 bolli dökkir súkkulaði dropar
 • 1/2 tsk salt (gróft)
 • 3/4 bolli glútenfrí hveitiblanda (ég nótaði gróft kökumix frá TORO)
 • 1 1/2 tsp vanillu dropar
 • 1/3 bolli kókos olía
 • 2/3 bolli kakó, ég notaði frá Sollu
 • smá kókosmjöl til að strá yfir kökuna

Þú byrjar á því að baka sætu kartöfluna heila í 45 mín inní ofni á ca 180°.
Þegar kartaflan er tilbúin setur þú hana ásamt hunangi, vanilludropum, kókosolíu og eggjum í matvinnsluvél og hefur í gangi þar til blandan er orðin silkimjúk.

Í aðra skál er gott að setja hveitiblönduna, saltið, kakóið og matarsódan og blanda vel saman á meðan matvinnsluvélin er í gangi. Þurrefnunum helliru svo í matvinnsluvélina og blandar áfram þar til orðið silkimjúkt. Hellir í mót og bakar í ca 15 mínútur eða þegar þú stingur í hana þá festist ekkert á pinnanum.

Kremið: Ef þú verður pirruð þegar þú sérð að það tekur 45 mínútur að græja það þá hefur þú lært að þú átt alltaf að lesa yfir uppskriftina áður en þú byrjar ;)Ég gleymi því alltaf og virðist ekki læra af því. Þess vegna er snilld að byrja á því um leið og þú skellir kökunni í ofninn.

Allavega, kremið er mjög auðvelt. Þú hellir súkkulaði dropunum í skál og notar helmingin af magninu sem þú átt að nota af kókosmjólkinni strax og hellir yfir dropana. Inn í örbylgjuofn í ca 45 sekúndur og hrærir svo vel saman kókosmjólkinni og súkkulaðinu. Helltu restinni af kókosmjólkinni út í og hrærðu betur. Svo kælirðu þetta í ca 45 mínútur og hellir yfir kökuna.

Þú skerð kökuna í litla sæta bita, hellir kókosmjöli yfir og þú ert komin með holla og ótrúlega bragðgóða skúffuköku.

P.S: Ég elska venjulega ekki hollustukökur því þær eru hreinlega bara oft mjög vondar. Þessi er það ekki – LOFA.

Ef þú ert í nammi stuði geturðu gert glassúr í staðin og hrært kakó og flórsykur saman og bætt við smá heitu vatni. Þá ertu komin með æðislega holla köku með smá óhollustu „fusion-i“ :)

Njótið í botn.

Þórunn Eva – Glútenfrítt Líf

Facebook – Glútenfrítt Líf
Instagram – @glutenfrittlif
Snapchat – glutenfrittlif
Blogg – Glutenfrittlif.blogspot.is

Þórunn Eva er þekktust fyrir bókina Glútenfrítt Líf. Hún er gift, tveggja barna móðir og fagurkeri, en hún flytur einnig inn hinar vinsælu Lulu’s snyrtitöskur.