Það líður allt hjá. Þessa setningu heyrði ég oft hjá einum vini mínum þegar eitthvað bjátaði á. Sannari orð eru varla til. Hvort sem það eru tilfinningar, veður, erfiðar aðstæður eða annað, þá er viss „huggun“ í því að vita að það mun allt koma til með að líða hjá á endanum og stundum þarf maður bara að vera þolinmóður, horfast í augu við hlutina og vinna í þeim.

Ekki bera okkur saman við aðra

Við göngum öll í gegnum eitthvað á lífsleiðinni. Gryfja sem margir falla þó í er að bera sig saman við aðra hvað lífsgæði og lífsreynslu varðar. „Ég hef kannski lent í þessu en Sigga hefur sko lent í miklu verra…“ „Jóna veit ekki hvað hún hefur það gott…“ og þar fram eftir götunum. Við verðum að muna að það er ekki til mælikvarði á hversu erfitt er að ganga í gegnum eitthvað, heldur er það persónubundið hvernig hver og einn dílar við hlutina. Ég bar til dæmis oft saman hluti sem ég hafði upplifað við aðra og gerði ýmist lítið úr þeim í samanburðinum eða varð öfundsjúk út í annað fólk því mér fannst það hafa það betra. Þessar hugsanir eru tilgangslausar með öllu og eru einungis til þess fallnar að láta okkur sjálfum eða öðrum líða verr.

c78b815855fd9fe92be021383650c03d

Afleiðingar og geðræn veikindi

Erfiðleikum fylgja afleiðingar. Stundum eru þær líkamlegar en þær geta einnig verið andlegar. Geðsjúkdómar eins og þunglyndi, kvíði, áfallastreituröskun, geðhvörf, geðklofi og svo margt annað getur verið fylgifiskur þess að upplifa erfiðleika og við megum ekki gleyma því sem ekki sést á yfirborðinu. Geðsjúkdómar fara heldur ekki í manngreinarálit og hver sem er getur orðið fyrir barðinu á þeim, þrátt fyrir að hafa átt bara nokkuð „áfallalaust“ líf ef svo mætti kalla.

Mikil umræða skapaðist í haust með myllumerkinu #égerekkitabú og fögnuðu flestir þeirri byltingu. Fólk kom fram á Facebook, Twitter og í öðrum miðlum með sínar sögur af andlegum veikindum og hjálpuðu þar af leiðandi fleirum að gera slíkt hið sama. Við þurfum þó að muna að þessi umræða þarf að halda áfram og við þurfum að normalísera andleg veikindi þar sem að talið er að mikill meirihluti fólks upplifi einhverskonar útgáfu af þeim á lífsleiðinni. Það að skammast sín fyrir andleg veikindi er álíka kjánalegt og að skammast sín fyrir fótbrot, krabbamein eða eitthvað þvíumlíkt. Sjálf hef ég farið í gegnum þann pakka að skammast mín fyrir að líða illa, sem er að sjálfsögðu órökrétt þar sem að flestir upplifa það á lífsleiðinni og þetta eru veikindi eins og hvað annað. Andleg veikindi geta verið banvæn, samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdarstjóra Geðhjálpar í viðtali á mbl.is eru sjálfsvíg algengasta dánarorsok ungra karla á Íslandi, sem er auðvitað langt frá því að vera í lagi. Þessari byltingu samfélagsmiðla ber því að fagna. Einnig þeirri staðreynd að hversu „mikið“ eða „lítið“ fólk hafði upplifað, þá kom það fram með sögur sínar, sannaði að við göngum langflest í gegnum eitthvað; erfiðleika sem hægt er að sigrast á og standa uppi sem sigurvegari.

dd787742176d36befbae3b5ead7a2683

Mín saga – Við þurfum að ná í hjálpina

Að vísu tók ég ekki þátt í #égerekkitabú byltingunni á Facebook þar sem að ég einfaldlega treysti mér ekki í það á þeim tíma. En ég vil nýta þennan vettvang sem ég hef til þess að opna mig. Það sem ég skrifa núna er ekki til þess að ná mér í vorkunn eða fá klapp á bakið. Ég vil einfaldlega leggja mitt af mörkum til þess að opna á umræðuna fá fleiri til að stíga fram og sækja sér þá hjálp sem þeir þurfa. 

