Spurningar á borð við: „Afhverju fær barnið þitt ekkert nammi?” eða: „Hvenær ætlaru að byrja gefa barninu þínu nammi?” eru spurningar mér finnst ég fá alltof oft. Við maðurinn minn ræddum það mikið þegar við áttum von á stelpunni minni að við ætluðum að gera allt sem við gætum til að koma í veg fyrir að hún fengi nammi og aðra sykraða fæðu eins lengi og hægt er. Lovísa dóttir mín er núna tæplega tveggja ára og hefur hvorki smakkað köku, kex, sykraða drykki né annað sætindi en elskar hins vegar epli, melónu og bláber. Þeir sem umgangast Lovísu vita að við gefum henni ekki sykraða fæðu og höfum við passað upp á það sé virt.

Þegar við höfum farið í afmæli eða á aðra viðburði sem eru sætindi í boði hef ég alltaf tekið bara smá ávexti með handa henni og alltaf fæ ég að heyra það sama: „Greyjið Lovísa, horfir á hin börnin fá köku meðan hún kjamsar á melónubitum”. En það er nefninlega alls ekkert „greyjið“ hún. Í fyrsta lagi veit hún ekki hvernig kaka bragðast, í öðru lagi er melóna það besta sem hún fær og í þriðja lagi, sem er að mínu mati það besta, hún verður laus við sykurfíknina. Sykurfíkn er mjög stórt orð og að sjálfsögðu myndast ekki fíkn hjá börnum sem fá afmælisköku annað slagið en að innbyrgða sykur í miklu óhófi hefur í för með sér auknar líkur á offitu, sykursýki 2, tannskemmdum og hegðunarvanda svo fátt sé nefnt.

Það er í raun líka sorglegt hvað það er mikill sykur í fæðu sem er ætluð börnum eins og bara skvísum, ávaxtadjúsum og jafnvel ungbarnagrautum. Þess vegna finnst mér nauðsynlegt að lesa yfir innihaldslýsingar og vera smá meðvituð um hvað er í fæðunni sem ég er að gefa barninu mínu, eru þetta innantómar hitaeiningar eða réttu næringarefnin? Það er ótrúlega erfitt að sneiða framhjá öllu óhollu þar sem sykur finnst í svo mörgu en að halda öllu í hófi og velja alltaf hollasta kostinn er lykilatriði.

En ég hef líka ótal oft heyrt setningar á borð við; „Barnið mitt átti ekki að fá neinn sykur en svo stakk amman uppí hann/hana súkkulaðikexi og þá var ekki aftur snúið.“ En það er aldrei of seint því hvor er það sem ræður og hvor hefur meira vit? Að sjálfsögðu er erfiðara að hætta gefa barni nammi sem er orðið vant því en það er alls ekki ógerlegt. Tveggja ára barn á ekki að stjórna né hafa vit á því hvað er því fyrir bestu.
Ég geri mér samt alveg fulla grein fyrir því að ég mun ekki alltaf geta stjórnað því hvað hún borðar, en meðan að það er ég sem stjórna þá að sjálfsögðu vel ég það besta og hollasta fyrir hana.

Dóttir mín himinlifandi með vínber.

Ég verð líka alltaf jafn hissa þegar ég sé aðra foreldra gefa börnunum sínum mjög óhollan mat eða drykki. Sérstaklega þar sem það er búin að vera meiri vitundarvakning um sykur í samfélaginu á seinustu árum og fólk meira meðvitað um innihaldslýsingar. Samt eru ekki meira en tvær vikur síðan ég sat við hliðiná pari í flugvél en þau voru með sirka sex til átta mánaða gamalt barn með sér. Þegar um hálftími var liðinn af fluginu byrjaði barnið að verða pirrað og pabbin tók upp fernu af eplasvala og hellti í pela og gaf barninu. Í einum svala eru 28gr af sykri (meiri sykur en er í sama magni af Coca Cola). Ef ég myndi yfirfæra sykurmagnið yfir á mig þá væri þetta eins og ég myndi drekka 7-8 svala í einni setu og ég vil ekki ímynda mér hvernig mér myndi líða í líkamanum að því loknu.

Ég leyfi mér að halda að allir foreldrar séu alltaf að reyna gera það besta fyrir barnið sitt og því langar mér í lokin að minna foreldra á að hugsa aðeins áður en þið stingið næst sælgætismola uppí börnin ykkar. Það tekur ekki meira en tvær til þrjár mínútur að skera niður ávexti í skál og barninu mun líða miklu betur andlega og líkamlega.

María Stefáns

María Stefáns er 25 ára móðir og unnusta, með mikinn áhuga á öllu sem tengist heimilinu og hollum lífsstíl. Starfandi naglafræðingur á Hár & Dekur og hefur lokið BS gráðu í sálfræði við HR.
Fylgstu með Pigment.is á Snapchat!