Jólin eru tími til að gleðjast. Þó er gott að hafa nokkur ráð bakvið eyrað til þess að passa upp á heilsuna um jólin. Mikilvægast er þó að njóta sín og hafa gaman.

1.Ekki kaupa óþarflega mikinn mat

Gott er að gera ráðstafanir yfir jólin og eru matarinnkaup eitthvað sem skal hafa í huga. Það sparar bæði álagið á veskið og umhverfið.

2. Líkaminn þarf sína hvíld

Hátíðarnar eru tími hvíldar og hamingju ekki streitu og stress. Frídagar yfir hátíðarnar eru eftirfarandi: Aðfangadagur (stórhátíðardagur) eftir kl:12:00, jóladagur (stórhátíðardagur), annar í jólum (almennur frídagur), gamlársdagur (stórhátíðardagur) eftir kl: 12:00 og nýársdagur (stórhátíðardagur). ATH á þessum dögum er ekki vinnuskylda.

3. Ekki gúffa sætindum í þig

Líkaminn verður ekki saddur af sætindum og þar af leiðandi er auðvelt að missa sig í átinu. Tennurnar og líkaminn munu þakka þér seinna. Það er alltaf betra að borða pínu hollt á undan sætindum. Þannig þarftu ekki að borða eins mikið af því óholla.

4. Það þarf ekki að baka fyrir allt mannkynið

Fólk á það til að missa sig í bakstrinum en það þarf ekki að baka allar sortir. Þá neyðist þú til að klára allt og borðar meira af sætindum. Veldu frekar þínar uppáhalds og njóttu þeirra vel.

5. Ekki leggjast í dvala yfir hátíðarnar

Fólk á það til að gleyma að hreyfa sig yfir hátíðarnar og leggjast í dvala í jólafríinu sínu. Hreyfing er hins vegar sjaldan mikilvægari en á þessum tíma vegna mikillar matarinntöku. Göngutúrar eru góð afþreying til að létta á sér eftir þungann jólamat. Heilsan fer ekki í jólafrí!

6. Slepptu snjalltækjunum

Lifðu í núinu ekki missa af jólunum sem koma aðeins einu sinni á ári. Þú getur verið í símanum alla aðra daga ársins. Fólk á það til að bera sig saman við aðra á samfélagsmiðlum og eru því ekki sáttir við sín jól. Vertu þakklát/ur fyrir það sem þú hefur því hugurinn gildir. Mikill símanotkun er að auki ekki góð fyrir heilsuna þína.

7. Drekktu vatn!

Það að drekka vatn er sérstaklega mikilvægt um jólin þar sem mikið er um saltann mat og sæta drykki. Með saltinu verður mikið vökvatap í líkamanum og þess vegna er mikilvægt að fylla á tankinn.

8. Mikilvægasta máltíð dagsins

Morgunmatur er alveg eins mikilvægur um jólin og á öðrum tíma árs. Mikilvægt er að taka nammi og önnur sætindi frá svo það sé ekki það fyrsta sem augað sér á morgnanna. Fólk á það til að borða það sem það kemur auga á fyrst. Ekki narta í sætindi gærdagsins.

9. Ekki missa þig í jólastressinu

Stress er ekki gott fyrir heilsuna og þótt mikið sé að gera um jólin er einnig mikilvægt að setjast niður og slaka á. Ekkert er leiðinlegra en að fara á taugum yfir hátíðarnar. Hátíðarnar eru til að njóta svo njóttu þeirra. Skipulag er góð leið til þess að minnka stress.

10. Ekki drekka í burtu jólin með áfengi!

Það er nóg álag á líkamanum eftir saltann jólamat. Ekki gera illt verra með óhóflegri  áfengisneyslu. Með mikilli áfengisneyslu eykst áreynslan á lifrina svo ekki missa þig í áfenginu. Munum að jólin eru hátíð barnanna. Þú vilt muna eftir jólunum!

11. Borðaðu reglulega

Mikið er um sætindi og annað slíkt yfir hátíðarnar og á blóðsykurinn það til að rjúka upp. Góður og hollur matur reglulega er þess vegna mikilvægur til þess að jafna út blóðsykurinn.

12. Ávextir í stað sætinda

Ekki hafa einungis sætindi við hendina. Hægt er að borða margt annað í staðinn. Mandarínur eru t.d  gott millimál sem getur vel komið í staðinn fyrir sætindi.

13. Dekraðu húðina
Með mikilli óhollustu birtast oft óboðnir gestir á húðinni. Það geta verið bólur eða annað slíkt og þess vegna er mikilvægt að gera vel við húðina.
14. Vítamín eru mikilvæg, líka um jólin!

Þó vítamín eigi það til að gleymast yfir hátíðarnar þá eru þau ekkert minna mikilvæg á þessum tíma heldur en öðrum tíma árs. D-vítamín er einstaklega mikilvægt þar sem sólarljós er af skornum skammti yfir veturinn.

15. Ekki vera of hörð/harður við sjálfa/n þig

Seinast en ekki síst er mikilvægast að hafa gaman og njóta sín um jólin. Ekki er þörf á því að tileinka sér alla punktana hér að ofan heldur er hægt að velja þá sem þér líst best á. Mundu bara að hafa gaman það má nú leyfa sér um jólin!

Eigið gleðileg og heilsusamleg jól!

Höfundar, nemendur í næringarfræði í FMOS
Alexandra Ivalu Einarsdóttir, Hekla Halldórsdóttir og Katla Halldórsdóttir

Alexandra Ivalu

Alexandra er 19 ára Mosfellingur og stundar nám við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ. Hún er hálf íslensk og hálf grænlensk en hefur búið alla sína ævi hérlendis. Áhugamál Alexöndru eru förðun, útivera, ljósmyndun og hundar. Þið getið fundið Alexöndru á Instagram undir @alexandraivalu.