Fyrir nokkru síðan uppgötvaði ég ótrúlega skemmtilega bloggsíðu með uppskriftum sem mér fannst koma skemmtilega að óvart; en þær áttu það allar sameiginlegt að vera glútenfríar. Þórunn Eva Guðbjargardóttir Thapa rekur bloggsíðuna og skrifaði samnefnda bók sem heitir Glútenfrítt Líf og er til að hjálpa þeim sem vilja byrja glútenfrían lífsstíl, eða bara prófa sig áfram með skemmtilegar uppskriftir og lesa góða pistla um snyrtivörur, hreyfingu og fleira. Þar að auki byrjaði hún nýlega með fyrirtæki sem flytur inn og selur hinar vinsælu Lulu’s snyrtitöskur, en þær eru hannaðar og framleiddar í Noregi.

profileforblog

Ég hitti Þórunni Evu í smá spjall á dögunum þar sem við ræddum bæði bókina, glútenfrían lífsstíl, Lulu’s og margt fleira.


Bókin þín hefur notið mikilla vinsælda, bæði meðal fólks sem aðhyllist glútenfrían lífstíl og þeirra sem vilja prófa sig áfram. Bjóstu við því að þetta yrði svona stórt? Nei í raun ekki, ég er órúlega ánægð með þetta. Glútenfrí bók er klárlega frekar þröngur markhópur og bjóst því ekki við miklu en þetta er klárlega eitthvað sem hefur vantað á íslenskan markað lengi því ég hef fengið ótrúlegar viðtökur við bókinni. Margir eru alveg týndir fyrst og því er gott að lesa bókina því þar kem ég því ágætlega frá mér hvernig best sé að byrja glútenfrían lífsstil. Þetta fór klárlega fram úr mínum björtustu vonum og ég elska að ég geti hjálpað fólki við að breyta lífi sínu til hins betra.

glutenfri_forsida

Hvenær ákvaðstu að taka allt glúten út úr mataræðinu og hvers vegna? 

Það var árið 2009 sem ég greindist með hveiti ofnæmi og varð því að taka út allt hveiti og fylgdi glútenið því bara með. Þetta er ansi líkt þó þetta sé samt mjög ólíkt. Það er glúten í hveiti en það eru alveg til glútenfríar vörur sem innihalda hveiti. Hveiti sterkja er til dæmis mikið notuð í glútenfríar vörur og ef þú ert með ofnæmi fyrir hveiti þá hentar það alls ekki. Það eru allskonar svona dæmi til og því er þetta ansi flókið oft að koma sér inní en með tímanum þa lærist þetta og verður ansi hversdagsleg hugsun. Maður lærir lika ansi fljótt hvað er glútenfrítt og inniheldur hveiti og hvað ekki.

Hverjir myndirðu segja að væru helstu kostir glútenfrís lífs? 

Helstu kosturinn eru að líkaminn fær frí frá hveitinu. Ég hugsa til dæmis miklu meira um hvað ég læt ofan í mig og á húðina mína. Ég held að það hafi verið svona mín mesta áskorun að læra að lesa utan á allt sem ég kaupi. Ég lærði helling á því. Það er ansi margt sem ég hef lesið utan á í verslunum sem auglýst hefur verið sem heilsuvara sem kemur í ljós að er það bara alls ekki. Glútenrítt líf er ekki nauðsynlegt fyrir alla því ef þú þolir hveiti þá er í raun ekkert sem mælir gegn því að þú neytir hveitis. En ef þú ert með líkamleg einkenni eins og liðverki, kviðverki og húðvandamál sem dæmi þá mæli ég með að prófa það því ég losnaði við allt svona þegar ég tók út hveitið. Ég er reyndar með húðvandamál sem hvarf ekki alveg en það eru aðrar skýringar á því vandamáli. Ég vakna hressari, ég sef betur, ég er laus við kviðverki með öllu ef ég hugsa bara um hvað ég læt ofan í mig. Þetta er allt annað líf fyrir mig. Ég eignaðist nýtt líf við að taka þetta út.

Er eitthvað sem þú saknar sérstaklega í mataræðinu? 

