Ég átti son minn þann 25.október 2016 og var það eins og gefur að skilja einn besti og versti dagur lífs míns. Meðgangan var mér erfið með tilheyrandi fylgikvillum sem settu strik í líkamlega heilsu mína. Ég bætti á mig þó nokkrum kílóum og hef mig alla við þessa dagana og vikurnar að koma mér á þann stað sem mig langar til að vera á.

Ég fékk fljótt myndarlega bumbu.-Boston, júní 2016/21vika.

Superform

Ég fór af stað að bæta líkamlega og jafnframt andlega heilsu sirka 7 mánuðum eftir barnsburð þegar ég skráði mig á í Superform sem kenndir eru í Sporthúsinu í Reykjanesbæ. Ég ákvað svo að skora rækilega á sjálfa mig þegar ég skráði mig svo í 12 vikna áskorun á vegum Superforms núna í byrjun janúar. Núna eru liðnar 8 vikur frá því að ég byrjaði og finn ég mikinn mun á mér.

Heilbrigð markmið

Mér finnst mjög mikilvægt að líta á svona áskoranir sem lífstílsbreytingu. Ég hef áður skorað á sjálfa mig og sett markið hátt. Leiðin sem ég hef oft valið mér að fara í átt að markmið mínu hefur verið öfgakennd þar sem enginn sveigjanleiki er í mataræðinu í bland við of margar klukkustundir sem eytt er í líkamsræktarsalnum. Þessi leið leiddi mig að markmiði mínu sem var oftast að missa x mikið af kílóum eða x margar fituprósentur. Það sem gerðist svo í kjölfarið var að ég fékk algjörlega nóg af líkamsrækt og hollu mataræði. Þetta gerði það að verkum að ég var alltaf á byrjunarreit en náði aldrei að breyta mínum lífstíl til hins betra. Ég tók meðvitaða ákvörðun í þessari áskorun að ég ætlaði að eiga heilbrigt samband við mat og hreyfingu ásamt því að setja mér heilbrigð markmið sem gera mig að betri mannesku fyrir vikið en ekki til þess að falla í einhver form sem samfélagið þrýstir að okkur. Eftir að ég fór af stað í þessa vegferð mína þá hef ég fundið mikinn mun á bæði líkamlegri og andlegri heilsu. Ég er vissulega búin að missa fituprósentu en sem meira er er að ég er að verða sterk bæði andlega og líkamlega. Ég er að finna minn lífstíl þar sem mér líður vel. Ég borða holla fæðu en fæ mér samt kleinuhring þegar mig langar. Ég hreyfi mig 5-6x í viku en tek mér auka hvíldardag þegar mig langar. En með góðri hreyfingu og hollu mataræði þá langar mig mun minna í óhollan mat og hlakka alltaf til að fara á æfingu.

6 vikur á milli mynda.

Með þessum pistli og reynslusögu vil ég miðla því til ykkar, kæru lesendur, sem eruð í lífstílsbreytingar hugleiðingum að huga vel að því hvað þið virkilega viljið fá út úr ykkar breytingu og hvernig lífi þið viljið lifa. Ég mæli með að setja ykkur raunhæf og uppbyggileg markmið sem þið getið svo byggt ofan á.

Lífstílsbreyting er langhlaup en ekki sprettur.

 

Karítas Heimis

Karitas Heimisdóttir er fyrst og fremst mamma, enda er sonur hennar líf hennar og yndi. Hún er 28 ára með Bs-gráðu í ferðamálafræðum og starfar sem verkefnastjóri hjá bílaleigunni Sixt á Keflavíkurflugvelli. Hún er búsett í Reykjanesbæ ásamt 16 mánaða gömlum syni sínum og kærasta. Hennar helstu áhugamál eru matur, tíska, ferðalög, uppeldi, fallegir hlutir, heilsa og allt það sem við kemur að rækta líkama og sál.
Karitas mun skrifa um allt á milli himins og jarðar en þá aðallega það sem vekur áhuga hennar og brennur á henni hverju sinni.

Instagram @kariheim

Snapchat: kariheim