Marg oft hef ég byrjað á þessum pistli í huganum en aldrei fengið mig til að skrifa hann en núna er ég eiginlega alveg komin að þolmörkum hvað þetta málefni varðar eftir að hafa séð ótrúlega margar myndir af útbrotun, veikum börnum og öðru. Það sem truflar mig einna mest hvað málið varðar er að börnin sjálf hafa ekkert að segja um það hvort myndir af líkömum þeirra eru settar á Facebook grúppur. Þrátt fyrir trúnað í hvers kyns grúppum er það ljóst að misvandaðir einstaklingar eru þar á meðal, ásamt því að einhverjir gætu „hakkað“ sig inn í þær.

„Ef að þú hefur áhyggjur af heilsu barnsins þíns farðu með það til læknis – ekki nota facebook sem heilsugæslu“

Ef að þú hefur áhyggjur af heilsu barnsins þíns, farðu með það til læknis. Það er alltaf hægt að komst til læknis með barnið sitt. Það eru margar leiðir til að leita hjálpar og eru hér nokkrar mjög skotheldar lausnir. Veldu það sem þú heldur að virki best fyrir þig og barnið þitt.

Það er hægt að panta tíma í Domus og fara með barnið til barnalæknis.
Það er hægt að fara í Domus á barnalæknavaktina eftir lokun venjulegs tíma á Domus.
Það er hægt að fara á læknavaktina á Smáratorgi.
Það er hægt að fara á Heilsugæsluna.
Það er hægt að hringja í 1770 og fá að tala við hjúkrunarfræðing og ef hún metur ástandið þannig að senda þurfi lækni til þín þá er það gert.
Ef að um neyðartilfelli er að ræða ferðu með barnið annað hvort á Barnaspítala Hringsins eða inná Bráðamóttöku í Fossvogi ef þú kemst ekki sjálf/ur með barnið færðu aðstoð með að hringja í 112.

Að mínu viti er ekki gott að nota Facebook hópa til að spyrja hvað ami að barninu þínu. Þú ert augljóslega með áhyggjur af barninu ef þú ert farin að spyrja ráða og þá er kominn tími til að fara með barnið til læknis.

Alltof margir leita ráða á Facebook og svörin eru jafn misjöfn og þau eru mörg. Fæstir vita hvað amar að barninu þínu svo það er ótrúlega sniðugt að leita ráða hjá fólki sem hefur menntun til að finna út hvað er að.

Virðum friðhelgi barna okkar.

Þórunn Eva er þekktust fyrir bókina Glútenfrítt Líf. Hún er gift, tveggja barna móðir og fagurkeri, en hún flytur einnig inn hinar vinsælu Lulu’s snyrtitöskur.