Gleðilegt nýtt ár kæru Pigment lesendur!

Ég hef ekki mikið verið að skrifa inn árið 2017 og eru margar ástæður fyrir því. Ég ætla mér hinsvegar að minna svolítið á mig núna 2018 og koma inn með allskonar færslur handa ykkur.

Ég hef verið svolítið föst í glútenfría stílnum og elska ég það, hins vegar get ég margt fleira en það. Ég er svona týpa sem þarf alltaf að vera að gera allskonar og er mjög dugleg að finna mér verkefni þegar ég þarf hvað síst á þeim að halda. En ég er með nokkur skemmtileg verkefni sem mig langar að sýna ykkur en fyrst ætla ég að segja ykkur aðeins hvað ég er að „brasa“ núna.

Sykurlaus janúar og vonandi til frambúðar, af hverju?

Ég og maðurinn minn eigum tvo yndislega gullmola sem eru með meðfædda genagreindan ónæmisgalla og sækja þeir lyfjagjafir á Barnaspítala Hringsins. Annar á þriggja vikna fresti og hinn á fjögurra vikna fresti. Ég hef alltaf verið að reyna að fara að ráðum þeirra í kringum mig að tala nú ekki um þetta allt svona út um allt að ég eigi veik börn og hvað þá á netinu. En ég er að fatta núna meðan ég skrifa þetta  hér að af hverju má ég það ekki? Þetta er stærsti parturinn af lífi mínu og við lifum lífinu að sjálfsögðu ekki þannig að við séum að ala upp sjúklinga heldur tvo alveg hreint magnaða einstaklinga sem eru svo margt annað en sjúkdómurinn þeirra. Hins vegar að ef við ætlum bara að tala um allt það góða, æðislega, frábæra, fullkomna í lífi okkar þá erum við ekki að sýna hver við erum í raun.

Fólk fær mismikið til þess að fást við

Erik Valur heldur að Eva Ruza sé frænka sín… það má <3

Jón Sverrir er magnaður karakter á svo margan hátt og Erik Valur líka. Þeir eru báðir að æfa badminton, þeir eru báðir þræl duglegir í skólanum og hef ég aldrei þurft að hafa áhyggjur af þeim eldri þar (yngri rétt að byrja í skóla) og ég hef ekkert að „kvarta“ hvað varðar þessa tvo eðal drengi sem okkur tókst að búa til og erum að ala upp. Algjörlega fullkomnir á sinn eigin hátt eins og við öll.

Það eru ekki allir eins og eftir því sem ég verð eldri (Eva Ruza, ég verð 35 þann 10. júlí) þá geri ég mér alltaf betur og betur grein fyrir því að það hafa allir sitt að díla við. Það hafa allir eitthvað að berjast við en svo er misjafnt hversu mikið við fáum hent í okkur. Sumir fá mikið og alltof mikið meðan aðrir sleppa nokkuð vel en enginn sleppur alveg. Það er bara þannig.

Jón Sverrir er einnig með húðsjúkdóm sem er verulega erfiður viðureignar og sprauta ég hann hér heima einu sinni í viku ásamt gjöfunum uppá spítala og svo eru það verkjalyf, kláðastillandi lyf sem hann þarf aukalega. Núna erum við til dmis að prófa að taka allan hvítan sykur út úr mataræðinu hans og ætlum við í fjölskyldunni að hjálpast að við þetta. Þetta „múv“ er alls ekki læknandi á neinn hátt en gæti hjálpað honum með verkina sem fylgja köstunum sem koma. Þessi ákvörðun var tekin á jóladag þegar við þurftum enn eina ferðina að kíkja með hann uppá Barnaspítala vegna þessara kasta. Einnig var ákvörðunin tekin með lækninum og hlökkum við mikið til að sjá hvernig þetta þróast og hugsa ég að við verðum að taka meira en einn mánuð í tékk til að sjá hvort þetta sé að hjálpa.

Þegar maður lifir með sjúkdóma sem eru komnir til að vera er hægt að finna allskonar leiðir til að hjálpa sér að koma sér í gegnum daginn og er þetta ein af mörgum sem við höfum reynt og erum nú að reyna. Svo við komum okkur nú að því sem ég ætlaði að sýna ykkur þá gaf Tobba Marinós út æðislega bók 2017 sem inniheldur æðislega uppskrift af sósu út á til dæmis AB mjólkina. Hún er mjög einföld með tveimur hráefnum og er þessi sósa í raun ástæða þess að ég skrifa allt hér á undan.

Betra fyrir alla


Vonandi með því að taka út sykur hjá okkur fjölskyldunni þá vonandi eignumst við heilbrigðara líf ekki bara fyrir Jón Sverrir heldur okkur öll.

Ég mallaði sósuna í gærkvöldi, setti í glerkrukku og krossaði svo putta að molarnir myndi elska þetta. AB-mjólk og sósan slógu rækilega í gegn og fékk ég ekki einu sinni að smakka. Ég fékk bara að heyra: „Mamma megum við plís klára hana plíííís..??“

Þeir kláruðu allt saman og er ég núna að búa til meira og prufa að gera úr fleiri ávöxtum en hindberjum. Ég sé fyrir mér að eiga nokkrar gerðir af sósum inní ísskáp sem þeir geta nælt sér í út á ab-mjólkina og hafragrautinn sem dæmi.

Uppskriftin hennar Tobbu hljómar svona:

250 gr frosin hindber
2 dl hreinn appelsínusafi

Berin og safinn eru sett saman í pott og látið malla við vægan hita í 30-40 mínútur. Þá er snilldin tilbúin.

Þórunn Eva er þekktust fyrir bókina Glútenfrítt Líf. Hún er gift, tveggja barna móðir og fagurkeri, en hún flytur einnig inn hinar vinsælu Lulu’s snyrtitöskur.