Já klárt mál. Ég sakna þess að fara útí bakarí og kaupa mér góð rúmstykki til að smyrja og hafa kósý til dæmis í morgunkaffi um helgar. Ég sakna þess að geta bara sest niður þar sem ég kem í heimsókn og geta fengið mér það sem boðið er uppá í stað þess að horfa á hina fá sér. En þegar á heildina er litið þá sakna ég þess ekkert að líða alltaf illa svo ég reyni að hugsa það þegar ég fer að sakna einhvers úr gamla hveiti lífinu. Ég hélt í alvörunni samt að þessi spurning yrði auðveld. Hún var það alls ekki. Ég varð að hugsa mig lengi um því þessi tilfinning hverfur hægt og rólega sé ég. Éf þú hefðir spurt mig fyrir ári síðan þá hefði ég verið með svörin á hreinu strax. Eitt sem mér dettur í hug samt er að þegar ég er á ferðinni og verð svöng NÚNA, þá sakna ég þess ansi mikið að geta hlaupið einhverstaðar inn og keypt mér eitthvað sem hægt er skella í sig á engum tíma.

Nú átt þú börn og mann; hvernig áhrif hafði nýji lífstíllinn á fjölskyldulífið varðandi matmálstíma og annað?

Það hafði alveg árhif og hefur enn og þá sérstaklega þegar við kannski erum ekki að elda á hverju kvöldi sem við reynum reyndar að gera. En þá oft borða ég eitthvað annað en þeir (eiginmaður og 2 synir). Það sem er reyndar krúttlegast er að yngri sonur okkar spyr stanslaust hvort hitt og þetta sé glútenfrítt því hann er greinilega á milljón að leggja það á minnið hvað er glútenfrítt og hvað ekki svo matmálstimarnir fara oft í þær pælingar. Hann til dæmis var ofsalega ánægður um daginn þegar hann spurði hvort við gætum fengið okkur hund. Ég spurði hann af hverju og hann svaraði að hann væri glútenfrír. Það var ekki hægt annað en að hlæja sérstaklega þar sem ég er með slæmt hundaofnæmi. Annars er þetta bara orðið eðlilegt allt en það getur oft verið mjög erfitt að velja hvað á að vera í matinn þegar við höfum lítinn tíma til að undirbúa mat.

eplabaka3

Hvaða réttur er í sérstöku uppáhaldi hjá þér þegar þú ætlar að gera vel við þig? 

Það fyrsta sem mér dettur í hug er kósý kvöldstund, gott grillað kjöt frá Kjötkompaníinu, gott salat, sætar kartöflur og venjulega kartöflur í bland og heimatilbúin sósa (tengdamamma er snillingur í að búa til góðar sósur sem ég má borða). Í eftirrétt er svo æðislega góð eplakaka sem ég fékk upphaflega frá tvíburasystir minni en breytti örlítið og vanilluís með. Þetta er svona mitt allra uppáhalds þegar mig langar að dekra við mig.

14355610_2219340361537860_3038531808646918208_n

Þú byrjaðir nýverið með annað fyrirtæki; Lulu’s Ísland, sem selur snyrtitöskur. Segðu okkur aðeins frá hvernig það kom til og hvernig viðtökurnar hafa verið? 

Það kom til þannig að tvíburasystir mín gaf mér eina slíka í jólagjöf jólin 2011 að mig minnir. Ég kolféll fyrir henni og þeir sama hafa séð hana hjá mér hafa óskað sér að eiga svona tösku síðan. Ég var alltaf með þá hugmynd að koma með þær til Íslands sem varð aldrei úr, en ég hætti aldrei að hugsa um þær. Einn daginn sló systir mín til og sendi skvísunum hjá Lulu´s í Noregi bréf og þær voru rosa spenntar fyrir samstarfi. Það voru þó ákveðnir hlutir sem við vorum ekki alveg sammála um og því dróst þetta aðeins á langinn. Eftir næstum 2 ár í e-mail samskiptum, hitting í Ikea í Kristiansand og símtölum náðum við samkomulagi og komu þær til landsins núna í byrjun júlí 2016. Viðtökurnar eru stórkostlegar sem er frábært og vonandi náum við að koma okkur þægilega fyrir hérna á íslenskum markaði því það er svo sannalega vöntun á vöru sem þessari. Þessar töskur eru hágæðavörur á mjög viðráðanlegu verði og því ættu flestir að geta eignast allavega eina ef ekki tvær eða fleiri. Það er auðvitað alltaf erfitt að koma með nýja vöru á markað og það er mikil vinna en þetta er merki sem ég hef 100% trú á að smellpassi inná íslenska markaðinn.

