Hindranir á meðgöngu

Á fyrstu tólf vikum meðgöngunnar var mér svo óglatt að ég gat ekki hugsað mér að mæta í ræktina. Ég var á þessum fyrstu vikum myntugræn í framan og gat naumast haldið haus. Ég gerði nokkrar tilraunir til þess að mæta í líkamsrækt en það endaði alltaf með ósköpum svo ég ákvað að setja kortið í salt í smá tíma á meðan ég næði mér aftur á strik. Svo komu þessar dásamlegu tvær vikur þar sem ég fylltist af orku, lífskrafti og gleði. Ég gat mætt í ræktina, var ekki þreytt og ógleðin farin. En stutt var gamanið því þá tók grindargliðnunin við á fjórtándu viku. Það er að vísu óeðlilega snemmt en stafar líklegast af því að ég er með vefjagigt og líkaminn minn var alls ekki í góðu ástandi áður en ég varð ófrísk.

Ég og maðurinn minn höfðum búið okkur undir að þetta yrði jafnvel ekki auðveld meðganga. Það hefur hjálpað mér að takast á við erfiðleikana og hindranirnar sem fylgja því að ganga með barn. Eflaust hugsa margir núna að ég hafi líklegast ákveðið það fyrirfram að meðgangan yrði mér erfið og þess vegna væri hún það, en þvert á móti var ég vongóð um að einkenni gigtarinnar yrðu betri á meðgöngunni. Örfá einkenni hafa batnað en flest öll hafa orðið verri en það er allt í lagi því barnið okkar er heilbrigt og sparkar í mig daglega mér til mikillar gleði.

Vefjagigt

Ég er afskaplega lítið gefin fyrir að ræða mín veikindi og mér finnst það beinlínis drepa niður alla stemningu, en það var ekki hjá því komist að minnast örlítið á þau í þessum pistli. Vefjagigtin er góður sjúkdómur að því leyti að hún neyðir mann beinlínis til þess að huga að hreyfingu. Bæði aðstoðar hreyfingin við líkamleg og andleg einkenni. Ef ég missi lengi úr hreyfingu þá er eins og ég fari aftur á byrjunarreit og mér finnst afskaplega erfitt að ganga í gegnum verkina sem fylgja því að byrja að hreyfa mig aftur eftir langan tíma þrátt fyrir að ég sé meðvituð um að það er mér fyrir bestu til lengri tíma litið.

Einkenni vefjagigtar – mynd fengin af Pinterest

Leitin að réttu hreyfingunni

Á meðgöngunni hef ég verið í meðgöngujóga og kíkt af og til í ræktina þegar ég er extra hress. Ég er ekkert alveg að finna mig í jóga því miður. Öll umræða um þriðja augað, fjólublátt ljós, árur og þess háttar höfða lítið sem ekkert til mín og ég get ómögulega ákveðið það hvort ég eigi að vera liðugur köttur í fæðingunni minni eða stöðug og föst fyrir eins og fjallið. Vandamálið er að mig langar ekki að vera húsdýr né fjallgarður í fæðingunni. Mig langar bara að vera kvartandi, neikvæða ég að fæða barn inni á sótthreinsuðum spítala með manninn minn mér við hlið stappandi í mig stálinu. Eins og gefur að skilja þá fann ég mig knúna til þess að leita á önnur mið. Göngutúrar eru það versta sem ég geri mér vegna grindarinnar en hjólið hefur verið mér hliðhollt. Áður en ég varð ófrísk var ég ágætlega dugleg við að lyfta og mig hefur langað svo mikið til þess að halda því áfram á meðgöngunni en þegar ég mæti í salinn þá fallast mér hálfpartinn hendur því ég veit ekki alveg hvað er óhætt að gera og hvað ekki og hvernig ég gæti aðlagað æfingarnar að plássfrekri kúlunni. Áður en ég veit af er ég komin á teygjusvæðið, hef ekkert af viti gert og gef frá mér amaleg frumskógarhljóð þegar ég reyni að ná í tærnar mínar.

Fitness gúrú kemur til bjargar

Lausnin birtist mér á hinu alræmda interneti. Vinkonan smellti sér á goggle.is og fann Tammy Hembrow. Ástralskur fitness gúrú! Hún er með lyftinga- og brennsluprógram sem er sérhannað fyrir ófrískar konur á öðrum þriðjungi og síðasta þriðjungi meðgöngu. Það eina sem þú þarft eru lóð og hægt er að gera allar æfingarnar heima. Prógrammið kostar um 5000 krónur og ég vistaði mitt inni á Kindle svo ég get alltaf nálgast það. Ég hef prufukeyrt það nú þegar og mér líður vel og finnst æðislegt að geta gert þetta bæði heima við og í ræktinni. Ég nota lóð alveg niður í hálft kíló til þess að ofreyna mig ekki. Eins og þið hafið komist að þá er ég alls engin ímynd heilbrigðis á þessari meðgöngu. Ég er bara venjuleg ófrísk kona sem langar að geta hreyft sig eitthvað án þess að vera að drepast annað hvort úr væmni (í jóga) eða úr verkjum (í göngutúr). Ég hvet ykkur til þess að finna hvað hentar ykkur. Við erum ekki allar steyptar í sama form og ef við getum ekki hreyft okkur á meðgöngunni þá er það bara allt í lagi. Það eina sem skiptir máli er að koma barninu heilu í heiminn.

Mynd fengin af tammyhembrow.org
Virklega flott kona – mynd fengin af dailymail.co.uk

Vefsíða Tammy Hembrow: HÉR

Óléttuprógrammið: HÉR

Hún Tammy er víst ekki ófrísk allan ársins hring og býður einnig upp á venjuleg ræktar og matarprógrömm á síðunni sinni fyrir ykkur sem hafið áhuga.

 

 

Anna Ýr

Anna Ýr Gísladóttir er förðunarfræðingur, móðir og stjúpmamma, fagurkeri, heklari og föndrari ásamt mörgu öðru! Þú finnur Önnu á Instagram undir @annayrgisla