Frá unga aldri hefur þunglyndi og kvíði verið reglulegur og oft stór hluti af mínu lífi. Það getur verið að mín lífsreynsla hafi haft eitthvað að segja þar og mjög líklega er það tilfellið, en þó þarf það ekki endilega að vera. 

Ég gerði mér fyrst grein fyrir að ekki væri allt með felldu hjá mér andlega séð þegar ég var í kringum 14 ára. Ég hafði upplifað mjög slæmt einelti alla mína skólagöngu, sem hélt áfram fram yfir grunnskóla. Ég var orðin hættulega þunglynd og skildi í raun ekki hvað var í gangi þar sem að umræðan var svo lítil á þeim tíma. Ásamt því strögglaði ég við margt annað fram eftir aldri, en það fór örlítið að róast um hjá mér þegar ég var að verða 22ja ára og fékk loks almennilegt tækifæri til þess að vinna í hlutunum. Það mætti segja að ég hafi lent á botni í kjölfar neyslutengdra og ofbeldisfullra atburða, en ég var ein af þeim sem bar til þess gæfu að standa upp í kjölfarið og vinna í hlutunum. Hvaðan ég fékk styrkinn til þess veit ég ekki, þar sem að mér hefur aldrei liðið eins og ég ætti jafn lítið eftir. Það sannar bara að allt er hægt. 

Síðan þá, eða á tæpum sjö árum, hef ég eytt meiri tíma í sjálfsvinnu en ég kæri mig stundum um að viðurkenna. Ég fór í samtalsmeðferðir, á allskyns fundi og námskeið og fékk viðeigandi lyf sem ég þurfti á að halda. Einnig átti ég ofboðslega gott fólk í kringum mig sem hélt mér uppi þegar þörfin var mest en maður þarf að muna að stundum er allt í lagi að treysta á aðra. Fyrir vikið tel ég mig vera bæði betri og vandaðri manneskju. Ég hef fengið að upplifa allan tilfinningaskalann, allt frá svartasta þunglyndi upp í gleði og þakklæti. Ég hef fengið dýpri skilning á sjálfri mér og tilfinningum hjá öðrum, ásamt því að kunna að meta andlegt og líkamlegt heilbrigði mitt í dag. Það kann að hljóma skringilega en ég er virkilega þakklát fyrir fortíð mína, alveg nákvæmlega eins og hún var. Ég hefði líklega ekki fundið hjá mér þörf til að taka sjálfa mig svona í gegn ef ég hefði átt auðveldara líf. Það er mér líka ómetanlegt að geta verið til staðar fyrir aðra sem standa mér nærri í dag og leita hjálpar. Í dag er ég virkilega þakklát fyrir það góða fólk sem kom að því að rétta mér hjálparhönd þegar ég þurfti, hvort sem það voru fjölskylda, vinir eða læknar. 

Það sem ég er að reyna að koma orðum að með þessari reynslu minni er fernt: 

  • Það er allt í lagi að brotna
  • Það er allt í lagi að biðja um hjálp
  • Andleg veikindi eru ekkert til þess að skammast sín fyrir
  • Við berum ábyrgð á okkar eigin heilsu

En afhverju skrifaði ég þetta núna? Afhverju tók ég ekki í byltingunni á samfélagsmiðlum þegar það stóð sem hæst? Kannski er það einfaldlega betri tími núna, en mér fannst ég mega til með að leggja inn mínar skoðanir og reynslu og ég vona að það hjálpi að minnsta kosti einni manneskju. Eins og áður sagði í greininni, þá líður líka allt hjá. En á meðan hlutirnir eru að ganga yfir þurfum við að treysta því að við komumst í gegnum þá, ásamt því að láta reyna á hjálp fagaðila og ástvina.

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig flugfreyja, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta og hundamamma.

Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is