14089135_2218928841579012_5447712784156403516_n

Þú hefur náð ótrúlega langt með það sem þú ert að gera. Hvað myndirðu segja að sé mikilvægast þegar maður ætlar að láta draumana sína rætast?

Það mikilvægasta er að hafa gaman að því sem þú ert að gera og gera vel það sem gert er. Það skiptir öllu máli. Ef ástríðan er til staðar eru allir vegir færir. Ég er líka algjörlega óhrædd að leita eftir hjálp, fá fólk til að kenna mér og prufa mig áfram. Ég er líka á þeirri skoðun að maður græðir alltaf á að vinna með öðrum. Fá stærri fyrirtæki til að aðstoða mann því það er til svo ótrúlega mikið af flottum hæfileikaríkum einstaklingum þarna úti sem hafa staðið í sömu sporum og maður sjálfur og eru tilbúnir að miðla reynslu sinni. Maður græðir aldrei á því að vera einn í sínu horni að pukrast og reyna að finna upp hjólið.

Það sem er líka mikilvægt er að trúa á sjálfan sig. Trúa því að þú getir þetta og gleyma ekki af hverju þú byrjaðir. Reyna að halda persónuleika þínum í því sem þú ert að gera og vera staðföst. Þolinmæði er lika rosalega stór partur og vera samkvæmur sjálfum sér. Eins og með síðuna Glútenfrítt Líf þá reyni ég að vinna allt rosalega vel sem ég set frá mér. Það er ekki gáfulegt að halda úti bloggi um þennan lífsstíl og vera svo með rangar upplýsingar. Ef það kemur í ljós að eitthvað er rangt hjá mér þa leiðrétti ég það um leið og biðst afsökunar á að hafa ekki vitað betur. Ég held að það hafi gerst kannski tvisvar. Ég reyni að fræða sjálfan mig þar til ég kemst að þeirri niðurstöðu að það er hundrað prósent rétt sem ég er að leiðbeina fólki. Það er betra að setja inn færri blogg og hafa þau vel unninn en að setja inn mikið og svo er ekkert vit í því sem verið er að setja inn.

Maður græðir á því, þetta er langhlaup en ekki spretthlaup eins og svo margt annað í lífinu.

Do what you love, love what you do – þá kemstu þangað sem þú ætlar þér.

GLÚTENLAUS EPLAKAKA

eplabaka1

125 gr smjör (ég nota saltlaust)
125 gr sykur
125gr GF hveiti
1 tsk vínsteins lyftiduft
2 msk hakkaðar möndlur
2 msk púðursykur
1/2 tsk kanill
2 tsk lakkrísduft frá Johan Bülow (fæst í Epal)
2 egg
3-4 epli fer smá eftir stærð, ég nota græn.

Blandið öllum þurrefnum saman. Skerið smjörið í lilta bita og klípið saman við þurrefnin. Pískið eggin saman í skál og hellið þeim við þurrefnin og smjörið og þeytið hratt og vel.

Setjið í kökuform eða eldfast mót. Blandið saman púðursykri, kanil og 1 tsk af lakkrísdufti frá Johan Bülow og stráið yfir. Stráið svo yfir hökkuðum möndlum í restina. Bakist við 200° í ca 20 mín.
Þið verðið alls ekki svikin af þessar æðislegu eplaköku. Gott er að borða hana með ís eða rjóma.

eplabaka6


Ég þakka Þórunni kærlega fyrir spjallið og hvet ykkur til að fylgjast með blogginu hennar HÉR, en hún heldur einnig úti Facebook síðu og Instagram aðgangi. Einnig er hægt að fylgjst með Þórunni á Snapchat ef þið addið „glutenfrittlif.“

Ef þið viljið fylgjast með Lulu’s á Íslandi þá getið þið kíkt inn á heimasíðuna þeirra HÉR og jafnvel pantað ykkur gullfallega snyrtitösku.

Gunnhildurbirna-1

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig flugfreyja, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta og hundamamma.

Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is